30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

151. mál, málflytjendur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans við þeim fyrirspurnum, sem ég bar fram hér áðan.

Mér kom það alls ekki á óvart, þó að það væri talsvert erfitt fyrir hæstv. ráðh. að svara þessum spurningum, vegna þess að þetta er einmitt atriði, sem mjög hefur verið rætt á meðal málfærslumanna á undanförnum árum, án þess að menn væru raunverulega fullkomlega á einu máli um, hver ætti að hafa þarna úrskurðarvaldið og eftirlitið. Ég vildi því einmitt í framhaldi af þessu, sem hér hefur fram komið, fara fram á það við hæstv. dómsmrh., að hann athugi þetta atriði nánar og reyni að sjá til þess, að það komist alveg á hreint og verði gert ótvírætt, hverjum ber að hafa eftirlitið, og síðan verði séð um, þegar því hefur verið slegið föstu, hver á að hafa eftirlitið og með hverjum hætti það skuli framkvæmt, að fengnar verði ákveðnar reglur og hreinar línur verði dregnar um það, hvað teljist að hafa opna skrifstofu.

Ég vil alveg sérstaklega vara við þeirri hugmynd, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að velta því algerlega yfir á félag málfærslumannanna sjálfra, hvort hafizt verður handa um að taka rétt af mönnum eða ekki, vegna þess að þeir hafi ekki raunverulega opna skrifstofu. Ég held, að félag málfærslumannanna sé einmitt sá aðilinn, sem langhæpnast er að treysta á um aðgerðir í þessum efnum. Það er af ótalmörgum ástæðum mjög óþægilegt fyrir málfærslumannafélagið og málfærslumennina sjálfa að þurfa að standa í þessu, getur valdið leiðindum og öðru slíku, sem þeir gjarnan vilja vera lausir við. Það er alveg tvímælalaust, að það er annaðhvort dómsmrn. eða hæstiréttur, sem á að hafa eftirlitið og sjá um framkvæmd á þessu, og það verður að ætlazt til þess, að þessir aðilar ótilkvaddir hefjist handa um framkvæmd, ef þeir sjá ástæðu til, án þess að nokkrir þurfi að koma þar utan að.

Það er þá ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram í þessu sambandi, en ég vil eins og áður mæla með þeirri till., sem allshn. hefur borið hér fram.