30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

151. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki verið sammála því, sem hv. 6. landsk. þm. (GÍG) sagði um þetta efni nú síðast, vegna þess að það er alveg berum orðum tekið fram í 8. gr. lögmannalaganna frá 1942, eins og ég vitnaði til áðan, með leyfi hæstv. forseta, að „stjórn félags héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna ber að hafa eftirlit með, að félagsmenn fari að lögum í starfi sínu og ræki skyldur sínar með trúmennsku og samvizkusemi“. Og ég veit ekki, hvað kemur undir þetta ákvæði frekar, en það atriði, sem hér um ræðir. Auk þess verður ekki um það deilt, að það atriði, hvort lögmaður hafi skrifstofu eða ekki, er auðvitað fyrst og fremst sett til þess að tryggja sjálfstæða lögmannastétt. Við vitum það, að áður fyrr, meðan ekki var til hér lögmannastétt, þá voru það ýmsir embættismenn, stundum jafnvel skólakennarar og slíkir menn, sem voru málflutningsmenn fyrir yfirréttinum í gamla daga, og þetta ákvæði um, að hæstaréttarlögmaður skuli hafa opna skrifstofu, er auðvitað sett til þess að tryggja það, að menn, sem gegna annarlegum störfum, séu ekki einnig hæstaréttarlögmenn og taki þannig eðlilegt lífsuppeldi frá lögmönnunum. Það er þess vegna sett beinlínis þeim til hags og til tryggingar fyrir þeirra stétt. Það er einnig vitað, að engir eiga betra með að fylgjast með í þessum efnum heldur en einmitt hæstaréttarlögmennirnir. Þeir vita það glögglega vegna síns félagsskapar og náins samstarfs við þá, sem starfa að málflutningi, hvernig þeirra starfsskilyrðum er háttað. Dómsmrn. eða hæstiréttur hafa alls ekki sömu skilyrði í þeim efnum og þó allra sízt dómsmrn., sem lítið beint samband hefur við þessa aðila.

Mér er það að vísu ljóst, að hæstaréttarlögmennirnir eða Lögmannafélagið getur ekki og á ekki samkv. lögunum að hafa um þetta endanlegt úrskurðarvald. Úrskurðarvaldið liggur annaðhvort hjá dómsmrn. eða hæstarétti og þá eftir atvíkum með þeim hætti, að hægt sé að skjóta þeim úrskurði til dómstólanna. En þó að lögmenn mundu lenda í nokkrum vandræðum og leiðindum með því að bera fram slíkar umkvartanir gegn öðrum, sem við þessi störf fást, þá verður ekki undan því komizt. Vandi fylgir vegsemd hverri. Þeim er einmitt í þessum lögmannalögum - og á sínum tíma var það nýjungin, þegar slík lög voru sett — fengið nokkurt sjálfræði og jafnvel úrskurðarvald í tilteknum málum. Slíku sjálfræði fylgir ábyrgð og óþægindi. Ef þeir vilja losna við óþægindin, þá er eðlilegt, að af þeim sé tekið sjálfræðið líka og þeir séu sviptir þeirri aðstöðu, sem þeir hafa í þessu efni. En ég vil ítreka það, að það er einmitt ekki eðlilegra um neitt atriði annað frekar en þetta, að þeir bendi á, hvað þeir telja aflaga fara, vegna þess að ákvæðið er sett beinlínis þeim til fjárhagslegs framdráttar og þeir eiga þar að auki auðveldast með að fylgjast með því, hvort þessu skilyrði er fullnægt eða ekki. Nú tek ég það fram, að ég hef ekki skoðað þetta mál til hlítar, hafði sannast sagt ekki komið auga á þann vanda, sem í þessu efni er, fyrr en hv. 6. landsk. þm. vakti athygli á því hér við umr., og það er sjálfsagt, að dómsmrn. láti athuga þetta frekar í samráði við alla aðila. En ég vil ítreka það, að mér finnst mjög eðlilegt, að lögmennirnir eigi þar sinn þátt í, jafnvel þó að það komi ekki til greina, að þeir eigi að hafa hið endanlega úrskurðarvald.