30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

151. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bið nú forseta d. afsökunar á því, hve oft ég þarf að tala, en hér er um mikils háttar mál að ræða, og þar sem langar ræður eru fluttar, þar sem mér þykir allmikils misskilnings gæta, verður ekki komizt hjá því að fara um þær nokkrum orðum.

Hv. 6. landsk. hafði sannarlega misskilið mín orð. Hann talaði um, að ég hefði sagt, að skilyrðin, sem sett eru fyrir því, að málflutningsmenn fái leyfi, væru sett stéttinni til hags, en ekki almenningi. Þetta sagði ég alls ekki almennt um skilyrðin. Ég talaði einungis þar um skrifstofuhaldið, og það verður ljóst og kom raunar berlega fram af orðum hv. 8. þm. Reykv., sem þó vildi mótmæla því, sem ég sagði, að sá virðulegi og ágæti þm. var mér sammála að efni til. Hv. 8. þm. Reykv. benti einmitt á þá staðreynd, að fjöldi manna hefur tekið að sér meiri og minni málflutning, þótt þeir hafi öðrum störfum að gegna og hafi jafnvel ekki opnað sérstakar lögmannsskrifstofur. Þetta sagði þessi ágæti þingbróðir okkar, hv. 8. þm. Reykv., að leiddi svo til þess, að aðrir fengju of lítið að gera, hefðu ekki efni á því að gefa sig eingöngu að málflutningsstörfum og yrðu að taka að sér önnur störf. Sem sagt, ef þessir menn fengjust ekki við málflutninginn, mundu hinir hafa betri fjárhagsaðstöðu og þess vegna hafa hægara með að gefa sig eingöngu að sinum störfum. Vitanlega er þessum mönnum ekki fengin þessi aðstaða í lögunum vegna þess, að menn vilji endilega, að þetta fólk græði mikla peninga. Það er ekki sú ástæða, heldur vegna þess, að það er talið nauðsynlegt fyrir góða málfærslu í landinu, að það séu til menn, sem geti haft ofan af fyrir sér með málflutningsstörfum einum, öðlazt þá sérþekkingu og æfingu, sem þarf til þess að geta leyst þessi störf skaplega af hendi. Þess vegna má segja, að í viðari skilningi er það auðvitað rétt, að ákvæðið er sett vegna almennra hagsmuna. Það er sett vegna þeirra almennu hagsmuna, að það er nauðsynlegt, að vissir lögmenn geti staðið fjárhagslega á svo öruggum fótum, að þeir þurfi ekki að vera á snöpum eftir annarlegum störfum. En það breytir ekki því, að þessir menn hafa sjálfir beinan fjárhagslegan hag af því, að ekki séu menn, sem koma úr annarlegum störfum og taka bitann frá þeirra eigin munni, eins og mér skilst að þessir góðu lögfræðingar, sem hér hafa talað, telji nú að hætta sé á varðandi þá, er hafa leyfi, en ekki hafa opnar skrifstofur. Þess vegna hygg ég, að það sé alveg óhagganlegt, sem ég sagði, að þarna er um beinan fjárhagslegan hag lögmannanna að ræða, og mjög eðlilegt, að þeir sjálfir annist um það að því leyti, að þeir bendi stjórnarvöldunum á, ef þeir telja að, að þessu leyti sé á sig hallað og grafið undan möguleikum sínum til sæmilegrar afkomu, vegna þess að vitanlega getur maður verið góður málflutningsmaður, þó að hann gegni einhverju opinberu starfi og hafi þess vegna ekki sérstaklega opna skrifstofu. Það getur hitzt þannig á í einstökum tilfellum og þess vegna hart aðgöngu fyrir almannavaldið að grípa í taumana, ef þeir lögmenn, sem hafa eingöngu uppihald sitt af lögmannsstörfum, telja enga ástæðu til þess að benda á, að þarna sé ranglega að farið.

Hv. 8. þm. Reykv. hélt því fram, að Lögmannafélagið væri í raun og veru ótæk stofnun að þessu leyti, vegna þess að þar væri svo margt af fólki, sem alls ekki ætti þar heima, fengist í raun og veru við allt önnur störf. En ég vil einmitt benda á það, og það var tilætlun mín með þeim orðum, sem ég hef mælt hér, að samkvæmt lögunum, eins og þau nú eru, hafa þessir menn ekki rétt samkvæmt sinu málflutningsleyfi, ef þeir hafa ekki opnar sérstakar lögmannsskrifstofur, og þess vegna skilst mér, að þeir geti ekki verið löggiltir meðlimir í Lögmannafélaginu, ef rétt er að farið, meðan svo stendur, þeir einir eigi rétt á því að vera í Lögmannafélaginu, sem hafa opnar skrifstofur, að svo miklu leyti sem skrifstofa er skilyrði fyrir því, að þeir njóti síns lögmannsréttar, þannig að þegar að því leyti komi það fram, að einmitt Lögmannafélagið eigi að fylgjast með þessu. En eins og ég segi, þetta mál er ekki athugað til hlítar, og ég tel það mjög vel farið, að þessar umræður hafa hér átt sér stað, og ef ég held áfram að vera dómsmrh., þá mun ég leita samráðs við hæstarétt og Lögmannafélagið um það, hvaða háttur sé hæfilegastur í þessum efnum. En ég get þó ekki varizt því, að mér þætti fróðlegt til leiðbeiningar að heyra álit formanns Lögmannafélagsins, sem hér situr þegjandi undir þessum umræðum, um það, hvað hann teldi rétt vera.