16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

203. mál, klakstöðvar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. var sammála um að flytja frv. þetta, sem hér liggur fyrir, samkvæmt ósk hæstv. landbrh., en hafa þó óbundnar hendur um málið og þar af leiðandi geta fylgt brtt., sem koma fram, og komið fram með brtt. í þessu máli.

Eftir því, sem mér er frekast kunnugt um mál þetta, og eftir þeim gögnum, sem hér liggja fyrir frá veiðimálanefnd á þskj. 529 og einnig frá veiðimálastjóra á sama þskj., þá sýnist þess allmikil þörf, að frv. þetta nái fram að ganga. Það vita allir, að það er hin mesta nauðsyn á því að rækja og koma upp klakstöðvum til fiskiauka, sérstaklega lax og svo einnig silungs. Er von um það, að fjársterkur aðili eða aðilar fáist til þess í sameiningu við ríkisstj. að koma upp þess háttar klakstöð, og hef ég heyrt tilnefnda hér rafveitustöðina hér við Elliðaárnar. En samt sem áður vil ég benda á það núna hér við 1. umr., að ég tel það rétt — og n. mun gera það í samráði við landbrn. eða hæstv. landbrh. — að athuga um, hvort ekki sé rétt að koma fram með breytingar á frv. þessu. Fyrst og fremst geri ég ráð fyrir, að frv. þurfi umorðunar við og sé réttara, að 1. gr. frv. sé orðuð um, þó að efni sé ekki breytt. En samt sem áður er ein efnisbreyting, sem ég tel alveg nauðsynlega, þar sem ég held, að sé ekki, og hef ekki orðið var við, að væri heimild í klaklögunum til að hafa klakstöðvar fyrir silung, þar eð eingöngu virðist hafa verið miðað við laxaseiði og laxaklak í klaklögunum, og því þarf að breyta því. Eftir því, sem ég hef heyrt á landbrh. og hann mun sennilega gera hér frekar grein fyrir, þá er murtan í Þingvallavatni mjög líklegur klakfiskur eða réttara sagt mjög seljanleg vara og þá er ekki síður með regnbogasilunginn, þennan nýja fisk, sem verið er að gera tilraun á hér, svo að þess vegna held ég að væri rétt, svo að ekki geti misskilizt, að hafa hér silungaklak líka samhliða. (Gripið fram í.) Kem að því á eftir og geri þá frekar grein fyrir því.

En þá er það annað, sem hér er um að ræða, og það er það, að verðið á hinum seldu laxaseiðum, sem lögboðið er eftir klaklögunum, er 8 krónur á þúsund. Má ekki fara hærra, og er sjálfsagt að hækka það verð, og kemur þar einn tekjuauki. Tekjur af þessu og til þessara framkvæmda hafa verið lögboðnar í l. um klaksjóð og eru 3 aurar af veiddum laxi og seldum á innlendum markaði. Það er og einnig gert ráð fyrir þar, að 16 þús. séu lagðar fram úr ríkissjóði til þessarar stofnunar, og mun það, eftir því sem mér hefur skilizt, vera tiltækt hjá ríkissjóði og ekki þurfa þar að koma veitingar til, en ég veit það, að hinir höfðinglegu fjárveitingamenn hér munu ekki hika við það, þegar þeir sjá, að hér er um jafnnauðsynlegt fyrirtæki að ræða og þar sem sannast að segja, eftir því sem þeir sjálfir segja, blæs ekki svo byrlega með sölu á öðrum fiski hér, að leggja eitthvað fram til að koma upp slíkri fiskrækt sem hér ræðir um og vitandi vits um, að það væri seljanlegur fiskur, sem ekki þyrfti að sitja með árum saman í íshúsum, áður en honum er komið á útlendan eða innlendan markað. Ég verð að segja það, að það er ekki svo margt hér um feita drætti að afla sér markaðsvöru, sem er vel seljanleg og útgengileg og lítur út fyrir að verði til ágóða fyrir ríki og þjóð, að það sé rétt að setja þar fót fyrir, þó að nokkrar þúsundir kosti.

En þá vil ég taka eitt fram. Hér er mál ekki útkljáð enn um það, hvað einstaklingar vilji leggja fram, og getur vel komið til mála, að þeir verði ekki ófúsir á að leggja fram einmitt til þessara framkvæmda með ríkinu til þess að fá sinn hlut, af því að þeir sennilega sjá þar betri leik á borði, en að dunda við sumar sjávarfiskveiðarnar, sem ekki virðast geta háa vexti af þeirra innstæðum. Þess vegna held ég, að mjög sé varhugavert að synja ríkisstj. um þessa heimild, og ég býst við því, að hæstv. landbrh. muni ekki flana svo að málum, að hann sjái ekki fótum ríkisins í þessu efni nokkuð forráð, og ég hygg það, ef hann leggur sig vel fram í þessum málum, að honum sé ekki ósýnna um það en hverjum öðrum borgara að halda sér og ríkinu þar .á þurru og ganga ekki of djúpt í vatnið.