31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Ég skal viðurkenna það, herra forseti, að ég hef ekki sett mig sérstaklega inn í þetta mál, en mér finnst gæta svo mikils misskilnings hjá þm. Barð. á málinu í heild, að ég held ég verði að segja nokkur orð til þess að reyna að túlka það sjónarmið, sem ég hygg að hér liggi á bak við og ég hygg að þm. Barð. sé líka með, þegar hann athugar málið nánar.

Menn hafa verið sammála um það hér á Alþ. margir — ekki allir, að það bæri að stefna að því að hafa sjúkrahús á nokkrum stöðum á landinu og að það væri óumflýjanlega nauðsynlegt, að við sjúkrahúsið væru tveir læknar. Ég hygg, að þm. Barð. hafi verið sammála mér og öðrum um þetta.

Hér er um stórt og víðlent hérað að ræða, sem eru í, ef ég man rétt, sex læknishéruð. Í staðinn fyrir að fara fram á að reisa hvert um sig eitt lítið sjúkrahús, sem fái hærri styrkinn, sem þm. Barð. var að tala um, þá ætla þau öll að sameina síg um að reisa eitt stórt, gott, fullkomið sjúkrahús og sætta sig við að fá lægri styrkinn til þess að hafa það tryggt, að það þurfi ekki að stofna mannslífum í hættu með því, að það sé einn læknir við þau sjúkrahús, sem reist yrðu í Vík eða niðri á Eyrarbakka eða í Hveragerði eða uppi í Grímsnesi eða austur á Síðu, — það sé einn læknir við það og hann sé að skera upp og þá sé komið að sækja 20, 30, 50, upp í 100 km veg til konu í barnsnauð. Hvað á hann að gera? Á hann að hlaupa frá uppskurðinum og fara til konunnar? Á hann að klára uppskurðinn og láta konuna deyja drottni sínum? Það þurfa að vera 2 læknar við hvert sjúkrahús, svo að slíkt tilfelli komi aldrei fyrir, og þess vegna er það, að Sunnlendingar sjá þetta og vilja þess vegna koma upp einu góðu sjúkrahúsi, þar sem hægt sé að hafa fullkomna og góða aðbúð og alltaf lækni við, þó að annar sé sóttur. Þetta er það, sem Húnvetningar sjá ekki, sem vilja láta koma nýtt læknishérað 20 km veg frá Blönduósi og hafa svo annan lækninn á Blönduósi og að hann hafi sitt stóra hérað, sem hann áður hefur, og eigi svo að hendast af spítalanum út um hvippinn og hvappinn, nema hann ætli sér á eftir að koma með kröfu um nýjan lækni á Blönduósi — þriðja lækninn þá í því læknishéraði. Það er þetta sjónarmið, sem Sunnlendingarnir eru með, og ég tel þetta sjónarmið alveg rétt. Ég tel, eins og reyndar þm. Barð. sagði áðan, þegar hann var að ræða um frv. um breyt. á læknaskipuninni, sem síðan var drepið, — að það mál allt saman þurfi að fá miklu betri undirbúning, en það hefur fengið. Gunnar Thoroddsen var skipaður af Alþ., landlæknir af ríkisstj. og Magnús Pétursson eftir ábendingu Læknafélags Íslands til að undirbúa þetta mál allt saman fyrir mörgum árum og hafa aldrei gert neitt í því. Ég tel það vanrækslusynd. Og ríkisstj. hefur verið ónýt að ganga á eftir, að þeir gerðu það, og það vil ég að hæstv. dómsmrh. heyri, sem hér er, — þetta heyrir að vísu ekki undir hann, en hann er þó einn í ríkisstj., og þetta átti hún að vera búin að gera fyrir löngu.

Þá þarf að taka til athugunar, hvort það sé nokkur ástæða til þess að hafa lækni niðri á Eyrarbakka og lækni í Hveragerði, þegar það kemur stórt sjúkrahús með tveim læknum eða kannske þrem læknum á Selfossi. Hvor skipunin á að vera? Eigum við að bora læknunum út um allt, svo að fólkið þurfi að fara sem stytzt til að ná til þeirra? Það var gert, eftir því sem hægt var, á meðan ekki voru vegir, ekki voru brýr og ekki voru samgöngutæki í því lagi, sem nú er. Eða eigum við að sameina þá á færri stöðum og láta þá þar fá möguleika til þess að geta stundað sín störf miklu betur, en á hinn háttinn? Það er það, sem ég vil, og ég veit, að þm. Barð. vill það líka. Ég veit, að hann vildi miklu heldur, að sjúkrahúsið á Patreksfirði væri enn þá fullkomnara og betra, en það er og að því stæðu Flateyjar-, Reykhóla- og Bíldudalshérað og vegasamgöngurnar væru komnar í það lag, að hægt væri að koma sjúklingunum úr allri sýslunni, úr öllum þessum fjórum héruðum, í þetta eina sjúkrahús, heldur en að fara að baksa í að koma upp nýju sjúkrahúsi á Reykhólum, enn þá einu á Bíldudal o.s.frv. og láta svo allt búa við þröngan kost fjárhagslega og enn þá þrengri kost læknislega séð, þannig að það geti orsakað heilsutjón manns, að ekki er hægt að hafa nema einn lækni við sjúkrahúsin, eigi þau að koma alls staðar.

Þess vegna held ég nú, þó að ég ætli ekki að gera till. um það, að það væri langréttast, — ja, það má ákveða að vísu að koma þarna upp sjúkrahúsi núna, það er hægt að gera það, ef vill, ég tel það ekki neina höfuðnauðsyn, — en ég tel höfuðnauðsyn, að stjórnin láti rannsaka öll þessi mál, hvar þurfi að hafa stór, góð sjúkrahús og tvo lækna eða fleiri við þau og um leið fækka læknum annars staðar. Það á að vera stefnan að mínum dómi. Það hafa ekki verið umr. á Alþ. öllu harðari, en voru um þetta á sínum tíma. Þá varð samkomulag um að setja nefnd, sem átti að finna leið í málinu. Hún hefur sem sagt aldrei gert neitt annað, en að hirða sín laun, sem hún gerði fyrst til að byrja með, og nú er hún víst hætt að hirða þau og líklega líka hætt að hugsa nokkuð um málið. Ég tel, að Alþingi eigi að heimta það af ríkisstj., að hún láti rannsaka þetta mál í heild, og þá er ég viss um það, að þm. Barð. fellur inn á sömu hugsun og ég, að hann mundi heldur vilja hafa eitt gott sjúkrahús á þessu svæði, þar sem þessi 6 læknishéruð eru, heldur en 6 sjúkrahús sitt með hverjum lækni og öll af vanefnum gerð og öll af enn þá meiri vanefnum til að rækja þær læknislegu skyldur, sem hvíla á læknunum, sem þá verða hvort tveggja fyrir héraðið og fyrir sjúkrahúsið. Og það er einmitt það, sem þetta frv. fer fram á. Það fer fram á, að það sé byggt eitt sjúkrahús,

sem sé nægilegt fyrir sex læknishéruð, í staðinn fyrir að byggja sex sjúkrahús með að vísu hærri styrk til að byrja með fyrir sex læknishéruðin, sem á svæðinu eru, en þetta eina, sem hér er gert ráð fyrir að reisa.