15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 2. þm. Árn. var að segja hér í ræðu sinni.

Ég fellst alveg á þau rök, sem hann var að flytja hér og tók upp úr grg. fyrir þessu frv., –grg., sem samin er af formönnum þeirra félaga, sem hafa beitt sér fyrir, að þetta frv. yrði flutt, — um það, að atvinnuástandið í þessari atvinnugrein sé þannig, að það sé nokkur þörf á því að takmarka tölu þeirra bifreiða, sem að þessu starfa eins og sakir standa, og að það að binda í þessu starfi fleiri menn en nauðsyn krefur á hverjum tíma verði til þess, að vinnuafl fari til ónýtis, og önnur slík rök, sem hann tók hér upp úr þessari grg. Þó dregur það nokkuð úr gildi þessara raka hvað vinnuaflið snertir, að það er í fleiri atvinnugreinum svo ástatt nú, að frekar litið er að gera, og þegar er allverulegt atvinnuleysi í landinu, þannig að það er síður en svo, að það væri nokkur trygging fyrir því, þó að fækkað yrði í þessari starfsgrein, að þeir menn hefðu greiðan aðgang að atvinnu annars staðar, þannig að vinnuafl þeirra nýttist nokkuð betur. En samt sem áður er það ekki þetta, sem okkur greinir fyrst og fremst á um, heldur hitt, að ég vil ekki láta binda þessa takmörkun í lög, heldur vil ég, eins og ég gat um áðan, þegar atvinnuástandið í þessari atvinnugrein er þannig, að þá verði reynt að koma fram takmörkuninni með samningum á milli viðkomandi stéttarfélaga og bifreiðastöðvanna, eins og gert hefur verið undanfarið. Og ég vil til stuðnings því, að þessi leið sé bæði heppileg og vel fær, benda á það, að þó að í þessari grg. sé talað um, að 450 bifreiðar séu hér starfandi að fólksflutningum, þá er það nú ekki eins og sakir standa. Þessi grg. var með frv. þegar það var flutt á síðasta þingi, en síðan hefur þessum bifreiðum fækkað niður í 401, og það hefur verið gert án þess að nokkur löggjöf væri fyrir hendi um þetta atriði, aðeins með samningum á milli bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils og bifreiðastöðvanna hér í Reykjavík. Þetta álit ég að sé sú eðlilega leið, sem eigi að fara, og hana sé auðvelt að fara, án þess að nokkur ákvæði séu um það í lögum, og það sé aðeins til hins verra, vegna þess, eins og ég gat um áðan, að þetta ástand er að sjálfsögðu svo breytilegt og miklu auðveldara að miða aðgerðirnar við ástandið á hverjum tíma, ef það er aðeins samningsatriði á milli viðkomandi aðila, en ekki sett um það löggjöf. Þetta er aðeins það, sem okkur greinir á um, en ekki hitt, að atvinnuástandið, eins og það er nú í dag, gefi ekki tilefni til þess að takmarka nokkuð þá tölu bifreiða, sem að þessu starfa. En þó að frv. yrði nú samþ. aðeins eins og það liggur nú fyrir, þá mundi bætast við nokkur takmörkun frá því, sem nú er, vegna þess að þá yrðu útilokaðir frá þessu starfi þeir menn, sem stunda allt aðra atvinnu, en hafa hlaupið í þetta með bifreiðar sínar til samkeppni við hina, sem hafa þetta að aðalatvinnuvegi, og það tel ég meira virði, en að fara að setja löggjöf um hina takmörkunina.

Þá vil ég aðeins drepa á það, að það er ofur lítill misskilningur hjá hv. 2. þm. Árn., þegar hann var að tala um, að þessi takmörkun yrði ekki gerð nema í fyrsta lagi að frumkvæði stéttarfélaganna og síðan með samþykki bæjarstjórnar og dómsmrn. Mér skilst, að í tillögu hans, og eins og það var líka í frv. upphaflega, sé það aðeins komið undir ákvörðun bæjarstjórnar og dómsmrn. án allrar íhlutunar eða tillöguréttar frá viðkomandi stéttarfélögum, og það tel ég líka óheppilegt og eiginlega fráleitt, að stéttarfélögin ættu ekki fyrst og fremst að eiga þá frumkvæðið að því, ef um slíkt væri að ræða. En sem sagt, ég vil helzt, að frv. sé samþ. óbreytt eins og það liggur nú fyrir.