15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mér er illa við einokun í hverri mynd, sem hún kemur fram, og þegar þetta mál kom fram í hv. Nd., þá var það með glöggum einkennum viðleitni til einokunar, og þótt það fengi þar lagfæringu allmikla, þá finnst mér enn ekki laust við það, að finna megi af því keim einokunar. Þó vildi ég ekki sem nm. bregða fyrir það fæti í þeirri mynd, sem það er, en hefði samt fundizt réttara í sjálfu sér, að það hefði verið sniðið til þannig, að það hefði verið heimild handa þeim stöðum einum, sem þeir menn eru frá, sem fluttu málið inn í Alþ., nefnilega þeim stóru stöðunum: Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði. Mér virðist, að það, sem getur átt við á þeim stöðum, geti stundum verið óheppilegt fyrir aðra staði, þó að staðirnir hafi það samnafn að vera kaupstaðir. Mér virðist, að það geti vel svo farið, að í fámennum kaupstöðum geti það verið á margan hátt til óþæginda, þar sem atvinnustarfsemin er nokkuð mikið blönduð, að knýja það fram, að allar þær bifreiðar, sem einhvern tíma eru til leigu, séu skyldaðar til að vera á bifreiðastöð. Þannig háttar til, að ýmsir eiga bifreiðar vegna síns sérstaka atvinnurekstrar, sem gott þykir að grípa til á stundum, t.d. um helgar, til þess að fullnægja óskum almennings um hópferðir, og þá væri það ekki sérstaklega mikið í þágu bifreiðastöðvar, að neitað væri um slíkt, en það væri til óþæginda fyrir almenning. En hins vegar kynnu bifreiðastöðvar að nota sér þetta, þar sem þannig hagar til, og heimta það, að slíkar bifreiðar, sem hjálpa upp á sakir á stundum, væru skyldaðar til þess að hafa afgreiðslu á stöð hjá sér til þess að bera uppi kostnað við stöðina, þó að það væri í raun og veru ekki nema hjálparstarfsemi og ígrip til þess að fullnægja þörfum almennings og óskum, sem þessar bifreiðar inntu af höndum.

Nú hafa komið fram brtt. við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir um að færa það í hið upphaflega einokunarform, og á móti þeim er ég algerlega og hlýt að vera á móti frv., ef þær till. ná fram að ganga. Mér finnst það fjarstæða, ef á að fara að setja lög um það, hvað margir megi stunda vissa atvinnu í hverjum kaupstað. Ég er sömu skoðunar og hv. frsm. n., að ef um takmörkun á að vera að ræða, þá á hún að fást eftir öðrum leiðum, en löggjafarleiðinni. Ef ætti að takmarka leigubifreiðarekstur, hví ekki þá að setja löggjöf um, hvað smiðir mega vera margir o.s.frv.? Inn á þessar brautir vil ég alls ekki ganga. Ég vil ekki gefa neinum atvinnuhóp tækifæri til þess að geta útilokað menn frá ákveðnu starfi á þennan hátt.

Önnur brtt. er um það, að dómsmrn. skuli með reglugerð ákveða um takmörkunina samkv. 1. gr. Mér er spurn: Hvers vegna á dómsmrn. að fara með slík mál sem þessi, ef til kemur? Ég sé ekki, að hér sé um dómsmál að ræða, og eftir verkaskiptingu í stjórnarráðinu fyndist mér sjálfsagt, að hvert mál heyrði undir þá deild, sem hefur með þær starfsgreinar að gera, sem henni eru skyldastar, og þar sem til er samgmrn., þá fyndist mér alveg sjálfsagður hlutur, ef um svona ákvæði væri að ræða í löggjöf, þá heyrði það undir samgmrn. að meta þarna ástæður, því að hér er hreint samgöngumál og þeir, sem stunda leigubifreiðaakstur, vinna fyrir samgöngumálin, en ekki dómsmálin.