15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst út af fsp. frá hv. 1. þm. N–M., þar sem hann spurði um það, hvort hér væri um að ræða stefnubreytingu hjá Sjálfstfl. að hætta samkeppni og fyrirskipa skipulagningu í ýmsum atvinnugreinum, svara því til, að mér er ókunnugt um, að Sjálfstfl. sem slíkur hafi fyrirskipað nokkuð um þetta atriði. Hér er borið fram frv. á þskj. 66 af tveim sjálfstæðismönnum. Og svo mikið frelsi hefur ávallt ríkt og ríkir enn þá í Sjálfstfl., að mönnum er ekki fyrirskipað þar, hvað þeir megi gera og hvað þeir megi ekki gera í sambandi við afgreiðslu mála. Ég hygg, að ég geti því sagt það hér, að hér er ekki um neitt flokksmál að ræða, heldur mál einstakra þm., m. a. þm. Reykv., sem — eins og hv. þm. sagði — hljóta að hafa sérstakt sjónarmið í þessu máli. Sú venja hefur aldrei ríkt í Sjálfstfl., enda engin tilhneiging til að koma henni á, að þótt menn hafi einhverja aðra skoðun í ákveðnum málum en meiri hluti flokksins, séu þeir í atkvgr. á Alþ. kúgaðir til þess að hafa þar einhverja aðra skoðun heldur en þeir hafa látið í ljós í umræðum og á þskj., sbr. afgreiðslu hér núna nýlega á áfengislöggjöfinni, þar sem ekki verður séð annað en að Framsfl. hafi kúgað hv. 1. þm. N-M. til þess að falla frá sínum ágætu till. í sambandi við áfengislöggjöfina. Slíkt á sér ekki stað í Sjálfstfl., og það er þess vegna, sem þetta frv. er fram komið, en ekki af því, að það hafi átt sér stað nein stefnubreyting í Sjálfstfl. Ég vildi óska þess, að Sjálfstfl. kæmist aldrei inn á þá braut, að hann reyndi þannig að kúga þm. sína, svo að þeir mættu ekki hafa sjálfstæða skoðun og greiða atkv. í sínum málum eins og þeim sýndist eða ræða þau hér á þingi frjálst og óháð.

Ég skal þá koma að málinu sjálfu. Ég fyrir mitt leyti mun ekki greiða atkv. með frv. Ég er andstæður þeirri stefnu, sem hér er tekin upp, og mun greiða atkv. á móti frv. eins og það er á þskj. 372.

Mér er nokkuð kunnugt um, hvernig þetta hefur verkað í Englandi. Þar eru slík ákvæði, að það er gefið einstökum mönnum sérleyfi til þess að hafa akstur bifreiða í ýmsum stöðum. Mér er m. a. kunnugt um, að í York situr einn maður, sem um mörg ár hefur fengið leyfi til þess að hafa allan bifreiðaakstur í Selby og hefur haft þar af gott lífsviðurværi án þess nokkurn tíma að koma upp í bil. Hann leigir sín réttindi til annarra. Og vegna þess að hann er verndaður með löggjöf, getur hann haft af því það miklar tekjur án þess að koma nálægt starfseminni sjálfur. Ég óska ekki eftir slíku ástandi hér í þessu landi, hvorki í Reykjavík, Sauðárkróki, Búðardal né öðrum ágætum stöðum.

Ég mun því greiða atkv. móti frv. eins og það liggur nú fyrir. Ég mun einnig greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 452 af sömu ástæðum sem ég þegar hef nefnt og svo á móti málinu í heild, þó að þær verði samþ.

Út af því, sem hefur verið spurt um hér, hvers vegna þetta mál eigi að heyra undir dómsmrn., og út af því, sem fram kom í framsögu hv. 2. þm. Árn., þar sem hann sagði að, að áliti þessara manna, sem stæðu fyrir þessum félagsskap, þá væri nú komið í það horf hér, að þeir geti ekki lifað á sjálfu starfinu, en yrðu að hafa ólöglega vínsölu með, eftir því sem hann upplýsti hér áðan, vildi ég mega spyrja: Var það aðalsjónarmið hjá hv. 4. landsk., þegar hann fylgdi Framsfl. um að fella allar umbæturnar á áfengislöggjöfinni, að viðhalda því ástandi? Var það það sjónarmið hans að tryggja, að það væri hægt að halda áfram slíkri atvinnu í sambandi við vöruflutninga eða fólksflutninga hér í þessum bæ? Og ef því væri þannig varið, þá held ég, að væri ástæða fyrir hv. frsm. og form. allshn. að endurskoða fylgi sitt og það, sem á bak við það hefur legið, frá því að málið var afgr. hér fyrir nokkrum dögum. En það verð ég að segja, að þá er illa farið, ef það á að ráða afgreiðslu jafnmerkra mála, að annars vegar beitir stór stjórnmálafl., sem situr í stjórn, valdi sínu til þess að kúga sína flokksmenn, og hins vegar annar stjórnmálaflokkur til þess að afgreiða málið fyrir allt aðrar ástæður, en gefið er upp í þingskjölum. En það voru mjög athyglisverðar upplýsingar, sem hv. 2. þm. Árn. gaf um þetta mál í sambandi við þetta. Sé ég ekki, að nein önnur ástæða sé fyrir því, að dómsmrn. er komið inn, en það, að hér sé full vissa fyrir því, að þannig sé málum komið hér, og þá er ekki óeðlilegt, að dómsmrn. hafi eitthvað um það að segja, hverjir fái leyfi til þess að aka og hverjir ekki, þegar svo er komið, að það er ekki orðið aðalverkefnið að flytja fólk eða vörur, heldur hitt, að hafa vinnu af því að selja óleyfileg vínföng. Þá get ég vel skilið, að málið sé látið heyra undir dómsmrn. og það hafi vakað fyrir þeim, sem sömdu frv., að fyrirbyggja þetta á þann hátt, sem reynt er að gera hér á þskj. 66. En þrátt fyrir það get ég ekki fallizt á að fylgja því. Ég álít, að þau mál eigi að taka allt öðrum tökum, en hér er gert í þessu frv., og ég mun því hvorki greiða atkv. með frv. sjálfu né brtt.