28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur sætt nokkrum ágreiningi og var breytt í Nd. frá því, sem það upphaflega var, því að þá var ætlazt til þess, að bifreiðastöðvar þyrftu ekki einungis sjálfar að fá viðurkenningu bæjarstjórnar, heldur væri einnig með víssum skilyrðum hægt að takmarka fjölda bifreiða, sem þar hefðu afgreiðslu. Nú var þetta takmörkunarákvæði á fjölda bifreiðanna fellt niður úr frv., og það hefur komið í ljós meðal annars við 2. umr. hér í hv. d., að menn vildu ekki taka slíkt ákvæði upp aftur, vegna þess að það væri of viðtækt og næði til staða, þar sem ekki er þörf á neinum slíkum takmörkunum. Brtt. mín, sú er ég flyt hér, er miðuð við þessa mótbáru. Hún er miðuð við það, að takmörkun á bifreiðafjölda verði einungis miðuð við Reykjavík, en ekki aðra staði. Og eftir orðanna hljóðan á hún einungis við um vörubifreiðar. En ég vil vekja athygli á því, að samkv. efni málsins er slík takmörkun nú þegar komin í lögin varðandi fólksbifreiðarnar, vegna þess að sá ólíki háttur er á rekstri þessara tveggja atvinnugreina, að varðandi fólksbifreiðar eru það tilteknar stöðvar, sem annast afgreiðslu þeirra, og það er óumdeilt, að hver stöð getur ákveðið það með einhliða samþykkt, hversu margar bifreiðar skuli hafa afgreiðslu á þeirri stöð. Þegar því búið er að ákveða, að fjöldi stöðvanna sé háður samþykki yfirvalda, eins og nú er gert í frv., þá er þar komin inn takmörkun á fjölda fólksbifreiða, sem gera má út í þessu skyni, þ.e., þá er það í höndum stöðvanna og bæjarstjórnar, hvort þarna er takmarkað eða ekki.

Þetta horfir öðruvísi við varðandi vörubifreiðar hér í bænum, því að vörubifreiðarstjórafélagið er verkalýðsfélag, sem er skylt að taka við öllum þeim, sem þangað vilja sækja og fullnægja löggiltum skilyrðum. Það er að vísu aðeins rekin ein slík stöð hér í bænum nú, að því er ég hygg, en það er stöð, sem verkalýðsfélagið sjálft rekur og er hluti af starfrækslu þess, og það hefur verið litið þannig á, að það væri ekki hægt að stöðva aðstreymi í félagið, jafnvel þó að löggilding stöðvar kæmi. En brtt. mín á sem sagt að bæta úr þessu og láta vörubifreiðarstjórana fá að þessu leyti lagalega sama rétt eins og fólksbifreiðarstjórarnir hafa raunverulega samkv. ákvæðum frv. eins og það liggur fyrir. Hér er því einungis um að ræða að bæta úr raunverulegu misrétti, sem verður milli þessara tveggja atvinnugreina, ef frv. verður samþ. óbreytt.

Þar sem vitað er, að vörubifreiðarstjórar hér í bæ eru, að því er ég hygg, einhuga eða að yfirgnæfandi meiri hluta fylgjandi þessum ákvæðum, og þar sem ætlazt er til, að þetta verði háð samþykki bæjarstjórnar, þá vonast ég til þess, að þeir, sem hafa verið á móti ákvæðinu eins og það var í sinni viðtækari mynd áður, vegna þess að það snerti staði úti á landi, þar sem ekki er þörf á neinum slíkum ákvæðum, geti samþ. brtt. í því formi, sem hún nú er.

En annars verður að segja um þessa atvinnugrein, að hún er auðvitað allra atvinnugreina óvissust, og þó að menn geti ekki verið almennt samþykkir slíkum takmörkunum sem hér er um að ræða, þá er það þannig, að þessi tæki, vörubifreiðar, eru nú orðin mjög kostnaðarsöm og eru auðvitað ákaflega þungur baggi á mönnum, ef þeir hafa ekki atvinnu. Reynslan frá undanförnum árum hefur aftur á móti verið sú, að atvinnan hefur sveiflazt ákaflega mikið til. Á vissum tímum hafa menn haft mjög mikið að gera, og þá hafa margir menn komið inn í þessa stétt, en svo hafa aftur komið erfiðari tímar, atvinnan dottið niður og þá fjöldi manna staðið uppi allslaus með þessi dýru og þungu tæki sem bagga. Það er þess vegna sérstök ástæða til þess að heimila bæjarstjórninni með samþykki aðila, og raunar á nú dómsmrn. að koma einnig hér til, að heimila öllum þessum aðilum að setja slíkar takmarkanir, sem yrðu í raun og veru aðeins til þess að jafna atvinnuna í þessari óvenjulega áhættusömu atvinnugrein, og vitanlega yrði aldrei haldið svo þröngt á, að þarna yrði hægt að tala um neina eiginlega einokun þeirra manna, sem að þessu vinna, heldur yrði að sjálfsögðu annazt um það, að eðlileg fjölgun gæti átt sér stað. Ég vonast því til, að þessi till. geti náð samþykki. Ég hef ekkert á móti því, ef hv. n. óskar að athuga málið nánar, að hún eigi þess kost.