28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get nú verið mjög stuttorður, af því að ég svaraði athugasemdum hv. 1. þm. N-M. fyrir fram. Ég gerði sem sagt grein fyrir því fyllilega, að þó að hér væri á pappírnum um jafnrétti að ræða, eins og hv. þm. N–M. réttilega tók upp eftir mér, þá er hér raunverulega um fullkominn mun að ræða, vegna þess að eins og nú standa sakir gefur þetta frv., ef það verður samþ., aðilum færi á því að koma á sams konar útilokun á fólksbifreiðum eins og hv. þm. var að tala um að hann væri algerlega andvígur varðandi vörubifreiðarnar, þannig að ef hann vill hafa í þessu samræmi, þá ætti hann að snúast algerlega á móti frv., vegna þess að frv. leiðir einmitt varðandi fólksbifreiðarnar til þeirra — að hv. þm. áliti — óæskilegu afleiðinga, sem hann gerði grein fyrir. Ég held aftur á móti, að eins og til háttar, þá sé þarna um að ræða nauðsynlega nauðvörn af hálfu bifreiðarstjóra, og ég tel rétt, að vörubifreiðarstjórarnir njóti hennar ekki síður en hinir.