02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Í sambandi við það, sem fram kom hjá hv. 2. landsk., langar mig til þess að gera örstutta aths.

Hv. þm. talaði um það, að það væri varhugavert að veita bæjarfélögum og ráðuneytum rétt til þess að loka stéttarfélögum. Sannleikurinn er sá, að þetta frv. veitir þessum aðilum engan rétt, nema fyrir liggi ósk frá stéttarfélaginu sjálfu. Eins og segir í frv., þá er bæjarstjórninni heimilt o.s.frv. að „fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélags“. Liggi þær ekki fyrir, þá er það hvorki á valdi bæjarstjórnarinnar né rn. að loka viðkomandi atvinnugrein, eins og hv. þm. talaði um. Hann sagði hins vegar, að stéttarfélögin hefðu tilhneigingu til þess að vilja taka upp lokanir hjá sér og það kynni að vera nokkuð varhugavert að heimila þeim það á þann hátt, sem hér er gert. En sannleikurinn er sá, að ef um óeðlilega tilhneigingu hjá stéttarfélaginu, sem kannske vill þrýsta á þarna, er að ræða, þá verður ekki heldur lokunin heimiluð eða gerð nema með samþykki hlutaðeigandi bæjaryfirvalda og rn.. svo að í þessu ætti nú að vera nokkurt aðhald. Og spurningin er þá, hvort alveg án nokkurrar lagaheimildar kynni ekki að vera, að stéttarfélögin að öðrum leiðum gætu skapað sér einhverja tilsvarandi lokun eins og hv. þm. vék nú að, og mér skildist, að hann vildi nú helzt aðhyllast það að lofa stéttarfélögunum sjálfum að glíma við það að hrinda mönnum frá sér í atvinnugreininni. En ég skil það svo, að hér t.d., þegar um er að ræða vörubifreiðar í Reykjavík og þar er stéttarfélag vörubifreiðaeigenda, að stéttarfélagið geti ekki neitað mönnum að koma eða um starfsemi á vörubifreiðastöðinni, elnmitt vegna þess að stöðin er eign stéttarfélags, sem á að vera opið fyrir alla.

Hv. 2. landsk. þm. sagði, að hann óskaði ekki eftir því að þurfa að standa í deilu við stéttarfélögin, vörubifreiðarstjóra á Norðfirði, um það, hvort ætti að loka starfsgreininni eða ekki. Þessi hv. þm. hefur ekki staðið í þeim erfiðleikum, sem aðrir bæjarfulltrúar hafa staðið í — og það hér í Reykjavík — og leitt hafa af offjölguninni í vörubílstjórastéttinni. Hann hefur ekki staðið í því að fá sendinefndir frá vörubifreiðarstjórum æ ofan í æ, þar sem þeir benda með rökum á það, að geigvænlegt atvinnuleysi eigi sér stað í stéttinni og sé þeim mun tilfinnanlegra fyrir þessa aðila vegna þess, hversu dýr og umfangsmikil tæki þessir menn hafa lagt sér til, til þess að tryggja atvinnu sína.

Hversu mikil höft er nú verið að fara fram á hér, og hvað er verið að skerða frelsi manna mikið? Höfum við ekki sérleyfisferðir hér hjá okkur? Hver má keyra á sérleyfisleiðunum nema sá, sem hefur fengið leyfi til þess? Hefur ekki sérleyfisferðunum þannig verið lokað fyrir öðrum en þeim, sem hefur verið talið nauðsynlegt að veita það á hverjum tíma? Það hefur verið talið eðlilegt að taka upp takmarkanir á því, hvernig fólksflutningunum innanlands væri hagað, með því að veita tilteknum aðilum og takmörkuðum á hverjum tíma heimild til fólksflutninganna á hinum svo kölluðu sérleyfisleiðum. Þetta þótti nauðsynlegt til þess að stefna ekki út í ógöngur með það, að óeðlilega mikið af dýrum farartækjum væri notað í óeðlilegri samkeppni í fólksflutningunum. Það má segja, að það, sem hér er farið fram á, sé að vissu leyti hliðstætt og eðli málsins sé skylt og af þeim sökum sé í raun og veru ástæðulítið að tala hér um haftastefnu, sem sé verið að fara fram á, og „prinsipielt“ sé skynsamlegra að hafa algert frjálsræði á því sviði, sem hér um ræðir. Ég hygg, að ef menn athuga þetta mál ofan í kjölinn, þá sjái þeir, að það sé ekki óeðlilegt, að það sé veitt nokkurt aðhald í þessari atvinnugrein, og eins og frv. er nú, þá er það vissulega með þeim hætti, að það er fullkomlega hægt að treysta því, að heimildum þeim, sem hér er talað um að veita, verði beitt varlega, eins og ég gerði grein fyrir í minni fyrri ræðu, þar sem það eru þrír aðilar, sem fjalla um þessi mál, í fyrsta lagi sjálf stéttarfélögin, svo bæjaryfirvöldin og loks ráðuneytið. Að þessu öllu athuguðu held ég, að það sé varla hægt að búast við því, að það yrði flanað hér út í einhverjar ógöngur, þó að þessi heimild yrði veitt.