02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi benda á út frá því, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Reykv., sagði, en það var um offjölgun í vörubifreiðarstjórastéttinni. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það séu í augnablikinu í Reykjavík færri menn í bifreiðarstjórastéttinni, heldur en voru fyrir nokkrum árum. Það er ekki rétt, að það sé um offjölgun að ræða og að það sé um of marga vörubílstjóra og um of marga vörubila að ræða hérna. Það er allt annað, sem um er að ræða, og það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst. Það er um það að ræða, að mönnum hefur verið bannað að vinna við þá vinnu, sem vörubílstjórar m. a. alveg sérstaklega hafa atvinnu við. Það hefur verið minnkuð alveg stórkostlega öll byggingarvinna í Reykjavík. Það hefur verið dregið úr atvinnulífinu í landinu, og það er eitt af því, sem veldur því, að það er mínna að gera fyrir vörubílstjórana, heldur en var áður. Ég held, að menn megi ekki nota þessi hugtök svona. Samdrátturinn í atvinnulífinu kemur niður á vörubílstjórunum eins og ýmsum öðrum. Og spurningin er, á hvern hátt við eigum að bregðast við þessu. Eðlilegast er að bregðast við þessu með því að auka atvinnu, auka byggingarvinnuna, auka aðra þá vinnu, sem þarf að vinna og vörubílstjórarnir hafa sérstaklega atvinnu við, mjög nytsamlega og gagnlega vinnu, sem áreiðanlega er hægt að auka. Það er höfuðatriðið.

Þessi takmörkun, sem núna er lagt til að byrja þarna á, er afleiðing af þeim harðvítugu takmörkunum, sem beitt er í sambandi við t.d. byggingarleyfin og allar okkar framkvæmdir í landinu, líka í sambandi við minnkunina á atvinnurekstrinum í sjávarútveginum. Þegar farið er að draga úr því, að togararnir leggi eins mikið í land hérna eins og þeir gætu lagt, þegar farið er að draga úr jafnvel saltfiskverkun og freðfiskverkun frá því, sem hún gæti verið, ef öll okkar skip væru í fullum gangi miðað við veiði fyrir innanlandsmarkað, þá kemur þetta eðlilega fram í því, að það verður atvinnuleysi hjá t.d. mönnum eins og vörubílstjórunum. Ég held, að við hefðum nóg við alla okkar vörubílstjóra og allar okkar vörubifreiðar að gera, svo framarlega sem við notuðum alla okkar togara og öll okkar fiskiskip til þess að framleiða fyrir hraðfrystihúsin og fyrir saltfisk- og harðfiskútflutning. Þá held ég, að við hefðum nóg við alla okkar vörubifreiðarstjóra að gera, og ég tala nú ekki um, ef það væri fullur kraftur þar að auki á byggingarvinnunni. Þetta held ég, að sé nauðsynlegt að menn geri sér ljóst.

Svo kemur að hinu spursmálinu: Þegar almennt atvinnuleysi er byrjað, á hvern hátt á að bæta úr því? Á að bæta úr því á þann hátt að loka t.d. iðngreinunum, að loka vörubílstjórafélagi og setja alla aðra, sem vilja stunda vinnu í þjóðfélaginu, í það eitt að eiga að stunda vinnu við höfnina og auka þar með atvinnuleysingjafjöldann þar? Er það rétt ráðið af okkur? Ég held ekki. Ég held, að verkalýðsfélögin, hver sem þau eru, hvort það eru félög faglærðra manna, vörubílstjóra eða ófaglærðra verkamanna, verði sameiginlega að hjálpast að við að vinna bug á atvinnuleysisvandamálinu. Ég held, að það hljóti að vera það, sem á að gera í þessu.

Í Ed. var bætt hér inn í ákvæði um, að bæjarstjórnin mætti takmarka fjölda vörubifreiða með samþykki dómsmrn. Hvað þýðir það að takmarka þannig fjölda vörubifreiða af hálfu aðila, sem ekki er stéttarfélagið sjálft? Það þýðir, að utan að komandi vald eins og bæjarstjórn eða dómsmrh. neitar ákveðnum verkamanni um inngöngu í ákveðið vörubílstjórafélag, sem um leið hefur rekstur vörubílstjórastöðvar með höndum. Þetta er þvert ofan í öll ákvæði vinnulöggjafarinnar. Í vinnulöggjöfinni er mælt svo fyrir og það mjög stranglega, að hver maður hafi rétt til þess að vera í sínu verkalýðsfélagi. Það eru þess dæmi, ef átt hefur að svipta menn slíkum rétti, að verkamenn hafa með dómi fengið sig dæmda inn í verkalýðsfélögin. Mér er nú spurn: Væri ekki ákvæði um að gefa utan að komandi aðila rétt til þess að takmarka það á þennan hátt brot á öllum þeim réttindum, sem verkamönnum eru gefin í sambandi við vinnulöggjöfina? Hitt er mjög skiljanlegt, að verkalýðsfélög eins og vörubílstjórafélögin setji máske allþröngar skorður fyrir þessu, enda hafa þau á ýmsan hátt gert það með háu inntökugjaldi og öðru slíku. Það er ákaflega skiljanlegur hlutur, en beint bann við því er á móti núgildandi löggjöf og á móti þeim anda, sem verkalýðshreyfingin hefur byggzt á, og ég efast um, að það sé mögulegt fyrir okkur að samræma þetta tvennt.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði í þessu sambandi um sérleyfi. Ja, mér er spurn: Er það meiningin að fara út á þá braut hér á Íslandi, að til þess að stunda almenna atvinnu þurfi sérleyfi og það frá bæjarstjórn með samþykki dómsmrh.? Hann tók samanburð af sérleyfisferðum. Á það nú að vera næsta skrefið, að til þess að keyra vörubíl í Reykjavik þurfi menn sérleyfi frá bæjarstjórn með samþykki dómsmrh.? Og hvað er þá langt til þess, að menn til þess að stunda vinnu við höfnina þurfi samþykki frá bæjarstjórn og leyfi frá dómsmrh. og það ætti að hungra alla hina út, sem hvergi fá að vera? Ég vil aðeins benda á, hvert þetta getur leitt. Það er enginn efi á því, að af því vandræðaástandi, sem núverandi ríkisstj. hefur skapað í landinu, atvinnuleysinu og minnkandi vinnu fyrir vörubílstjóra og aðra, leiðir þetta ástand, sem hvert verkalýðsfélag út af fyrir sig er nú að glíma við, hvert stéttarfélag. En leiðin til þess að leysa þessi vandræði er bara ekki, að hver takmarki hjá sér, heldur að þau leggist sameiginlega á eitt um að knýja fram slíka breytingu á pólitíkinni í landinu, að það verði næg vinna líka fyrir alla vörubílstjóra. Það eru meiri en nóg not fyrir alla þá vörubílstjóra, sem nú eru á Íslandi, og allar þær vörubifreiðar, sem hér eru til. Og það mundi sýna sig, ef almennileg stjórn væri hér í landinu, að við værum í vandræðum með vörubifreiðar. Þess vegna held ég, að það, sem bætt var inn í þetta mál í Ed., eigi að falla burt. Gefum stéttarfélögunum rétt til þess að gera sínar ráðstafanir í sambandi við einkarétt á bifreiðastöðvum og bæjarstjórninni heimild til þess að ákveða í sambandi við það, eins og er í 1. málsgr., en ég held, að það sé rétt að fella út úr það, sem bætt var inn í í Ed. Og sérstaklega eftir ræðu hv. 5. þm. Reykv. sýnist mér þetta vera að stefna alveg í ranga átt. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég vildi ekki eiga að horfa upp á það, að bæjarstjórn Reykjavíkur og dómsmrh. eigi að þurfa að gefa hverjum einasta vörubílstjóra í Reykjavík sérleyfi til þess að hafa vörubíl. Og mér sýnist það vera næsta skrefið, ef svona ætti að fara að.

Ég vildi þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. um það, að 2. málsgr. falli burt, og ég verð að biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir þeirri till. Þá mundi frv. lita út eins og það leit út, þegar það fór hér frá okkur.