17.10.1952
Efri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil eindregið styðja þá till., sem hv. allshn. setur fram í nái. á þskj. 79 um það, að ekki verði gerð breyt. á frv. að svo stöddu.

Eins og ég sagði, þegar frv. var lagt fram, þá kom það nokkuð til umr., er íþróttasjóði var veitt þessi heimild, að hagnaður af getraununum rynni einnig til einhverra annarra nauðsynlegra mála, en íþróttahreyfingarinnar. En sökum þess að engin reynsla er til hér á landi fyrir getraunum sem þessum og því ómögulegt að segja um fyrir fram, hvaða árangur yrði af þeim, þá var talið rétt — og ég að vel athuguðu máli féllst á það — að dreifa ekki væntanlegum hagnaði í fleiri staði fyrr en sjáanlegt væri, hvernig árangurinn yrði.

Sá árangur, sem fengizt hefur síðan þetta byrjaði, gefur ekki mikla ástæðu til þess að samþ.till. um skiptingu á hagnaðinum. Ég skil vel afstöðu hv. 4. þm. Reykv. í þessu máli, er hann vill nota þetta til þess að styrkja byggingu sjúkrahúsa á landinu, og vafalaust er enginn á móti slíkri hugmynd, en sú hugmynd kemst þó ekki í framkvæmd, nema því aðeins að einhverjar tekjur verði af þessari starfsemi. Enn þá hafa víst tekjurnar ekki verið meiri en svo, að þær hafa rúmlega hrokkið fyrir rekstrarkostnaði. Ég álít þar að auki, að hér sé ekki mikil nauðsyn fyrir lagabreyt. Getraununum hefur verið gefin heimild til þriggja ára, og þetta 3 ára tímabil er miðað við, að á því fáist reynsla um tekjur starfseminnar. Ef að loknu þessu 3. ára tímabili kemur í ljós, að miklar tekjur verða af því, þá er innan handar fyrir þann ráðherra, sem þá fer með þau mál, að gera breytingu á reglugerðinni.

Ég sé, að hv. þm. rekur upp stór augu, en ég held, að mér sé óhætt að segja, að ég fari með rétt mál hér. Það er að vísu ekki tekið neitt fram í lögum um þetta, en það leiðir af sjálfu sér, að viðkomandi ráðh. getur sett skilyrði fyrir heimildinni. Ég tel því, að ráðh. geti sett skilyrði fyrir áframhaldandi heimild getraunanna að þessu tímabili loknu, þar á meðal um, að nokkur hluti teknanna skuli renna til ákveðinna þjóðnytjafyrirtækja.