03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. til okkar hér í Nd., og landbn. hefur rætt það á allmörgum fundum og hefur kvatt til viðræðu við sig bæði herra biskupinn og sömuleiðis stjórn Prestafélags Íslands, biskupsritara og landnámsstjóra, svo að það hefur ekki skort á það, að n. hafi reynt að kynna sér málið nokkurn veginn eftir föngum.

Af viðræðum við þessa aðila kom það í ljós, að a.m.k. herra biskupinn og sömuleiðis meiri hluti þeirrar n., sem undirbjó frv. um skipun prestakalla, leit svo á, að það væri með öllu óheimilt að skipta prestssetursjörðum samkv. þeim nýju prestakallal., nema því aðeins að ný lagafyrirmæli kæmu til. Þetta var nú þeirra álit. Enn fremur kom það í ljós við þessar umr., að þessir aðilar vel flestir upplýstu, að það væri nokkurn veginn fullundirbúin skipting á þrem prestssetursjörðum með fullu samþykki allra þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, og þar væri ekki í raun og veru annað eftir, en að staðfesta þetta. Loks viðurkenndu flestir þessara aðila, að enn væru nokkrar prestssetursjarðir, sem ástæða gæti verið til að skipta og það að skaðlausu fyrir búrekstur á þeim prestssetrum, sem þar er um að ræða, miðað við núverandi búskaparhætti hér á landi.

Þetta voru nú þau meginatriði, sem n. fékk út við þessar viðræður. Á grundvelli þessara upplýsinga og með sérstöku tilliti til þeirra staðhæfinga bæði herra biskupsins og eins n., sem undirbjó frv., að skipting prestssetursjarða sé nú óheimil að óbreyttum lögum, þá telur meiri hl. landbn. ríka ástæðu til þess, enda þótt hann vilji ekki kveða upp neinn dóm um þá fullyrðingu, að breyta l. á þann veg, að það taki af öll tvímæli um, að umrædd skipting sé heimil. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt að framkvæma t.d. þær skiptingar á prestssetursjörðum, sem þegar eru undirbúnar, án þess að það séu nokkurn veginn örugg lagafyrirmæli um þau atriði, eða það er a.m.k. mjög hæpið, úr því að svo er, að þessir aðilar virðast vefengja það. Af þessum ástæðum telur meiri hl. n. sjálfsagt að setja nú þegar lagafyrirmæli um þetta, sem taki af öll tvímæli. Og þar sem meiri hl. n. er fylgjandi því, að stórum prestssetursjörðum, sem hafa mikið landrými, sem bersýnilegt er að verði ekki notað frá prestssetrinu, verði skipt, þá hefur hann lagt til þær breyt. á frv., sem hér eru fluttar af n. og allir hv. dm. geta lesið og kynnt sér og ég tel ekki ástæðu til að gera grein fyrir frekar.