03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Frsm. meiri hl. n. játaði það fyllilega hér í ræðu sinni nú, að það væri þörf á víðtækari löggjöf um þessi efni, en er í þessu frv., og mér hefur skilizt það á mínum meðnm. öllum, að þeir játa það fullkomlega, að það sé þörf á að setja nánari ákvæði, en nú eru um réttindi og skyldur presta, einkum varðandi jarðirnar. Og þá er um það að ræða, hvað það er, sem rekur svo mjög á eftir að afgreiða þennan eina þátt þessa máls á þessu þingi. Ég fæ ekki séð, að það sé neitt, og það er vegna þess, að eins og nú standa sakir, þá er að minnsta kosti svo ástatt hjá nýbýlastjórn, að það eru miklar umsóknir nm nýbýli og endurbyggingu eyðijarða frá þeim mönnum, sem hafa nægilegt land að byggja á, en það eru ekki miklar líkur til þess, að það verði hægt að fullnægja þeirri lánsþörf á þessu yfirstandandi ári svo sem vera ber.

Nú er það svo, að á undanförnum árum og áratugum hefur prestssetrum hér á landi verið fækkað mjög mikið, og það er ekkert við því að segja, að það sé eðlilegur hlutur, að þeim hefur verið fækkað mjög mikið. En um leið og þeim hefur verið fækkað mjög mikið, þá er það ekki óeðlilegt, þótt það sé reynt að búa betur um hnútana að því leyti til, að prestssetrin séu gerð betur úr garði, en verið hefur, og ákveða um það, að hve miklu leyti á að vera skylda prestsins og að hve miklu leyti ríkið á að aðstoða við þetta. Öll þau ákvæði eru mjög óljós, eins og nú standa sakir, og mikil nauðsyn að setja um það frekari löggjöf. Ég sé ekki, að það sé nokkur þörf að samþ. þetta frv., fyrr en þetta allt í heild sinni er undirbúið og komið í eitt fast kerfi.

Varðandi svo það, sem er að nokkru leyti ágreiningur varðandi þennan þátt málsins, sem hér liggur fyrir, þá tel ég, að það verði miklu fleiri aðilar að koma þar til greina til samþykkis heldur en gert er ráð fyrir samkv. till. n., að ég nú ekki tali um frv. eins og það kom frá hv. Ed., því að eins og ég tók fram áðan og hv. síðasti ræðumaður játaði, þá þarf ekki neitt að fara eftir till. nýbýlastjórnar, þó að það sé leitað eftir þeim. Samkv. frv. er heimilt að gera þetta að fengnum till. nýbýlastjórnar og þess vegna ekki neitt nauðsynlegt að fara eftir þeim, en það er skylt að miða við till. frá skipulagsnefnd prestssetra. Sú skipulagsnefnd er þannig skipuð eins og síðasti ræðumaður skýrði frá, og ég skal ekki neitt vantreysta þeim mönnum, sem í henni eru, en henni geta þó vissulega orðið mislagðar hendur eins og hverjum öðrum, og ég tel, að það sé ekki sanngjarnt t.d. að ganga fram hjá sóknarnefnd þess safnaðar, sem viðkomandi prestssetur er í, og þar að auki er það heldur óvenjulegt, að það sé gengið alveg fram hjá því að bera svona mál eins og þetta undir forstöðumenn þeirrar stéttar, sem hlut á að máli.

Ég skal svo ekki frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, þræta meira um þetta mál. Það skera atkv. úr um það, hvort mönnum sýnist nokkur þörf á að flýta þessu nú eða samþ. mína dagskrá.

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson): Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér þykir það leitt, að hv. þm. A-Húnv. vill gera sig sljórri, en ég hygg hann vera. Hann spurði nefnilega að því, hvað ræki á eftir að afgr. þetta frv. Ég var búinn að gera grein fyrir því, hvað reki á eftir um þetta. Það rekur á eftir, að það liggur við borð, að þær framkvæmdir, sem eru ákveðnar og allir aðilar eru samþykkir, þ. á m. sóknarnefndir, stöðvist, af því að þær hafa vafasaman stuðning í lögum eða a.m.k. ekki þann stuðning í lögum, að það verði árætt að framkvæma þær á þennan veg. Það er þetta atriði, sem ég lagði í minni framsöguræðu áherzlu á og tel að reki sérstaklega á eftir um, að frv. verði samþ.

Hvað því viðvíkur, að það séu aðeins fengnar till. frá nýbýlastjórn, þá þarf ég ekki að útskýra það fyrir frsm., að vitanlega hefur nýbýlastjórn alveg fullkomið vald til þess að synja um allan stuðning jafnt til þessara nýbýla eins og annarra, ef þau fullnægja ekki þeim ákvæðum og þeim reglum, sem nýbýlastjórnin hefur sett. Að því leyti er það algerlega undir nýbýlastjórn einni komið, enda geri ég ekki ráð fyrir, að slíkt býli yrði nokkurn tíma stofnað á móti till. nýbýlastjórnar og þvert ofan í fyrirmæli laga, svo að það getur ekki verið stórt atriði í þessu efni. En hitt vil ég leggja áherzlu á, að það er þörf á löggjöfinni til þess að tryggja þá skiptingu, sem hefur verið ákveðin og er gerð með í raun og veru allra samþykki.