03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég stend nú ekki að flutningi þessa máls, en af því að ég hef með prestssetrin að gera, þá þykir mér rétt að segja örfá orð um þetta mál, að gefnu því tilefni, að hér hafa verið borin fram mótmæli gegn frv.

Ég held nú satt að segja, að hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ) geti greitt rólegur áfram atkv. með þessu frv., og ég geri ráð fyrir því, ef hann vill taka eðlilegum rökum, að hann muni komast að þeirri niðurstöðu, eftir að ég hef gefið á þessu stuttar skýringar.

Það er þá fyrst, að það er orðinn siður í þessu landi, að svo að segja hver einasti maður, sem þykist til þess settur að vera fyrir einhverja stétt, telur sér það alveg skylt án tillits til málstaðar að standa eins og vissar dýrategundir standa á roði til þess að verja hvort sem er rétt eða rangt. Þetta er að verða siður, sem er ekkert skemmtilegur fyrir okkar þjóðfélag og kannske ekki heldur hættulaus.

Það er sagt, að það sé ekki samkv. lögum að skipta prestssetrum. Við ættum nú að vita það, að þau hlunnindi, sem prestar hafa af jörðum, eru sérstaklega metin og dregin frá tekjum þeirra, svo að það getur ekki verið neitt vafamál, að þeir geta engu við þetta tapað. Það er því ljóst, að það rekur sig ekki á neinn hátt á lög. Ef tekið er eitthvað af jörðinni, þá er tekið svo og svo mikið af heimatekjunum, sem verður metið, og presturinn fær hærri laun úr ríkissjóði. Þetta sagði Prestafélagið. En svo er talað um það af biskupi, að það megi ekki skipta jörðum, taka þetta af prestunum. Ég efast ekki um það, að biskup hafi betra vit á kirkjumálum en við höfum flestir eða allir kannske, en ég hef ekki haldið, að hann væri neinn yfirbúfræðingur í þessu landi og þekkti neitt yfirleitt til þess, hvað prestar þurfa af þessum jörðum. Við vitum það ósköp vel, að þetta er þannig til komið, því miður, að þó að ýmsir prestar sitji vel jarðir sínar og ágætlega, þá færist það í vöxt, að þeir nota ekki þessar jarðir, og enn fremur er annað: Jörðum hefur yfirleitt verið skipt, þeim sem stórar eru, og það er á flestra vitorði, að flestar langstærstu jarðirnar eru prestssetrin. Eftir nútímabúskap er alls ekki þörf fyrir þessa miklu jarðarskrokka, sem byggjast á því að rányrkja þær, heldur mætti skipta þeim með góðu móti í 2–3 jarðir, og er það áreiðanlega eins hagkvæmt fyrir þann, sem á jörðinni býr, eins og að hafa jörðina alla, oft og einatt. En ástæðan til þess, að farið er fram á þetta, er sú, að ýmsir prestar, án þess að nokkur nöfn verði nú nefnd, nýta alls ekki jarðirnar nema að sáralitlu leyti. En sleppum nú þessu.

Nú skulum við hugsa okkur, að þeir, sem hér eiga hlut að máli, og hv. alþm., sem eiga að greiða um þetta atkv., vildu nú ekki trúa þessu, sem ég hér hef borið fram, eða vefengja á einhvern hátt, sem þó er nú ástæðulaust, því að það byggist á, að ég hygg, staðreyndum, bæði með það, hvernig heimatekjurnar eru metnar prestum og hvaða uppbætur þeir fá fyrir það á launin, ef eitthvað af jörðinni verður tekið, og í annan stað er það staðreynd, að margir prestar nýta ekki jarðirnar nema að litlu leyti. En það, sem sker úr, er nú það, að það er ekki hærra risið á þessu frv. en það, að sagt er, með leyfi hæstv. forseta: „Kirkjumrh. er heimilt“ Segjum nú, að það sé engin hamla á þetta, því að ég sé nú hlynntur því, að jörðunum sé skipt. Síðan segir: „að fengnum till. nýbýlastjórnar“. Nýbýlastjórnin á að athuga þetta, og nýbýlastjórnin gerir ekki tillögur um skiptingu jarða, nema hún af faglegum ástæðum álíti það betur fara fyrir búskap á jörðinni, að jörðinni sé skipt, og þar er a.m.k. stór hemill á framkvæmdir ráðh. í þessu máli. Enn fremur segir: „og með samþykki skipulagsnefndar prestssetra.“ Skipulagsnefnd prestssetra situr núna, og í henni eru nýbýlastjóri, skrifstofustjórinn í kirkjumrn. og skrifari biskups. Með því eina móti, að meiri hl. fáist hjá þessum mönnum, er hægt að skipta jörðunum. Og það er vitað mál af reynslunni af þessari n., sem hefur starfað og á að gera tillögur einmitt um það, hvernig prestssetrunum skuli fyrir komið á næstu árum, að hún hefur starfað þannig, — sem er kannske ekkert nema rétt, ég er ekkert að setja út á störf n., þetta eru ákaflega gegnir menn, sem þarna vinna, — hún hefur starfað svo „konservatívt“, að hún hefur verið ákaflega treg til að fást til þess að skipta jörðum. Það eru sem sagt skrifstofustjórinn í dómsmrn., nýbýlastjóri og ritari biskups, sem eiga að fjalla um málið, og má engri jörð skipta nema með samþykki þeirra. Ég held nú satt að segja, að ef við förum út í hér á Alþ. að gera eitthvað í því, að þessar prestsjarðir, sem núna eru ekki fullnýttar, og þær eru því miður nokkuð margar, verði nýttar betur framvegis en þær hafa verið notaðar hingað til, þá sé ekki hægt að taka vægar á þessu máli en gert er í þessu máli með tilliti til prestastéttarinnar, því að því miður er það þannig, að sumar jarðirnar eru næstum algerlega ónotaðar af sumum prestum. Það verður að segja það eins og er. Og með þessu móti fer þingið svo vægt í sakirnar, að það afhendir dómsvaldið í hendur þeim mönnum, sem hafa verið ákaflega íhaldssamir um alla skiptingu fram til þessa, svo að ég held satt að segja, að þeir menn, sem vilja fara varlega í þessu máli, geti alveg rólegir greitt atkv. með þessu frv.