03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú óþarfi að þreyta mikið umr. um þetta mál, því að það liggur ákaflega ljóst fyrir, og ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði áðan. En það er alger misskilningur, að með þessu frv. sé stefnt að því að koma í veg fyrir það, að prestar búi á jörð í sveit, því að nýbýlastjóri hefur, eins og ég sagði áðan, miðað alla skiptingu jarða við það, að hver jörð, þótt skipt sé, sé ágæt bújörð, og ég get minnzt á það, að það hefur t.d. einn prestur staðið á móti því mjög, að jörð hans væri skipt. Nú er komið að því, að hann fari, og þá vill hann fá verulegan hluta af jörðinni. Það er alveg skaðlaust, og ég hygg, að skipulagsnefnd prestssetra fallist á það. Hann hefur staðið á móti þessu, hann hefur lánað slægjur og kannske fengið fyrir það hátt gjald. Ég álít þess vegna, að það, sem hæstv. dómsmrh. er hræddur við, að prestum sé bægt frá því að búa, sé áreiðanlega ástæðulaus hræðsla. Báðar nefndirnar sjá um það til hins ýtrasta, að það, sem prestur hefur eftir, sé góð bújörð. Hinu er ekki að leyna, að það skaðar oft prestinn og það meira en lítið, að hafa miklu stærra land en hann þarf og verzla með það í leigum á ýmsan hátt, eins og stundum á sér stað. Það skaðar prestinn miklu meira — það fullyrði ég — heldur en það þótt landið sé af honum tekið og hann geti eftir sem áður verið þarna á þessum stað góður bóndi. Ég satt að segja álít, að það sé þarna svo vægt farið í sakirnar, að það sé ástæðulaust að hefta framgang þessa máls. Hitt er ekki annað en það, sem við erum vanir við hér á Alþ., hvað réttlátt sem mál er, að þá rýkur sú stétt upp, sem hlut á að máli, og mótmælir. Það er undantekningarlaust, - eða hver getur nefnt mér dæmi um það, að það hafi ekki verið gert?