03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Mér fannst sú breyt., sem gerð var á þessu frv. í Nd., vera orðabreyting og engin efnisbreyting. Þess vegna sá ég ekki ástæðu til þess sem frsm. í málinu hér í d. áður að biðja um orðið og fara að lýsa breytingunni, því að það er ekki nein efnisbreyt. á frv. En úr því að farið er nú að ræða það, þá vildi ég gjarnan gera nánari grein fyrir, hvers vegna ég er með þessu frv. og hef staðið að því, að það kæmi hér fram, heldur en ég hef gert til þessa.

Ég vil þá fyrst og fremst gera grein fyrir því, að mér blæðir það í augum að hafa nú í þrjú ár séð mikinn hluta af túnunum á þremur prestssetrum standa í sínu, af því að þau eru ekki slegin upp. Menn sækjast eftir að fá að slá þau, sækjast eftir að fá að nytja þau, en prestarnir hafa staðið á móti — og ekki bara staðið á móti því, að aðrir gætu nytjað þau, heldur gert sjálfum sér þá mestu bölvun, sem hægt er að gera í embættinu, með því að af þessu eru þeir orðnir óvinsælir í sínum prestaköllum, kallaðir okrarar o.s.frv., ýmsum ljótum nöfnum. Hefur það áreiðanlega gert þá óvinsælli, þar sem þeir eiga að miðla fólkinu andlegum fróðleik, heldur en ef þeir hefðu staðið eins og menn í sinni stöðu sem bændur á jörðunum eða lofað öðrum að nytja þær og hafa gagn af þeim og haft minna um sig, svo að þeir gætu komizt yfir það sjálfir. Þetta er ein orsökin.

Önnur orsökin er sú, að mér blæðir það líka að láta kalla prestana okrara og missa allt álit og allt traust á þeim, af því að þeir okra á jörðunum, sem þeir hafa. Ég hef sagt það hér oft áður og ég get sagt það enn, að það hefur ekki farið fram mat á heimatekjum prestanna síðan 1920, og á þó að gera þetta á 10 ára fresti. Ég gæti tínt upp núna nokkra presta, sem eru metnar heimatekjurnar, sem kallað er, þ.e. afnot af landinu, á nokkur hundruð krónur, en leigja það út fyrir hér um bil eins margar þúsundir og þeir þurfa sjálfir að borga ríkissjóði mörg hundruð. Þetta eykur ekki virðingu eða traust þessara presta. Þeir munu vera fimm, sem svona er ástatt um, og þó fleiri, en það á minni mælikvarða. Þetta eykur ekki álit þessara presta. Það eykur enga virðingu þeirra hjá sóknarbörnunum, þó að þeir á þennan hátt græði dálítið meira fé, en það opinbera í raun og veru ætlast til að þeir græði. Það bætir hvorki „standardinn“ í prestastétt landsins né not jarðanna, sem þeir eiga að hafa til ábúðar og nota.

Enn kemur það til, að yfirleitt er það svo, að fyrir þá menn, sem þurfa að sjá búskapinn meira og minna með annarra augum, — og það eru nú margir prestarnir, sem gera það, ekki allir, ekki nærri allir, sumir af þeim standa þar sjálfir sem ágætir bændur í sinni stöðu að öllu leyti, en þeir, sem þurfa þess, hafa fæstir a.m.k. fjárhagslegan hag af því að búa stórt. Það eru líklega til tvö eða þrjú prestssetur á landinu, sem eru þannig sett, að þó að maðurinn, sem um allt á að sjá, gangi ekki beint að því sjálfur, þá er hægt samt sem áður að hafa mikið upp úr því með mörgu fólki. En það er yfirleitt alger undantekning, að prestssetrin séu þannig sett. Hitt er það venjulega, að þau eru þannig sett, að ekki er hugsað um að hafa stórbúskap á þeim, og það eru nú fæstir prestarnir, sem vilja það, að þeir sjálfir segja. Þegar launalög Alþingis voru sett, þá var hér nefnd frá þeim lengi, sem sat yfir hv. þingmönnum og hélt því fram, að presturinn yrði að hafa þau laun, að hann gæti lifað sómasamlegu lifi á því og þyrfti ekki að vera að hugsa um búskap eða annað við hliðina á því. Þeir fengu það, alveg eins og þeir báðu um. Og svo sér maður líka prest, sem núna á tvær kýr og eina kvígu, held ég, og einn jeppa og annað ekki. Hann slær túnið í sumar. Maður þekkir prest, sem býr á jörð, sem fyrir svona 20 árum voru á í kringum 500 fjár og annað stórbú eftir því, og núna eru þar á milli 40 og 50 fjár og eitthvað tvær kýr. Hitt er allt ónytjað. Maður sér svona presta hingað og þangað um landið. Og hvaða ástæða er til þess að láta þá hafa jarðirnar svona lagað fyrir sama afgjald og var á jörðunum 1920? Það er alveg sjálfsagt að reyna að skapa möguleika til þess, að þessum jörðum geti orðið skipt. Alveg eins og prestarnir fóru að húsvitja í fyrra, þegar við vorum að ræða um þá hérna þá, og margir húsvitjuðu, sem aldrei höfðu gert það áður og því miður gera það ekki núna í ár, — ég veit af fjórum, sem höfðu ekki húsvitjað þangað til í fyrra og svo húsvitjuðu aftur núna í ár, en fjöldinn af þeim hefur ekki húsvitjað aftur, — þá getur vel verið að samþykkt þessa frv. verði til þess, að þeir fari að nytja jarðirnar skár, en þeir gera, þessir, sem verst gera það. Og þá er nokkrum árangri náð, þó að frv. komist aldrei til framkvæmda úti hjá skipulagsn. prestssetra, ef samþykkt þess getur orðið til þess, að þeir nytji jarðirnar betur en þeir hafa gert. Þá er allt í lagi. Þá er tilganginum alveg náð frá minni hálfu, þó að aldrei verði neinu prestssetri skipt samkv. þessu frv.