03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það, að það sé rétt og sjálfsagt að fara að meta hlunnindi prestssetranna. Þeir líklega borga ekki núna til ríkissjóðs eftir gamla matinu, meira en svona 1/20–1/10 af því, sem þeir ættu að borga, ef kæmi til nýs mats hjá þeim, og ég býst jafnvel við, að Prestafélagið muni jafnvel mótmæla því, að það verði farið að gera það, og sendi myndarlegt skjal í þingið um það mál. — En ég vil taka það fram, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að vísa þessu máli aftur til landbn. Það var búið að vera hér og athugað töluvert. Svo er það búið að vera lengi nokkuð í Nd. hjá landbn. Þeir taka þar alls konar pótentáta fyrir sig, rekja úr þeim það, sem þeir vita, og eru lengi að sjóða saman sína hluti, og svo fer það þannig í Nd., að ég heyri sagt, að það hafi verið 2 atkv. á móti frv., þegar það var samþ. Af öllum þessum ástæðum finnst mér satt að segja ekki koma til mála að fara að vísa þessu máli til landbn. aftur til að athuga það, þar sem hér er ekki um neina efnisbreytingu í raun og veru að ræða, aðeins orðabreytingu, sem þó má telja að sé klerkunum í vil heldur en hitt.