02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

209. mál, veð

Lárus Jóhannesson:

Herra forsetl. Eins og frv. þetta ber með sér, þá er það flutt í Nd. samkvæmt beiðni landbrh. Þegar frv. kom hingað til d., þá kom í ljós, að það hafði verið tekin svo að segja orðrétt grein upp úr lögunum um kreppulánasjóð. N. gat alls ekki fallizt á að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, vegna þess, hversu margar undantekningar voru gerðar frá almennum reglum um veðsetningu. Þegar leyfðar voru þessar undantekningar, sem höfðu verið gerðar á almennum veðreglum við kreppulánasjóð, þá var það gert með tilliti til þess, að þá var um leið gert hreint fyrir dyrum hjá þeim, sem fengu lán úr sjóðnum, skuldir þeirra greiddar upp og þeir skulduðu venjulega ekki öðrum en sjóðnum. Auk þess var þarna um tiltekið lán að ræða, sem ekki yrði veitt aftur, en færi minnkandi. Það var því alveg ljóst mál, að þær reglur, sem settar voru um þessi lán, gátu alls ekki gilt til frambúðar.

Þess vegna hefur n. sniðið allmest af þessu og reynt að búa til reglur, sem gefi bændum heimild til þess að fá rekstrarlán um stuttan tíma, ár eða minna. Þetta er gert með því að gera auðveldara fyrir með þinglýsingar og þess háttar, að það þurfi ekki að telja t.d. allt upp, svo að áður en væri löggilt veð t.d. í sauðfé, þá þyrfti að brennimerkja hverja kind, til þess að það væri hægt að ákveða hana, o. s. frv. Þetta er of þungt í vöfum, og þótti ekki gengið of mikið á snið við venjulegar veðsetningarreglur, þó að slakað væri nokkuð til á þessu fyrir stutt lán, sem ætlazt væri til að greidd væru upp ekki sjaldnar, en á árs fresti.

Út af fyrirspurnum hv. þm. Barð. skal tekið fram, að það er sjálfsagt, ef maður veðsetur mjólk, að þá verður andvirði hennar að greiðast upp í lánið. Sé aftur á móti veðsett kýr, þá þarf mjólkin úr henni ekki að vera veðsett líka, en ef mjólkin er veðsett líka, þá verður náttúrlega að greiða það upp í lánið. En það er búizt við, að þeir bændur, sem selja mjólk að staðaldri til mjólkurbúa, þurfi miklu síður á svona lánum að halda heldur en fjárbændur úti um sveitir landsins, sem veðsetja þá dilka sína.

Það vafðist dálítið fyrir n., hvort ætti að leyfa veðsetningu á fóðurbirgðum, en niðurstaðan varð þó sú, að ef það væri ekki heimilt að veðsetja fóðurbirgðir með þeim skepnum, sem veðsettar væru, þá gæti það orðið til stórra óþæginda fyrir veðhafa, ef hann þyrfti t.d. að haustlagi að taka við gripunum án þess að hafa þá nokkurt fóður handa þeim. Að þessu athuguðu taldi n., að það væri ekki gengið of mikið á snið við venjulegar veðsetningarreglur, þó að þessi undantekning væri heimiluð.

Ég vil leggja áherzlu á það um þessa undantekningu frá almennum veðsetningarreglum, að n. hefur eingöngu séð sér fært að heimila hana fyrir lán til stutts tíma. Mér er alveg ljóst, að þetta getur verið tvíeggjað sverð fyrir bónda, því að það hlýtur að skerða lánstraust hans að öðru leyti verulega. En með frv. eins og það kom frá Nd. hefði hann verið bókstaflega gerður ómyndugur, ef svo má að orði kveða, í sínum fjármálum.

Þeir af nm., sem þekkja sérstaklega til búskapar, hafa talið, að frv. eins og það kemur frá n. nái þeim tilgangi, sem ætlazt var til með því upprunalega frv. Ég hef reitt mig á álit þeirra í því efni .og séð mér fært að leggja til, að þessar undantekningarreglur frá almennum veðsetningarreglum verði heimilaðar.