11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þskj. 180 hef ég flutt ásamt hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. Rang. frv. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku handa Iðnaðarbanka Íslands h/f.

Síðasta Alþ. samþ. lög um stofnun og rekstur Iðnaðarbanka Íslands, og sá banki hefur nú verið stofnaður í s.l. mánuði. Í lögum hans er svo fram tekið, að hlutverk hans sé að styðja verksmiðjuiðnað og handiðn í landinu. Í þessum lögum er svo ráð fyrir gert, að ríkissjóður leggi bankanum til í öndverðu 3 millj. kr. og öðrum 3 millj. sé safnað hjá meginsamtökum iðnaðarins, þ.e.a.s. fyrir forgöngu Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda, og loks sé aflað 1/2 millj. með almennri hlutafjársöfnun. Það er að sjálfsögðu ljóst, að bankinn þarf nú alveg á næstunni verulega aukið fé umfram hlutaféð, til þess að starfsemi hans megi koma að verulegu gagni.

Um lánsfjárþörf iðnaðarins í landinu þarf ekki að fjölyrða. Það er öllum ljóst, að bæði til stofnlána og rekstrar þarf iðnaðurinn mikið fé. En nú er svo komið, að iðnaður er orðinn ein af þremur aðalatvinnugreinum landsmanna. Iðnaðarbankinn er að sínu leyti hliðstæður Búnaðarbankanum, sem stofnaður var fyrir rúmum tveim áratugum. Sá banki hefur það hlutverk að styðja landbúnaðinn á ýmsa vegu og hefur orðið honum mikil lyftistöng. Alþ. og ríkisstjórnir hafa sýnt mikinn hug á því að efla þann banka fyrr og síðar. Vil ég nefna sem dæmi, að af gengishagnaði bankanna 1950 var ákveðið að Búnaðarbankinn skyldi fá 13.75 millj., af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1951 var ákveðið að Búnaðarbankinn skyldi fá 13.75 millj., þriðja lagi var 16 millj. kr. lán í Alþjóðabankanum tekið á þessu ári. Loks liggur nú fyrir frv. frá hæstv. ríkisstj. um að heimila henni 22 millj. kr. lántöku til handa Búnaðarbankanum. Eins og Alþ. og ríkisstjórnir hafa þannig sýnt mikinn hug á því að efla þessa nauðsynlegu lánsstofnun landbúnaðarins, eins væntum við flm. þessa frv., að það fái góðar undirtektir hjá Alþ. og ríkisstj., þegar fram er borin till. um eflingu Iðnaðarbankans. En þetta frv. fer fram á að heimila ríkisstj. að taka allt að 15 millj. kr. að láni, innanlands eða utan, og endurlána Iðnaðarbankanum það með sömu kjörum. — Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál, en vænti góðra undirtekta og vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.