08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. minn hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get látið hjá liða að rekja hér efni þessa frv. Það hefur frsm. meiri hl. þegar gert. En í sambandi við slíkt mál og meðferð þess er fyllsta ástæða og reyndar nauðsynlegt að athuga, hverjar horfur séu á því, að unnt sé að framkvæma það, sem til er ætlazt samkv. frv. Þarf þá að íhuga, hvernig ástatt er yfirleitt um lántökumöguleika og hverjar ákvarðanir hafa áður verið teknar um lántökur af hálfu ríkisins, sem ekki er búið að framkvæma. Í nál. minni hl. iðnn. á þskj. 289 er birt nokkurt yfirlit um þetta.

Eins og kunnugt er, er nú verið að vinna að byggingu þriggja stórra mannvirkja hér. Það eru rafstöðvarnar við Sogið og Laxá og áburðarverksmiðjan. Það er talið, að enn þurfi að fá lán til þeirra framkvæmda um 70 millj. kr. Og hæstv. ríkisstj. vinnur vitanlega að því að útvega þetta lán, til þess að hægt sé að ljúka við byggingu þessara mannvirkja á þeim tíma, sem til var ætlazt. Þá hefur hæstv. ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir því, að sementsverksmiðjan, sem lög hafa verið sett um, verði byggð svo fljótt sem mögulegt er, og því mun ríkisstj. beita sér fyrir því samkv. heimild, sem hún hefur í lögum, að fá lán til þeirrar verksmiðju. Og það er talið, að til þess þurfi a.m.k. 75 millj. kr. Þá hefur hæstv. ríkisstj. lagt fyrir þetta þing frv. um lántökuheimildir vegna lánadeildar smáíbúða og vegna byggingarsjóðs Búnaðarbankans og ræktunarsjóðs, og nema þær lántökuheimildir alls 38 millj. kr. Ríkisstj. hafði, þegar þing kom saman, ákveðið að beita sér fyrir því, að þessi lán fáist á næsta ári handa þessum stofnunum, til þess að ekki stöðvist íbúðarhúsabyggingar og unnt sé að veita nokkur lán til ræktunarframkvæmda í sveitum samkv. gildandi l. um ræktunarsjóð. Þessi frumvörp verða vafalaust samþ. á þinginu nú. Alls nemur þá þetta, sem ég hef hér talið, 183 millj. kr., sem ríkisstj. nú er að vinna að að fá til þeirra hluta, sem ég hef nefnt. Þá má enn minna á það, að á tveim síðustu þingum hafa verið samþ. l. um ný orkuver og nýjar rafveitur rafmagnsveitna ríkisins í nokkrum héruðum landsins, þar sem rafmagn vantar enn til heimilisnota og annarra þarfa. Og vitanlega er til þess ætlazt af því fólki, sem býr í þeim landshlutum, sem enn fara á mis við þau gæði, að farið verði að sinna þessum nauðsynjamálum þess, þegar lokið er við hinar stóru framkvæmdir á þessu sviði, sem nú er verið að vinna að, þ.e.a.s. rafstöðvarnar við Sogið og Laxá. Og eins og ég gat um, þá hafa verið veittar lántökuheimildir í því sambandi á síðustu tveim þingum, sem alls nema 79 millj. kr. Það er mjög mikið nauðsynjamál fyrir fjölda manna, að hafizt verði handa um þessar rafstöðvabyggingar strax þegar lokið er virkjununum við Sogið og Laxá, sem nú er unnið að. Sé þessum 79 millj. bætt við áður taldar 183 millj., þá koma út úr því alls 262 millj. kr. Allt þetta fé þarf ríkisstj. að útvega að láni innan skamms samkv. þeim l., sem nýlega hafa verið samþ. á Alþ., og samkv. stjórnarfrumvörpum, sem liggja fyrir þessu þingi og verða vafalaust að l. nú áður en þingi lýkur. Það er því ærið verkefni við útveganir fjármagns til ýmissa nauðsynjaframkvæmda, sem þegar liggur fyrir hæstv. ríkisstj., og má vissulega telja, að vel takist til, ef öllu því fé verður náð saman á skömmum tíma. Meðan svo stór viðfangsefni á þessu sviði eru enn óleyst, verður tæplega talið, að það sé tímabært að bæta enn stórum fjárhæðum við lántökuheimildirnar, því að það er vitanlega engum að gagni, hvorki iðnaðarmönnum né öðrum, að hér séu samþ. slíkar heimildir á þessu þingi, ef fyrirsjáanlegt er, að ekki er hægt að sinna þeim málum nú um sinn eða í næstu framtíð vegna þess, sem fyrir liggur og enn er óleyst af slíkum verkefnum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir 15 millj. kr. lántöku. En fleiri þmfrv. um ríkislántökur liggja nú fyrir þinginu. 72. mál þessa þings er frv. um byggingarsjóð kauptúna, flutt af þremur hv. þm. þessarar d. Þar er gert ráð fyrir 5 millj. kr. lántöku. Þá liggur einnig fyrir — það er 82. mál þingsins — frv. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna nýrra raforkuframkvæmda, flutt af fimm hv. þdm., þar sem lagt er til, að ríkisstj. verði veitt heimild til að taka allt að 15 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og verja þessu fé til nýrra rafmagnsveitna eftir nánari ákvörðun raforkumálastjórnar. Enn liggur hér fyrir frv. — 135. mál þingsins — um heimild handa stjórninni til öflunar lánsfjár til íbúðabygginga og um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa. Þetta er einnig flutt af fimm hv. þdm. Þar er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 30 millj. kr. að láni eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og verja því til að kaupa bankavaxtabréf af veðdeild Landsbanka Íslands, svo að hún geti lánað til húsabygginga. Vitanlega er hér um nauðsynjamál að ræða, bæði nýjar raforkuframkvæmdir og íbúðabyggingar. Samtals eru þetta þá 65 millj. kr., sem þingmenn leggja til í þessum fjórum frv., sem ég hef hér nefnt, að ríkið taki að láni til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Ef til vill eru fleiri till. um ríkislántökur nú fyrir þinginu, þó að ég muni ekki eftir þeim í svipinn. Get ég búizt við, að þær séu fleiri. En það ætti að vera hv. þdm. ljóst, að þetta er ekki framkvæmanlegt nú um sinn til viðbótar því, sem fyrir er og ég hef áður nefnt. Það geta að sjálfsögðu eða sennilega verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvað helzt eigi að sitja í fyrirrúmi af þeim framkvæmdum„ sem þingmenn hafa hér gert till. um að styðja með ríkislántökum. Hitt hef ég ekki orðið var við, að neinn ágreiningur væri um, að rétt væri að láta það sitja í fyrirrúmi, sem ríkisstj. hefur þegar ákveðið að beita sér fyrir. En að því er varðar þessi þmfrv. um ríkislántökur til ýmissa hluta, þá virðist mér, að það sé ekki að svo komnu ástæða til að reyna að vega það og meta, hvað af því sé nauðsynlegast, og gera þannig upp á milli þeirra till. um þessi efni, sem fyrir liggja í þmfrv., þar sem, eins og ég hef áður sagt, ekki er sjáanlegt, að það hafi þýðingu að samþ. meiri lántökuheimildir til hæstv. ríkisstj. að svo stöddu, meðan svo mikið er af óleystum verkefnum á því sviði.

Við, sem erum í minni hl. iðnn., lítum einnig svo á, að það eigi fyrst og fremst að vera verk ríkisstj. á hverjum tíma að meta það og ákveða, í samráði við þann þingmeirihluta, sem stj. styðst við, í hvaða röð þau verkefni eru leyst, sem ríkisstj. þarf að hafa forgöngu um eða styðja með lánsfjáröflun. Þess vegna meðal annars teljum við það eðlilegustu meðferð þessa máls og annarra hliðstæðra, sem nú liggja fyrir þinginu um lántökuheimildir, að þeim verði vísað til hæstv. ríkisstj. til athugunar. Það er því okkar till. í þessu máli.

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. gat um viðkomandi lántökum eða fjárútvegun að undanförnu til Búnaðarbankans, þá vil ég benda á það til þess að fyrirbyggja misskilning, að Búnaðarbankinn hefur ekki nú á þessum árum fengið neitt fé frá ríkinu eða fyrir þess milligöngu til rekstrarlána. Hér hefur aðeins verið um að ræða lánsútvegun handa tveim deildum bankans, þ.e.a.s. byggingarsjóði, sem veitir eftir fastákveðnum reglum lán til íbúðarhúsabygginga, og einnig til ræktunarsjóðs, sem veitir lán til ræktunarframkvæmda og annarra hliðstæðra framkvæmda í sveitum samkv. ákvæðum laga frá Alþ. En Búnaðarbankinn hefur að öðru leyti ekki fengið neitt fé fyrir milligöngu ríkisins, alls ekkert til rekstrarlána. Og sparisjóðsdeild bankans skuldar ríkissjóði ekki neitt þar af leiðandi. Þetta vildi ég aðeins benda á, ef vera kynni, að einhverjir hefðu skilið ummæli hv. 7. þm. Reykv. á þann veg, að bankinn sjálfur, þar á meðal sparisjóðsdeild hans, hefði undanfarið fengið eitthvert fé fyrir milligöngu ríkisins. Svo hefur ekki verið nú um mörg ár að minnsta kosti.