08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég er einn af flm. þessa frv., sem hér er um að ræða, og vildi í fáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég er það.

Það er rétt, sem síðasti hv. ræðumaður sagði hér áðan, að það eru ýmsar lánsheimildir fyrir og þær allháar, sem ekki hefur verið hægt að fullnægja, og æði mörg frv., sem liggja nú fyrir þessu hv. þingi um lánsheimildir til handa hæstv. ríkisstj. Og það er einnig rétt, að ekki eru miklar líkur til, að hæstv. stj. veitist mögulegt að útvega öll þau lán, sem hún þegar hefur fengið heimildir til og henni sennilega verða veittar á þessu þingi.

Hv. minni hl. segir, að það sé rétt, að ríkisstj. vegi það og meti í samráði við þann þingmeirihluta, sem hún styðst við á hverjum tíma, eftir hvaða röð lánin skuli tekin, ef ekki sé hægt að fullnægja öllum, sem heimildir eru fyrir eða beðið hefur verið um. Og af því að ég er samþykkur þessari skoðun hv. þm., þá finnst mér síður ástæða til að amast við því, að hæstv. stj. séu gefnar heimildir. Ég sé ekki, að það stafi nein hætta af því. Hæstv. stj. gerir ekki á hverjum tíma meira en mögulegt er, og það er eðlilegt, að hún ráðfæri sig á hverjum tíma við þann þingmeirihl., sem hún styðst við, hvað eigi að ganga fyrir, ef ekki er hægt að fullnægja því, sem fyrir liggur.

Hæstv. stj. hefur lagt fram tvö frv. nú á þessu þingi um heimild til lántöku, annað frv. vegna Búnaðarbankans, 22 millj., hitt frv. um 16 millj. kr. vegna smáíbúðabygginga. Ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um, að þessi frv. eigi að ganga fyrir þessu frv., sem við nú erum að ræða um, m.a. vegna þess, að hæstv. stj. var búin að koma sér saman um það að fá lánin fyrir þessa atvinnuvegi, og einnig vegna þess, að við munum margir vera sammála um, að Búnaðarbankinn og þær milljónir, sem eiga að fara í ræktunarsjóðinn og byggingarsjóðinn, séu hvað mest aðkallandi. Því verður ekki heldur neitað, að það er frumskilyrði, að fólk geti haft þak yfir höfuðið, og því mjög nauðsynlegt að ná lánum vegna smáíbúðabygginganna.

Í þessu landi hafa til skamms tíma verið aðelns tveir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, þ.e. landbúnaður og sjávarútvegur. Og er þó landbúnaðurinn sennilega eldri að því leyti að teljast aðalatvinnuvegur, því að lengst af lifði nú þjóðin á því að stunda landbúnað, en sjávarútvegurinn eða sjósóknin var þá aukaatvinnugrein. Og enn í dag er landbúnaðurinn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Enn í dag styðst þjóðin fyrst og fremst við landbúnaðinn. Þótt það sé ekki í samræmi við þær tölur, sem hv. frsm. meiri hl. n. nefndi hér áðan, þá er margt fleira, sem þar kemur til, og verður okkur það enn ljósara, nú en áður á þessum umróta- og upplausnartímum, hversu landbúnaðurinn er mikils virði fyrir þessa þjóð, að landbúnaðurinn er sú kjölfesta, sem þetta þjóðfélag byggist á. Þess vegna er það alveg óumdeilanlegt, að lán og fjárútvegun til landbúnaðar er það, sem eðlilegt er að gangi fyrir öllu. Sjávarútvegurinn hefur til skamms tíma gefið þjóðinni mikið í aðra hönd, er nú eins og sakir standa á hverfanda hveli, og er auðséð á öllu, að þjóðin í heild líður fyrir það. Sjávarútvegurinn hefur fengið mikla styrki og mikil lán, svo sem eðlilegt er, og væri ekkert við því að segja, ef rekstrargrundvöllur væri fyrir hendi hjá sjávarútveginum. En vegna þess, hve margt fólk að undanförnu hefur haft atvinnu við sjávarútveg og hvað sjávarútvegurinn nú er ótryggur atvinnuvegur, er enn nauðsynlegra en nokkurn tíma áður, að hér í landi verði til þriðji aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, iðnaðurinn, til þess að taka við því fólki, sem gengur atvinnulaust og hefur ekkert til að bíta eða brenna. Og ef þessi þjóð ætlar að vera efnahagslega sjálfstæð í framtíðinni, þá er nauðsynlegt, að atvinnulífið verði fjölbreyttara en það hefur verið.

Ég geri nú ráð fyrir því, að jafnvel þótt Iðnaðarbankinn fengi þessar 15 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að hann fái með þessu frv., þá nái þær ekki langt til þess að skapa iðnaðinum þann sess í þessu þjóðfélagi, sem hann ætti að hafa og nauðsynlegt er að veita honum í framtíðinni. En 15 millj. kr., ef þær fengjust til handa hinum nýstofnaða banka, væru nokkuð til að byrja með. Ef vel væri á því haldið, þá gæti það ýtt undir ýmsar framkvæmdir á iðnaðarsviðinu. Það má vel vera, að hæstv. stj. veitist ómögulegt að útvega þetta fé til bankans, þótt hún fái heimildina, og þá munu margir segja, að það sé þýðingarlaust að vera að samþykkja þessi lög. En ég tel, að jafnvel þótt ríkisstj. takist ekki að útvega féð, þá hafi þessi l. töluverða þýðingu eigi að síður, vegna þess að ef hv. Alþ. samþykkir l. um þetta, þá liggur fyrir ótvíræður vilji Alþ. fyrir því, að iðnaðinum verði veittur sá stuðningur, sem unnt er hverju sinni. Ég hygg, að ef þetta yrði að lögum, þá gæti það orðið móralskur styrkur fyrir iðnaðinn í þeirri baráttu, sem hann á nú á þessum erfiðu tímum við að stríða, og þess vegna væru lög um þetta ekki einskis virði, jafnvel þótt peningarnir kæmu ekki. Það verður aldrei heimtað af hæstv. stj., að hún geri meira í þessu efni en unnt er hverju sinni.

Ég gerðist meðflm. að þessu frv. vegna þess, að ég vildi undirstrika það, að iðnaðurinn á að fá viðurkenningu í þessu landi og að það er vilji okkar, að hann megi eflast, án þess að dregið verði úr stuðningi við þær atvinnugreinar, sem hafa skipað hér áður öndvegissess og eiga að skipa hér áfram öndvegissess og njóta stuðnings í þjóðfélaginu eftir því sem unnt er; eins og t.d. landbúnaðurinn og Búnaðarbankinn.