08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég heyrði það á ræðu hv. 2. þm. Rang., að hann er mér að verulegu leyti sammála í þessu máli, sem hér er rætt um. Hann segir, að hann sé því samþykkur fyrir sitt leyti, að það sé ríkisstj., sem ákveði það, í hvaða röð þessi verkefni séu tekin, að sjálfsögðu í samráði við stjórnarstuðningsflokkana. Hann segist einnig telja, að stjórnarfrv. um lántökuheimildir, sem hér hafa verið lögð fram, eigi að sitja fyrir. Um þetta erum við alveg sammála.

Mér virtist nú á ræðu hv. þm., að honum væri það einnig ljóst, að þó að þetta frv., sem hér er til umr., og fleiri slík væru samþykkt, þá væru litlar líkur til þess, að það væri hægt að framkvæma það, sem þar er gert ráð fyrir, nú um sinn eða meðan verið er að ljúka því, sem komið er áður og við erum sammála um, að eigi að sitja fyrir, og því þýðingarlítið að bæta meiru við. En ef ætti að samþ. þetta frv., þá vantar a.m.k. að setja í það ákvæði um það, hvað eigi að sitja fyrir af því, sem áður er búið að samþ. eða áður er búið að leggja fyrir þingið. Það yrði þá að taka það greinilega fram, um leið og Alþ. samþykkti slík lög, að þau kæmu þá fyrst til framkvæmda, þegar búið væri að útvega lán í annað, sem menn vilja láta sitja fyrir. Nú er það æði margt, eins og ég hef getíð um áður, og ég skal ekki fara að rekja það. Ég veit ekki um það t.d., hvort hv. 2. þm. Rang. telur, að sú lánsútvegun, sem um ræðir í þessu frv., eigi að ganga fyrir því að útvega lánsfé til rafstöðvabygginga, sem þegar er fyrir löngu búið að setja lög um hér á Alþ. eða veita heimild fyrir og eiga að bæta úr brýnni raforkuþörf fólksins í ýmsum héruðum landsins, sem hefur farið á mis við þau þægindi enn sem komið er. — Ég geri fastlega ráð fyrir því, að við hv. 2. þm. Rang. séum sammála um það, þó að hann nefni það ekki, að það eigi þó að sitja fyrir að ljúka rafstöðvabyggingunum við Sog og Laxá. Stjórnin hefur nú fengið á þessu þingi viðbótarlántökuheimild til þess og til að ljúka áburðarverksmiðjunni. Ég geri ráð fyrir, að hann vilji láta það sitja fyrir, svo að þær framkvæmdir stöðvist ekki nú á því stigi, sem þær eru. Ég tel það alveg víst, að hann vilji láta þær sitja fyrir. En þetta þyrfti þá að koma greinilega fram, ef Alþ. gengur lengra í því að setja lög um lántökuheimildir, því að sé þess að engu getið í öllum þessum heimildum, þá má segja, að þetta eigi allt sama rétt á sér. Það er hægt fyrir þá, sem þarna eiga hlut að máli, að halda því fram, að þetta sé allt jafnrétthátt.

Hv. 2. þm. Rang. hefur gerzt meðflm. hér að tveim öðrum lántökufrv. en þessu um Iðnaðarbankann, þeim frv., sem ég gat um hér í fyrri ræðu minni, þ.e. frv. á þskj. 92, um heimild fyrir ríkisstj. til 15 millj. kr. lántöku til nýrra raforkuframkvæmda, og frv. á þskj. 192, um 30 millj. kr. lántökuheimild vegna íbúðabygginga, þ.e.a.s. vegna veðdeildar Landsbanka Íslands. Ég veit ekki um það, það kom ekki fram í ræðu hans, hann nefndi það ekki, hvort hann væri nú á þessari stundu reiðubúinn til að ákveða það, í hvaða röð hann vill láta framkvæma þetta, sem hann hefur hér ásamt fleiri þm. flutt till. um. En sennilega er það nú, að hann gengur fram hjá því, fyrir það, að hann veit alveg jafnvel og ég, að það er ekki hægt að framkvæma þetta nú að svo stöddu og því enginn skaði skeður, þó að ákvörðun um það,í hvaða röð þetta eigi að gerast, biði til næsta þings. Það veldur engum tjóni, þótt það verði gert.