08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. vildi nú í seinni ræðu sinni eigna sér eiginlega hv. 2. þm. Rang. Ég tel nú mig og meiri hl. eiga meira í honum, því að það er sá munurinn, að hv. 2. þm. Rang. vill samþ. frv., en hv. þm. V-Húnv. vill fella það, vísa málinu frá eða til stjórnarinnar. (Gripið fram í.) Stjórnin er góð, segir hv. þm., og hann lýsir svo sinni stjórnhollustu hér í sínum ræðum, að ef ríkisstj. hefur borið frv. fram á þingi, þá sé í rauninni óþarft að ræða það, þá sé þar með skorið úr um, að málið eigi að ganga fram, og sé óþarft fyrir þm. að vera yfirleitt að ræða slíkt mál. Það er ákaflega gott fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa jafnstjórnholla menn og þennan hv. þm. Ég lít öðrum augum á þetta mál. Ég lít svo á, að Alþingi, sem er æðsta stofnun þjóðarinnar, eigi að marka stefnuna, það eigi að segja til um, hvaða mál eigi að ganga fyrir og hver ekki, og það sé Alþingis að ákveða, en stjórnarinnar að hlýða fyrirskipunum Alþingis.

Það er auðvitað ágætt að vera stjórnhollur eins og hv. þm. Við vitum það, að ráðh. eru misjafnir, og ég tel það ekki sem heilagt lögmál, sem ráðh. kunna að leggja fyrir þingið. Ja, stundum eru ráðherrar góðir og stundum illir, eins og gengur og gerist, ég býst við, að yfirleitt sé svipað um þá og um alþm. En fyrst og fremst vil ég leggja áherzlu á, að það er Alþingis að ákveða, í hvaða röð þessi mál eiga að koma.

Þessi sami hv. þm., þm. V-Húnv., segir, að Búnaðarbankinn hafi ekki fengið með lögum, sem hér hafa verið samþ., eða frv., sem liggja fyrir, rekstrarfé og í rauninni hafi Búnaðarbankinn ekki fengið neitt, það séu ræktunarsjóður og byggingarsjóður o. s. frv. Þetta er náttúrlega heldur ómerkilegur orðaleikur, því að vitaskuld er Búnaðarbankinn þessar deildir og fleiri. Það er auðvitað enginn munur á þessu, því að vitanlega má eins vera um þessar 15 millj., sem ætlazt er til að Iðnaðarbankinn fái, að þær gangi til stofnlána, og vissulega er brýn þörf á því, en um leið og Búnaðarbankinn fær þannig stofnfé til sinna deilda, þá skapast honum auðvitað meiri möguleikar til rekstrarfjár á öðrum sviðum.

Ég svaraði nú hér í fyrri ræðu minni meginröksemdum þeim, sem komu fram í nál. minni hl., og tel enga ástæðu til að endurtaka það, en vil aðeins taka það fram hér, að afstaða hv. minni hl. og sérstaklega þm. V-Húnv. er beint áframhald af þeirri starfsemi, sem hann hefur haft með höndum tvö undanfarin þing. Tvö undanfarin þing hefur legið fyrir frv. um stofnun Iðnaðarbanka. Hann hefur þá valið sér það hlutskipti í bæði skiptin sem fulltrúi sins flokks í iðnn. Nd. að beita sér gegn því frv. Honum tókst að fresta því á fyrra þinginu, en á síðara þinginu brást honum bogalistin, svo að frv. varð að lögum. Nú þegar kemur fram frv. um að reyna að efla Iðnaðarbankann, þótt í smáum stíl sé og flutt um það frv., sem er alger hliðstæða við frv. um Búnaðarbankann, þá þarf einnig að leggjast á móti því til þess að reyna að koma í veg fyrir, að Iðnaðarbankinn fái þó þetta aukna starfsfé. Mig undrar ekkert afstaða hv. þm., því að hún er beint áframhald af þeirri iðju, sem hann hefur ástundað hér tvö undanfarin þing.