08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Rétt er það hjá hv. 7. þm. Reykv., að ráðh. eru misjafnir í þessari stjórn eins og öðrum. Hitt er rangt hjá honum, að ég sé með öllum stjórnarfrv., sem hér eru lögð fyrir, og fleira var athugavert við það, sem hann sagði í sinni seinni ræðu.

Hv. 7. þm. Reykv. segir, að það sé Alþingi, sem eigi að taka ákvarðanirnar. Alþingi á að segja til um það, hvað eigi að framkvæma á hverjum tíma, og stjórnin á að annast um framkvæmdirnar samkv. ákvörðunum Alþingis. Jú, þetta getur verið gott og blessað. En það væri æskilegt að heyra það frá hv. 7. þm. Reykv., hvort hann telur, að ákvarðanir ríkisstj. í þessum lántökumálum hafi verið óheppilegar, það óheppilegar, að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að grípa fram fyrir hendur stjórnarinnar og skipa fyrir um það, að nú skuli eitthvað annað sitja í fyrirrúmi heldur en það, sem ríkisstj. hefur ákveðið að skuli sitja fyrir. Vill hv. 7. þm. Reykv. t.d., að stjórnin setji þetta mál, sem hér er til umr. nú, fram fyrir það að útvega viðbótarlán í virkjanirnar við Sog og Laxá og áburðarverksmiðjuna? Vill hv. 7. þm. Reykv., í fyrsta, lagi þetta? Í öðru lagi: vill hann, að stjórnin meti þetta meira en að útvega fé í sementsverksmiðjuna? Vill hann, í þriðja lagi, að stjórnin láti þetta sitja fyrir því að útvega lán til smáíbúðabygginga, sem stjórnin hefur lagt frv. fyrir þingið um, og til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs Búnaðarbankans? Vill hann enn fremur, að þetta verði látið sitja fyrir því að útvega fé til áframhaldandi raforkuframkvæmda, þegar búið er að virkja Sog og Laxá, ef það verður nú gert, hvað sem kann að liða áliti hv. þm. um það, hvort það eigi að sitja fyrir eða ekki? Telur hv. 7. þm. Reykv. enn fremur, að þetta frv. sé rétthærra en tvö önnur frv., sem hv. flokksbræður hans hér í þessari þd. hafa nú lagt fram á þessu þingi um lántökur til nýrra raforkuframkvæmda og um öflun lánsfjár til íbúðabygginga gegnum lán frá veðdeild Landsbankans? Ef tekið er til greina þetta, sem hv. 7. þm. Reykv. heldur fram og getur verið rök í málinu, að það sé Alþingi, sem eigi að segja til um það, hvað eigi að framkvæmast, í hvaða röð framkvæmdirnar eigi að gerast, en stjórnin að fara eftir því að sjálfsögðu, sem þingið ákveður, þá verður hann einnig að gefa það upp, hvernig hann vill láta framkvæma þetta, hvort hann hefur einhverjar rökstuddar athugasemdir við það að gera, sem stjórnin hefur þegar ákveðið og beitt sér fyrir, hvort hann vill taka eitthvað annað og setja það fram fyrir þetta, sem stjórnin hefur þegar ákveðið, að sitja skuli í fyrirrúmi. Ég sé ekki ástæðu til að tala frekar við hann um þetta mál, fyrr en hann hefur gert grein fyrir skoðunum sínum á þessu.