04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þetta mál aðeins til þess að benda á eftirfarandi nú við afgreiðslu þess, þar sem ég geri ráð fyrir, að frv. þetta verði nú að l., eftir því fylgi, sem fram hefur komið um málið í hv. fjhn.

Ríkisstj. á eftir að útvega 70–80 milljónir kr., til þess að hægt sé að ljúka virkjun Sogsins, virkjun Laxár og áburðarverksmiðjunni, og getur vel svo farið, að taka verði þetta fé að láni að einhverju eða öllu leyti. Þá hefur verið samþ. á þessu þingi heimild til þess að taka að láni 16 millj. vegna smáíbúða og 22 millj. vegna Búnaðarbankans. Enn fremur er gert ráð fyrir, að sementsverksmiðjan muni kosta um 85 millj. kr., og mun verða að taka það fé að láni mestallt, sennilega um 45 millj. erlendis og allt að 40 millj. innanlands. Eru þá taldar þær lántökur, sem núverandi ríkisstj. hefur ákveðið að sitji fyrir öðrum lánsútvegunum í framkvæmd. Enn fremur eru í lögum heimildir til þess að ábyrgjast fyrir Framkvæmdabankann allt að 80 millj. í lántökum og í l. eru einnig á ýmsum stöðum heimildir til þess að taka lán til raforkuframkvæmda, a.m.k. um 80 millj. samtals. En framkvæmdaröð þessara lántaka hefur ekki verið ákveðin af núverandi ríkisstjórn.

Af þessu stutta yfirliti, sem þó er ekki á nokkurn hátt tæmandi, því að vafalaust eru fleiri lántökuheimildir í gildi, sést greinilega, að hv. Alþ. er búið að samþ. meiri lántökur, en horfur eru á að hægt sé að koma í framkvæmd á næstunni. Reynslan ein fær hins vegar úr því skorið, hversu til tekst um útvegun lánsfjárins. — Þessa vildi ég aðeins láta getið í sambandi við afgreiðslu málsins til þess að bregða upp heildarmynd af þessum lántökum öllum saman.