24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

38. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf, svo langt sem það náði, en ekki get ég látið hjá líða að bæta því við, að mér þótti þær ná fullskammt, þar sem ég fékk engin svör við því hjá hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hefði í huga að snúa sér til Sameinuðu þjóðanna og hliðstæðra stofnana í sambandi við þetta mál. Hitt sagði hæstv. ráðh., sem ég veit að er fullkomlega rétt, að stjórnin hefði hugleitt þetta mál og hefði það enn til athugunar og eins hverjar leiðir væru heppilegar til þess að fá úr þessu skorið.

Ég mun ekki bera neina till. fram þess efnis að fela ríkisstj. að snúa sér til Sameinuðu þjóðanna að svo stöddu. En ég vildi mega vænta þess, að áður, en þessu þingi lýkur, þá gæti hæstv. ríkisstj. séð sér fært að gefa þinginu skýrslu um það, hvað hún hyggst fyrir í málinu. Þegar Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum og gerðist þátttakandi í ýmsum greinum af starfsemi þeirra, þá var það álit mitt, og ég held þm. allra án undantekningar, að einn stærsti vinningurinn, stærsti kosturinn við þátttökuna í þessum samtökum væri sá, að þar væri fenginn vettvangur, þar sem við gætum komið þeim málum okkar á framfæri, sem snertu viðskipti okkar, lífsnauðsynleg og þýðingarmikil viðskipti og samskipti við aðrar þjóðir. Og ég er þeirrar skoðunar enn. — Ég fæ ekki betur séð, ef brezk stjórnarvöld láta aðgerðir togaraeigenda í Bretlandi halda áfram, án þess að hreyfa þar hönd eða fót, en að þá verði rétt að álykta, að þær aðgerðir séu í frammi hafðar með vitund og þegjandi samþykki brezkra stjórnarvalda. Og að minnsta kosti er það víst, eins og ég áðan sagði, að afleiðing þessara aðgerða hlýtur að verða sú, að við njótum ekki beztu kjara sem viðskiptaþjóð hjá Bretum.

Hæstv. ráðh. sagði alveg réttilega, að það væri sitt hvað að eiga réttinn og vita sjálfir, að við ættum hann. Það væri annar þáttur málsins ekki minna áríðandi, og hann væri sá að sýna heiminum, sýna öðrum þjóðum fram á, að við hefðum rétt fyrir okkur. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. í þessu efni, og kem ég þá aftur að því, sem ég fyrst sagði, að einmitt sá vettvangur, sem eðlilegastur og sjálfsagðastur er til þess að sýna öðrum þjóðum fram á, hver er okkar réttur, og sannfæra þær um, að við förum í engu lengra, en lög standa til og alþjóðaréttur, það er einmitt að taka málið upp á samkomu Sameinuðu þjóðanna og í þeim n., sem starfa á þeirra vegum. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, þar til annað kemur fram, að hæstv. ríkisstj. athugi þetta gaumgæfilega og sjái sér fært að láta Alþingi vita um fyrirætlanir sínar í þessum efnum, áður en þing fer heim, þannig að alþm. eigi þess kost að bera fram þær ábendingar í því sambandi, sem þeir telja nauðsynlegar.