04.02.1953
Neðri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. — Ég skal segja það fyrir mitt leyti, að það er síður en svo, að ég mælist til þess á nokkurn hátt, að hæstv. ríkisstj. taki fram fyrir hendur Landsbankans og taki að sér að stjórna fjármálum hans. Hér er ekki um það að ræða á neinn hátt. Ég hef sagt það áður, að ég ber mig ekkert sérstaklega undan viðskiptum mínum sem útvegsmanns við bankastjóra Landsbankans, nema síður sé. En hins vegar skal ég líka segja það, að það hefur komið fram og það ekki sjaldan hjá bankastjórum Landsbankans, að það sé ekki við þá að semja um Stofnlánadeild sjávarútvegsins, það sé ríkisstj., sem hafi með hana að gera, og það sé við hana algerlega að semja í sambandi við Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Allar tilraunir mínar og annarra útvegsmanna við bankastjóra Landsbankans í sambandi við frest og annað þess háttar um gjöld til Stofnlánadeildar sjávarútvegsins hafa ævinlega mætt þeim svörum frá bankastjórum Landsbankans, að þetta sé ekki á þeirra valdi, þeir hafi fyrst og fremst aðeins með framkvæmdina að gera, hér verði að koma til bein fyrirmæli frá hálfu ríkisstj., því að alveg sérstök ákvæði gildi um stofnlánadeildina. Og þar sem ég hef nú ekki enn þá heyrt hjá hæstv. atvmrh., að það hafi komið a.m.k. skýrt fram, að hann eða ríkisstj. hafi beinlínis leitað eftir slíku samkomulagi við stjórn stofnlánadeildarinnar, að þetta næði einnig yfir togarana, þá held ég mér enn við þá ósk, að ríkisstj., sem fyllilega gerir sér ljósa grein fyrir þörfum togaraútvegsins, geri þessa tilraun eða taki við heimild sér til handa til þess að halda þessum samningum áfram við stjórn stofnlánadeildarinnar síðar.

Ég vildi fyrir mitt leyti mælast til þess við hv. þm. Borgf., að hann tæki sína till. aftur til 3. umr., þannig að málið gæti nú fengið að halda áfram og við tefjum ekki fyrir því á neinn hátt, en fyrir 3. umr. yrði þá reynt að athuga nokkru nánar, hvort ekki eru tök á því með fullu samkomulagi við stjórn Stofnlánadeildarinnar að veita ríkisstj. þessa viðbótarheimild, til þess að hún hafi þá þann möguleika, þótt síðar verði, til þess að greiða fram úr þeim vandamálum, sem allir sjá að muni á hana skella í þessum efnum á næstunni.