04.02.1953
Neðri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það er aðeins örstutt athugasemd, herra forseti. — Ég hygg, að það sé um nokkurn misskilning að ræða hjá hv. 2. landsk. þm., þegar hann skýrir frá umsögnum stjórnar stofnlánadeildarinnar varðandi afskipti ríkisins og vald ríkisins yfir Stofnlánadeildinni. Það er að sönnu rétt, að stjórn Stofnlánadeildarinnar getur út af fyrir sig ekkert haft við það að athuga, þó að einstakir skuldunautar greiði ekki, ef ríkissjóður greiðir í þeirra stað. En það eru skýr og tvímælalaus fyrirmæli 6. gr. þessara laga, að ríkinu ber að greiða, ef hlutaðeigandi greiðir ekki. Þetta er aðalatriðið. — Hitt skal ég svo með ánægju endurtaka, svo að maður segi eins og á góðu uppboði: Fyrsta, annað og þriðja sinn — að vitaskuld hefur stj. leitað hófanna um, hvort stjórn stofnlánadeildarinnar vildi láta þetta ná til togaranna. Ef stjórn togarafélagsins vildi fara á fjörurnar líka, þá er það siður en svo í móti mínum vilja, að það sé gert.

En það ætti þá að gerast fyrr en seinna, því að þetta mál getur ekki beðið lengi.