04.02.1953
Efri deild: 70. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram við þessa umr., fyrst málinu var ekki vísað til n. og ekki gefst neitt tækifæri til þess að ræða það þar, að ég fyrir mitt leyti hefði talið miklu æskilegra, ef sá gjaldfrestur, sem ríkisstj. er að beita sér fyrir með samþykkt þessa frv., hefði einnig náð til togaranna, eins og gert var ráð fyrir í brtt. á þskj. 754, sem borin var fram við frv. í hv. Nd. Vegna þess að það er að sjálfsögðu kunnugt, að útgerðir ýmissa togaranna eiga í mjög miklum fjárhagslegum örðugleikum, hefði verið þörf á því að geta hlaupið þar undir bagga á sama hátt og ætlazt er til að gert verði viðvíkjandi vélbátunum. En þar sem hæstv. sjútvmrh. hefur lýst því hér yfir fyrir hönd ríkisstj., að ef gerðar yrðu breytingar á frv., þá mundi hún telja sig knúða til þess að draga frv. til baka, þá mun ég ekki flytja neina brtt. í þessa átt, þó að ég, eins og ég áðan sagði, hefði talið það nauðsynlegt og æskilegt, að frv. hefði verið víðtækara og hefði einnig náð til togaraflotans.