24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

38. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta fyrir hæstv. forseta, að ég sagði ekki, að Bretar hefðu brotið samninga við okkur um beztu kjara viðskipti, heldur að með þessum aðgerðum væru ákvæði þessa samnings að engu gerð, með þeim aðgerðum, sem togaraútgerðarmenn í Bretlandi hafa í frammi og er til lengdar lætur varla verður annað ætlað, en séu gerðar með vitund og þegjandi samþykki brezkra stjórnarvalda, ef það verður framhald á þeim tímum saman.

Ég hef heyrt það, sem hæstv. ráðh. nú sagði um hugleiðingar ríkisstj. í sambandi við, hvar málið ætti að taka upp. Ég get vel fallizt á, að rétt sé að taka það upp á þeim stöðum innan þeirra samtaka, sem hæstv. ráðh. benti á, eftir því sem bezt þykir henta. En það breytir ekki því, að Sameinuðu þjóðirnar eru í sjálfu sér sá eðlilegi og rétti vettvangur í þessu. Og verði þetta mál deilumál þjóðanna í langan tíma, þá hlýtur að reka að því, að það kemur þangað. En ég vil aðeins endurtaka ósk mína, sem ég flutti hér fyrr, að áður en þessu þingi lýkur, þá geri hæstv. ríkisstj. þinginu grein fyrir nánari ákvörðunum sínum og fyrirætlunum í þessu efni.