15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við eigum sæti í allshn., hv. þm. Hafnf. og ég, sem myndum minni hlutann í þessu máli og erum andvígir þessu frv. eins og það liggur fyrir, en höfum hins vegar ekki enn þá gefið út nál. Ég vil, að það komi fram, að ég hef hlutazt til um það tvisvar sinnum í s. l. viku, að forseti tæki þetta mál út af dagskrá, vegna þess að ég beið þá eftir upplýsingum varðandi þetta mál frá útgerðarmönnum, sem ég hafði haft samband við, og reyndar frá fleiri stöðum, og því miður er það svo enn, að þessar upplýsingar hafa ekki borizt mér í hendur, en munu vera alveg á næstu grösum. Það var þess vegna að sjálfsögðu áhugamál mitt að geta komið á framfæri þeim upplýsingum, sem beðið hefur verið eftir, og það hefði verið eðlilegast, að það væri nú við þessa umr., og vil ég því segja, að hugur minn stæði mest til þess, að umr. yrði frestað, en hins vegar finn ég það líka, að ég á erfiða aðstöðu að standa í því æ ofan í æ að biðja forseta um frestun í málinu, og ef sá yrði nú ekki hátturinn, að umr. yrði frestað, þá mun ég að sjálfsögðu koma á framfæri nál. við 3. umr., sem mun vera fordæmi fyrir á þingi áður.

Ég vil aðeins á þessu stigi málsins segja það, að ég get vel skilið sjónarmið þeirra manna, sem flytja frv. eins og þetta út frá þeirri forsendu, að það séu of þungir baggar, sem hvíli á útgerðinni úti á landi varðandi olíuverð og annað, sem er einn þáttur þessa máls. Á hitt get ég ekki fallizt, að það eigi að leysa það mál með því að leggja nýja bagga á þá útgerð annars staðar á landinu, sem illa fær undir sér risið, eins og nú standa sakir. Ég hefði þess vegna viljað taka þátt í því með þeim mönnum, sem vilja létta byrðar útgerðarinnar úti á landi, að leysa málið frá öðru sjónarmiði en því að leggja nýjar byrðar á þá, sem áður eiga nógu erfitt með þann tilkostnað, sem þeir hafa af sínum atvinnurekstri hér í Reykjavík og við Faxaflóa og annars staðar í nánd. Ég tel engan vafa á því, að það sé margt, sem þar gæti komið til greina og mætti bæta aðstöðu útgerðarinnar úti á landi, eins og t. d. að koma upp stærri tönkum og að bæta aðstöðuna að öðru leyti. Ég hygg, að það muni láta nærri, að þetta frv. þýði um það bil eða fast að ½ millj. kr. aukakostnað við t. d. bæjarútgerð Reykjavíkur. Rekstur hennar hefur ekki verið með þeim hætti, að það sé hægt án frekari umsvifa að vera með í því að leggja slíkan nýjan kostnað á þá útgerð. — Í sambandi við rafmagnsframleiðsluna hér í Reykjavík, þar sem toppstöðin svo kallaða við Elliðaár er rekin með brennsluolíum, þá liggja fyrir upplýsingar um það frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, að ákvæði frv. muni muna hana um 450 þús. kr. á ári í framleiðslukostnað. Þetta er líka atriði, sem við, sem erum þm. Reykv., þurfum að taka afstöðu til og ber að taka til greina í þessu sambandi.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins hafa um þetta fleiri orð, en mun reyna að koma á framfæri frekari upplýsingum, sem snerta málið, og eins og ég sagði, hefði ég helzt kosið, að umræðu gæti orðið frestað, en annars þá áður en þetta mál kemur til 3. umr.