15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Þáltill. hafa verið samþ. á undanförnum þingum, sem hafa falið í sér að fela hæstv. ríkisstj. að hlutast til um, að jöfnunarverði á olíu og benzíni yrði komið í framkvæmd. Þrátt fyrir þessar ályktanir hefur ekkert gerzt, og er hv. alþm. kunn sú saga og því óþarft að rekja hana hér. — 7 hv. alþm. hafa auk mín flutt frv. til laga um verðjöfnun á olíu og benzíni á þskj. 40 í því trausti, að hugur hv. alþm. sé sá sami til þessa máls nú og hann hefur verið á undanförnum þingum. Frv. var vísað til hv. allshn. þessarar deildar, og hefur meiri hl. n. skilað áliti á þskj. 413, þar sem hann mælir með, að frv. verði samþykkt með smávægilegum breytingum.

Það, sem ég sérstaklega vil benda á, að ekki einungis réttlæti, heldur beinlínis sýni nauðsyn þess, að þessi háttur verði á hafður, þ. e. að verðjafna vörutegundir þær, sem um ræðir í frv., er, að á undanförnum árum hefur sú þróun orðið í sambandi við sölu á fiskafurðum, að sama verðlag er ákveðið á öllum stöðum á landinu, sem hafa skilyrði til að annast móttöku þeirra og verkun, hvort heldur um er að ræða til frystingar, söltunar eða herzlu. Áður fyrr var verðlagið ávallt töluvert lægra úti á landi á innkeyptum fiski, sem byggðist á því, að hafnarskilyrði og annað snertandi fiskframleiðsluna var ýmsum erfiðleikum háð og orsakaði oft stórum dýrari framleiðslu, en á þeim stöðum hér við Faxaflóa, þar sem hafnarskilyrðin og ýmiss konar aðbúnaður við framleiðsluna var lengra á veg kominn og þar af leiðandi arðbærari framleiðsla hjá þeim ýmsu fyrirtækjum og einstaklingum, sem önnuðust kaup og verkun fisksins á þessum höfnum. Í þessu sambandi má og benda á það, að nú er gert ráð fyrir, að sama kaupgjald eigi að gilda um land allt, eftir að verkfall það er afstaðið, sem nú í 14 daga hefur legið eins og mara á stórum hluta þjóðarinnar. Löggjafinn þarf nauðsynlega að gera sér grein fyrir, hvort það muni vera farsælt fyrir þjóðina, að öll útgerð landsmanna verði í framtíðinni rekin að mestu leyti frá höfnum við Faxaflóa og að allir aðrir útgerðarstaðir á landinu hætti að sinna þessum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Það leiðir af sjálfu sér, að sú hlyti þróunin að verða í þessum málum, ef ekki verður reynt að koma til móts við framleiðendur úti um land, m. a. með því að koma verðjöfnun á þær afurðir, sem keyptar eru erlendis frá og aðalatvinnuvegir þjóðarinnar þurfa að nota í stórum mæli. Það er ekki hægt að koma fram með nokkur rök fyrir því, að verðjöfnun á olíu og benzíni eigi ekki að vera lögfest, nema á þeim einu forsendum, að t. d. útgerð eigi ekki að stunda frá öðrum stöðum eða höfnum, en við Faxaflóa. Hvaða hv. þm. vill halda þeirri fjarstæðu fram, að það sé sanngjarnt eða réttlátt, að hver sá togari, sem gerður er út frá öðrum stöðum á landinu, en höfnum við Faxaflóa, eigi að greiða 100 kr. hærra gjald fyrir hverja smálest af olíu, sem hann brennir?

Við Íslendingar erum komnir töluvert lengra í verðjöfnunarmálunum, en menn gera sér almennt grein fyrir. Vil ég leyfa mér að nefna nokkur dæmi. Öllum kornvörum og öðrum þungavörum, sem Eimskipafélag Íslands annast flutning á, er skilað fyrir sama flutningsgjald á allar hafnir úti um land, og það þrátt fyrir það, þótt búið sé áður að landsetja vörurnar í Reykjavík. Eimskip tekur á sig allan aukakostnað við upp- og framskipun á þessum vörum í Reykjavík og flutning á þeim út um land. Það var því óþarft hjá hinum virðulegu olíufélögum að ræða í umsögn sinni á þskj. 413 um hættuna á því, að ef verðjöfnun yrði framkvæmd á olíu og benzíni, væri ekki ólíklegt, að kröfur kæmu upp um að setja jöfnunarverð á fleiri þungavörur, og nefna í því sambandi matvöru. Olíufélögunum er ekki ljóst, að Eimskipafélagið er búið að annast þessa sjálfsögðu fyrirgreiðslu í rúm 30 ár, og þeir prýðilegu menn, sem því fyrirtæki stjórna, hafa á öllum tímum talið þessa fyrirgreiðslu sjálfsagða. Íslenzkar landbúnaðarvörur eru seldar á sama verði hér í Reykjavík og þær eru seldar á framleiðslustöðum úti um land. Þá má og benda á, að olíufélögin hafa framkvæmt verðjöfnun á öllum tegundum olíu þannig, að hún er seld á sama verði á þeim stöðum öllum, sem olíuflutningaskipin annast flutning á úti um land, þegar höfnum við Faxaflóa og Vestmannaeyjum er sleppt. Á öllum öðrum stöðum á landinu er olían seld á sama verði. M. ö. o.: Án nokkurra óska frá Alþingi hafa olíufélögin sjálf komið þessari verðjöfnun á.

Það er því harla einkennilegt, eins og hv. 1. þm. Árn. tók réttilega fram áðan, að þessi sömu olíufélög vilja nú, að því er virðist vera í þeirra álitsgerð, fyrirbyggja frekari verðjöfnun. Ég er þeirrar skoðunar, að ef þessi verðjöfnun kemst á eins og kveðið er á um í frv., þá yrði það til þess m. a., að olíuflutningar út um land yrðu framkvæmdir á mun ódýrari hátt, en nú tíðkast. Það er ótrúlegt, að olíuflutningaskipið Þyrill, sem annazt hefur flutningana út um land, hefur á undanförnum árum grætt á aðra millj. kr. á ári í sambandi við flutningana á olíunni. Óhætt er að gera ráð fyrir, að nokkurn veginn öryggi fengist fyrir því, að ef allt það magn af olíu, sem selt er hér við Faxaflóa, tæki þátt í flutningskostnaðinum út um land, þá væri séð fyrir því, að olíuflutningaskipin tækju jafnháar fjárfúlgur árlega af þeim einstaklingum og fyrirtækjum, sem þurfa að nota olíur úti á landsbyggðinni.

Þetta frv. er búið að vera tvo mánuði hjá hv. allshn. Það virðist því vera kominn tími til, að það verði afgr. héðan úr deildinni, og vil ég mjög eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að því verði vísað nú til 3. umr. að lokinni þessari umr.