15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt um það, að flestir hv. ræðumenn hafa látið í ljós fylgi sitt við þetta mál. Hv. 5. þm. Reykv., sem er andvígur frv., gerði nú að nokkru leyti grein fyrir afstöðu sinni, og er hún skiljanleg frá hans sjónarmiði, þó að ég áliti, að lausn þessa máls ætti samt að vera þannig, að leiðréttur sé hlutur fólksins úti um landið hvað verð á þessari vörutegund áhrærir, og jafnvel hann mundi ekki vera ánægður með það fyrirkomulag, sem ríkir nú í þessari verzlun. Svo mikið ber á milli og svo óhagstætt er þetta og alvarlegt fyrir starfsemina í landinn, að brýn nauðsyn er á leiðréttingu. Mig hálffurðar á því, að þar sem hv. 5. þm. Reykv., sem talaði nú reyndar ósköp rólega um málið, hefur kunnugleika á því, að sjávarútvegurinn hér, t. d. togaraútvegurinn, á svona erfitt uppdráttar, með þá aðstöðu sem hann hefur þó hér langt umfram það, sem er nokkurs staðar úti um land, þá skuli hann ekki sjá, að óhjákvæmilegt er að liðsinna útgerðinni úti um landið hvað verðlag á þessari nauðsynjavöru áhrærir. Ef það er svo, að togararnir í Rvík berjast í bökkum með afkomu sína, þá má geta nærri, hvernig ástatt er um togarana úti um landið, sem hafa á allar lundir margfalt verri aðstöðu til sinnar starfsemi, heldur en togaraflotinn hér í Reykjavík, ekki eingöngu hvað áhrærir verðlag á þessari nauðsynjavöru, heldur líka alla aðstöðu til annarrar starfsemi. Þess vegna er þetta, eins og reyndar hefur komið á daginn, það nauðsynlegt og aðkallandi mál, að óhjákvæmilegt er að sinna því.

Hv. þm. Borgf. talaði hér og hafði á orði, að vel mætti svo fara, að ef verðjöfnun yrði á þessari vörutegund, þá gæti það orðið forboði þess, að verðjöfnun á öðrum vörum ætti sér stað úti um landið, og skildist mér hann telja, að það gæti haft þær afleiðingar, að það væri nokkuð íhugunarvert. Ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að ég ætla, að það standi ekki eins á með nokkra aðra vörutegund, sem verzlað er með, eins og þessa. Þetta er svo þýðingarmikið atriði í atvinnulífi landsmanna, og þessi viðskipti eru svo stórtæk og grípa svo inn í afkomumöguleikana, að það stendur öðruvísi á um aðrar vörutegundir í þessu landi, ég held nær undantekningarlaust. Það verður hvergi eins tilfinnanlegt fyrir afkomu manna, þó að einhver verðmunur kunni að vera, eins og einmitt með þessar vörutegundir, sem notaðar eru mikið til atvinnurekstrarins. Í því sambandi vil ég víkja að því, sem hv. þm. Siglf. sagði. Við erum að vísu í höfuðatriðum alveg sammála um þetta. En hvað benzínverðið áhrærir hefur það líka sína miklu þýðingu fyrir atvinnurekstur, og það er þeirra hluta vegna einmitt, sem hér er gert ráð fyrir verðjöfnun. Til eru héruð hér á landi, sem verða að flytja alla sína flutninga á bifreiðum og sum um langan veg, mörg hundruð kílómetra. Auk þess eru landbúnaðarverkfærin. Allmörg þeirra eru rekin með benzíni, og það er þess vegna undir því komið, hversu auðveld verður fyrir landbúnaðinn starfsemi þessara tækja, hvað verðið á þessari vörutegund er, hvað ódýr hún er. Þess vegna er alveg nauðsynlegt, að hafa það í huga, þegar um verðlag á þessari vörutegund er rætt. Ég vil því vona, að samkomulag geti orðið einmitt um að láta þessar vörutegundir allar fylgjast að og ekki sé farið að gera upp á milli þeirra.

Mér var alveg ókunnugt um það, — og má vera, að maður hefði getað aflað sér upplýsinga annars staðar frá, — að það væri ekki rétt, sem olíufélögin hafa sagt um verðmismuninn á brennsluolíunni hér og úti um landið. Þau hafa talið í erindi sínu til n. um 100 kr. mismun á söluverði hverrar smálestar, en hv. þm. Siglf., — og mér dettur ekki í hug að efast um, að hann hafi gild rök fyrir sínu máli, — telur, að verðmunurinn nemi hátt á annað hundrað kr. á hverri smálest. Af því má þá nokkuð ráða, hvernig muni vera að halda úti skipum úti um landið með svona miklum verðmun á þessari vörutegund, sem þau taka svo mikið til sín, sérstaklega þegar þess er gætt, eftir því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að útgerðin hér í Reykjavík með sína aðstöðu, á mjög erfitt uppdráttar. En hvað sem um þetta allt saman er, þá er það alveg sjáanlegt og það liggur orðið ljóst fyrir, að málið er þannig vaxið, að óhjákvæmilegt er að taka það fyrir til úrlausnar, þannig að bætt verði aðstaðan til atvinnurekstrar hvað áhrærir verðlag á þessum vörutegundum öllum.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi, að olíufélögin hefðu það mikinn gróða, að þau stæðust vel við að taka á sínar herðar flutninginn á þessum vörum út um landið, jafna verðið, svo að það yrði ekki hærra en í Reykjavík, og jafnvel gætu þau vel lækkað verðið á þessum vörum frá því, sem er í bænum. Nú skal ég játa, að ég hef ekki þann kunnugleika, að ég treysti mér til að dæma um þetta, en svo þýðingarmikið er þetta atriði, að það á að vera vorkunnarlaust að ganga úr skugga um þetta með því að láta rannsaka verzlun olíufélaganna með þessar vörur, og sé verzlunarmáti þeirra þannig, að þetta reynist rétt, þá eiga þau að taka á sínar herðar flutningana og lækka verðið um það, sem hægt er. Það er alveg óþarfi að láta þessi félög, hvað mörg sem þau eru nú, hvort þau eru 2, 3 eða fleiri, mergsjúga þjóðina.

Hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv. hafa borið fram brtt., sem eru nú bornar fram á þessari stundu og menn hafa ekki haft tök á að athuga. En sakir þess, hvað málið er mikilvægt og nauðsynlegt, að það fái heppilega afgreiðslu, — og það vildi ég vona, að sé meiri hluti fyrir því einmitt í Alþ., að svo megi verða, — þá er nauðsynlegt að vanda sem bezt allan frágang málsins, og vil ég nú leyfa mér að fara fram á það við hv. þingmenn, hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv., að þeir tækju sínar brtt. aftur til 3. umr., svo að mönnum gefist kostur á að athuga þær vel og íhuga, hvað heppilegast muni að gera um meðferð málsins, þannig að sem allra beztur árangur náist um afgreiðslu þess í alþjóðarþágu.