15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Forseti (SB):

Vegna þeirra óska, sem fram hafa komið um það, að umr. um þetta mál verði frestað, vil ég aðeins segja það, að frv. var vísað til hv. allshn. 14. okt. s. l. og n. hefur því haft mjög rúman tíma til þess að skila um það áliti, bæði meiri hluti og minni hluti, og enn fremur er nokkur tími liðinn síðan hv. meiri hl. n. skilaði áliti, þar sem það mun hafa verið 10. des. Ég hygg þess vegna, að heppilegast verði að hafa þann hátt á að ljúka 2. umr. nú, en hv. minni hl. gefist svo tækifæri til þess að gefa út nál. við 3. umr. Það eru fordæmi fyrir því og fyllilega þinglegt, og vænti ég, að hv. minni hl. geti sætt sig við það. Mun ekki verða hraðað svo að setja málið á dagskrá til 3. umr., að hv. minni hl. gefist ekki tækifæri til þess að gefa út sitt nál. með þeim upplýsingum, sem hann þarf að koma á framfæri. Ég vil enn fremur taka undir þá ósk hv. frsm. til hv. flm. brtt., að þeir taki sínar brtt. aftur til 3. umr. Þær snerta allmörg atriði frv. og æskilegra, að þær liggi fyrir prentaðar.