15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson). Herra forseti. Mér þykir miklu miður, ef hv. 2. þm. Reykv. ætlar að halda fast við það að halda till. sinum fram núna við þessa umr., og það er sakir þess, að hv. þm. hafa ekki haft nokkurt tækifæri til þess að athuga þær brtt. hans, sem hann hefur hér borið fram. Ég held, að það geti ekki orðið neinn vinningur að því að halda því til streitu, því að það er eðlilegt, að menn í þessu máli vilji gjarnan sjá fótum sinum forráð og geta gert sér glögga grein fyrir, hvað þeir eru að samþ. eða þá hvað þeir eru að fella. Ég skal lofa hv. 2. þm. Reykv. því, að ef hann verður við óskum mínum um þetta efni, þá skulu hans till. verða teknar til athugunar mjög gaumgæfilega af n. — Ég vil þakka hv. þm. Siglf. fyrir það, að hann vill verða við þeim tilmælum mínum að taka sínar brtt. aftur til 3. umr. Ef það á að halda fram svona till. strax til atkvæða, þá óttast ég, að þær næðu ekki samþykki, þótt það væri kannske alveg rangt, og það gæti þá leitt af sér, að það yrði að fresta umr., til þess að það kæmu ekki fyrir nein óhöpp. Er það þó slæmt sakir þess, hvað áliðið er þings, og alveg er það víst, að mörgum hv. þm. leikur hugur á, að þetta mál nái fram að ganga, telja það svo þýðingarmikið, eins og rétt er.

Vel má vera, að allshn. hafi ekki unnið eins rækilega og hún hefði átt að gera í þessu máli, en ég vil nú benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að það er mjög takmarkað vald, sem venjuleg þingnefnd hefur um að krefja aðila upplýsinga. Þeir aðilar, sem þn. leitar til, geta hagað sínum svörum eftir því, sem þeir telja bezt henta, og venjuleg þn. hefur ekki vald á því að krefja þá til sagna umfram það, sem þeir góðviljuglega láta í té. Til þess að svo megi verða, ef um eitthvert alvarlegt mál er að ræða, þá verður að hafa sérstaka skipun á slíkri þn. og veita henni vald til þess samkv. stjórnarskránni að krefja sagna og upplýsinga um allt það, er hún telur máli skipta, og þá er ekki hægt neinum aðila að komast undan að láta slíkar upplýsingar í té, nema þá að sæta sérstökum viðurlögum fyrir það að vilja ekki láta upplýsingarnar í té, sem óskað er eftir. En venjulega þn. skortir alveg myndugleika til slíks.

Ég ætla, að hér hjá okkur alþm. mörgum —kannske öllum — sé það áhugamál að láta afgreiðslu þessa máls fara sem bezt úr hendi, og þess vegna vil ég nú vona, að hv. 2. þm. Reykv. geti fallizt á að taka sínar till. aftur til 3. umr. Ég vil vona, að ekkert missist í við góða afgreiðslu málsins, þó að hann verði við þeim óskum.