19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum, að hv. allshn. skuli hafa klofnað um afgreiðslu þessa máls. — Verðjöfnun á olíu og benzíni hefur verið til umr. hér á Alþ. á tveimur síðustu þingum, og var till. til þál. um verðjöfnun samþ. á báðum þingum mótatkvæðalaust. Í nál. hv. allshn. Sþ., sem samþykkti samhljóða að mæla með till. á síðasta þingi, segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Reynist torvelt að koma þessu í framkvæmd án sérstakrar lagasetningar, þá telur n., að ríkisstj. eigi að koma málinu fram með setningu brbl.

Því miður sá hæstv. ríkisstj. sér ekki fært að framkvæma verðjöfnunina á s. l. ári þrátt fyrir þessi ákveðnu tilmæli Alþingis.

Það er vitað, að hv. minni hl. allshn., sem lagt hefur fram nál. á þskj. 523, styðst mjög við umsögn stjórnar L. Í. Ú., enda er umsögnin prentuð sem fskj. með nál. Því miður er umsögn stjórnar landssambandsins mjög einhliða hvað afstöðu hennar til verðjöfnunar snertir. Verður tæplega sagt, að stjórnin beri hagsmunamál útvegsmanna úti um land fyrir brjósti, en einskorði afstöðu sína til þessara mála með tilliti til hagsmuna meðlima sinna við Faxaflóa.

Stjórn L. Í. Ú. segir, að lítill áhugi virðist vera á verðjöfnun á olíu hjá útvegsmönnum úti um land. Það sanna er, að verðjöfnunarmálið hefur verið mesta hitamál á aðalfundi landssambandsins 1950 og 1951, eins og reyndar kemur fram í umsögn stjórnar L. Í. Ú. á þskj. 523. Á aðalfundi landssambandsins á s. l. hausti virtist þetta verðjöfnunarmál enn ætla að verða hitamál, og var því þess vegna samkv. till. frá mér vísað til stjórnarinnar, að sjálfsögðu í því trausti, að stj. mundi viðurkenna þörf útvegsmanna og atvinnurekenda úti um land fyrir lagfæringu á þessum málum. Því miður hefur reyndin orðið önnur, og harma ég það mjög. Allir stjórnarmeðlimir L. Í. Ú. eru vandaðir menn og grandvarir, og er viðhorf þeirra til þessara mála óskiljanlegt.

Þá upplýsir stjórn L. Í. Ú., að hún hafi aflað sér upplýsinga, hvernig þessum málum væri hagað í nágrannalöndunum. Í Danmörku er sama verð á olíum, hvar sem er í landinu. Í Noregi er sama verð á olíu til strandferðaskipa og allra fiskibáta um land allt, að öðru leyti er ekki verðjöfnun. Í Svíþjóð er sama verð á olíu í Stokkhólmi og Gautaborg; að öðru leyti er ekki um verðjöfnun að ræða. Þrátt fyrir þessa afstöðu nágrannalanda okkar til þessara mála mælir stjórn L. Í. Ú. á móti verðjöfnun.

Þá er rétt að geta þess, að fiskiþing hefur með miklum meiri hluta samþykkt að mæla með þáltill. þeim, sem bornar hafa verið fram á Alþingi um verðjöfnun á olíu og benzíni á undanförnum þingum. Var afstaða fiskiþings mjög skelegg í þessu máli, og voru aðeins fáir fulltrúar, sem voru á móti þál. um verðjöfnun, og þeir reyndar aðeins héðan frá Faxaflóa.

Um afstöðu olíufélaganna til þessa frv. tel ég óþarft að ræða, enda hafa aðrir hv. alþm. tekið umsagnir þeirra til meðferðar, og eru þær prentaðar sem fskj. með nál. hv. meiri hl. allshn. á þskj. 413. Það er ekki ofmælt, að olíufélögin séu andvíg frv. því, sem hér er til umr. Það er hins vegar sannfæring mín, að ef frv. þetta verður lögfest á þessu þingi, megi koma þessum málum þannig fyrir, að verðlag á olíum og benzíni þurfi lítið að hækka frá því verði, sem það er nú selt á hér í Reykjavík, ef rétt er á þessum málum haldið.

Ég vil þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir nál. á þskj. 413 og treysti því, að verðjöfnunarmálið mæti eins og áður velvilja og skilningi hv. þingmanna.