29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í 1. gr. frv. þess, sem hér liggur fyrir til umræðu, þá er tilgangur frv. sá að koma á einu verði á olíu og benzíni um land allt og fyrir því ráð gert, að ekkert tillit sé tekið til þess, hversu mismunandi dreifingarkostnaður er í sambandi við hina ýmsu staði.

Það er augljóst mál, að ef að þessu ráði á að hverfa, þá þarf að gera einhverjar ráðstafanir til þess að bera uppi þann mismun, sem er á flutningskostnaði á benzíni og olíum til hinna ýmsu staða á landinu.

Þetta frv. hyggst sjá fyrir þeim vanda með því að leggja sérstakan innflutningstoll á benzín og olíur. Þessi innflutningstollur er í frv. nefndur verðjöfnunargjald. Verðjöfnunargjaldi eða innflutningstolli þessum á svo að verja til þess að greiða með þann mismun, sem er á flutningskostnaði til hinna ýmsu staða í landinu.

Ef frv. yrði samþykkt eins og það liggur fyrir hér, þá er mjög greinilegt, að verð á benzíni og olíum mundi mjög hækka hér í Reykjavík og við Faxaflóa og nágrenni, en lækka á öðrum stöðum á landinu. Það er talið og ekki dregið í efa, að rétt sé, að benzín mundi t. d. hækka hér í Reykjavík um 4,5 aura lítrinn og mjög svipað í nágrenninu, en lækka úti á landi um 2,5 aura frá benzíngeymum, en 6,5 aura frá benzíndælum. Gasolía mundi hins vegar hækka í Reykjavík um 3 aura lítrinn og 2 aura annars staðar við Faxaflóa, en lækka tiltölulega minna annars staðar á landinu. brennsluolían mundi hækka hér í Reykjavík og nágrenni um 48 kr. tonnið, en lækka annars staðar á landinu sennilega um 52 kr. tonnið. Sést af þessu, að hér er um mjög verulegar upphæðir að ræða, mikla hækkun á benzíni og olíum í Reykjavík og í kringum Faxaflóa, en tilsvarandi lækkun annars staðar á landinu.

Meðan þetta frv. var til meðferðar í Nd., þá var það sent til umsagnar til Landssambands íslenzkra útvegsmanna og til allra olíufélaganna, og hafa þessir aðilar látið Alþ. í té mjög ýtarlegar og greinargóðar umsagnir um frv.

L. Í. Ú. hefur hvað eftir annað haft tækifæri til þess að taka til athugunar innan sinna vébanda, hvort rétt væri að koma á verðjöfnun á olíum. Málið hefur hvað eftir annað verið tekið fyrir á aðalfundum Landssambandsins, og það hefur jafnan komið í ljós, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, sem á aðalfundunum hafa verið mættir, hefur verið algerlega andvígur verðjöfnuninni. En til þess að ganga úr skugga um, hvort fyrir væri nokkur almennur áhugi utan Reykjavíkur og Faxaflóa fyrir verðjöfnuninni, þá hefur Landssambandið horfið að því ráði að senda öllum meðlimum Landssambandsins fyrirspurn um það, hvort meðlimirnir óskuðu eftir eða legðu áherzlu á, að komið væri á verðjöfnun. Þessi skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að innan Landssambandsins er sáralítill áhugi fyrir slíkri ráðstöfun. Það var aðeins einn af meðlimum Landssambandsins, sem mælti með þessu, það var Félag útvegsmanna á Ísafirði, en meðmæli bárust ekki frá öðrum, og létu menn erindinu yfirleitt ósvarað. Hins vegar komu fram mótmæli frá fjölmennustu samtökum útvegsmanna, en það er í Reykjavík og hér við Faxaflóa.

Það er af þessari meðferð útvegsmanna um land allt á málinu alveg ljóst, að innan þeirra samtaka er ekki til að dreifa neinum verulegum áhuga um framgang málsins. Það má telja alveg víst, að ef útvegsmenn hefðu haft áhuga á að koma þessari verðjöfnun á, þá mundu þeir hafa látið þá skoðun í ljós, þegar Landssambandið leitaði eftir umsögn þeirra.

Í umsögn þeirri, sem frá L. Í. Ú. kom til hv. Nd. út af þessu máli, eru færð fram ýmis skilmerkileg rök á móti frv., og sé ég ekki ástæðu til að rekja umsagnirnar frekar hér.

Ég vil einnig benda á það, að olíufélögin öll, sem hafa látið umsögn í té um málið, virðast vera því mjög eindregið andvíg, og það er sérstaklega athyglisvert úr þeirra umsögn, að þau benda á, að verðjöfnun eins og sú, sem hér er lögð til, muni raunverulega leiða til almennrar hækkunar bæði á benzíni og olíu. Stafar þetta af því, að þegar sama verð væri komið á benzín og olíur um land allt, mundi mjög dregið úr áhuga manna fyrir því að taka þessa vöru þar, sem hún áður var ódýrust, og þar, sem flutningskostnaðurinn er minnstur. Eins og við vitum, þá hafa bæði eigendur bifreiða, sérstaklega langferðabifreiða, sem hafa fjöldamargar aðsetur hér í Reykjavík, og eins eigendur báta utan af landi, sem gjarnan koma hingað til bæjarins, lagt áherzlu á það, að bæði bifreiðarnar og bátarnir séu birgðir upp með benzín og olíur hér í höfuðstaðnum og hér við Faxaflóa, þar sem varan er ódýrust, til þess að spara sér annan flutningskostnað á þessum verðmætum til sinna heimastaða. En ef sama verð væri orðið um allt land á olíum og benzíni, þá er alveg gefið, eins og olíufélögin benda alveg réttilega á, að áhugi þeirra, sem gera bátana og bifreiðarnar út, væri orðinn mjög veiktur fyrir því að taka benzínið hér, og hætt við því, að menn létu sig þá einu gilda, þó að þeir tækju ekki meira af þessum birgðum hér, en þeir þurfa til að komast til sinna heimkynna eða næsta aðaláætlunarstaðar, en tækju svo þar það, sem þeir þyrftu frekar á að halda. Olíufélögin gera skilmerkilega grein fyrir þessu atriði, og hygg ég, að ekki verði með rökum fram hjá því gengið.

Af umsögnum þessara aðila, Landssambandsins og olíufélaganna, verður því ekki dregin önnur niðurstaða en sú, að þetta mál sé til óþurftar og eigi ekki rétt á að ná fram að ganga, og þess ber vel að gæta, að hér liggja fyrir umsagnir þeirra aðila, sem mest kynni og mesta þekkingu hafa á meðferð þessara mála og mest eiga við þau að búa.

Ég vil líka leyfa mér að henda á, eins og fram kemur í nál. okkar í 3. minni hl. allshn., að þetta frv. verður ekki afgreitt án þess, að hafðir séu í huga þeir atburðir, sem gerðast í sambandi við lausn vinnudeilunnar í s. l desembermánuði.

Eins og hv. dm. er kunnugt, þá gerðu verkalýðsfélögin almennar kröfur til kauphækkunar í þeirri vinnudeilu. Að því ráði var horfið til lausnar vinnudeilunni að hækka ekki kaupið, heldur gera ráðstafanir til þess að færa niður vöruverðið, lækka framfærslukostnaðinn, reyna að koma vísitölunni niður og auka kaupmátt peninganna, þannig að menn fengju meira fyrir sín laun, en þeir fengu áður. Í því skyni að koma þessu til leiðar beitti hæstv. ríkisstj. sér fyrir ýmsum veigamiklum aðgerðum. Einn liður í því var sá, að ríkisstj. beitti sér fyrir og lofaði að tryggja 4 aura lækkun á hverjum lítra af olíu og ef ég man rétt sömu lækkun á hverjum lítra af benzíni.

Ef þetta frv. yrði samþykkt núna, er alveg gefið mál, að í stað þess, að benzín og olíur lækkuðu hér í Reykjavík og nágrenni, eins og þau eiga að gera samkvæmt því loforði, sem var gefið til lausnar á vinnudeilunni, þá mundi a. m. k. ekki vera um neina lækkun að ræða, heldur miklu frekar jafnvel hækkun. Það var alveg tvímælalaust ákvörðunarástæða hjá mörgum, sem að lausn vinnudeilunnar stóðu, að sú verðlækkun, sem þarna var lofað á benzíni og olíu, fengist. Það er áreiðanlegt, að það var ákvörðunarástæða hjá mörgum, þegar þeir tóku afstöðu með eða móti því tilboði, sem fyrir lá um lausn vinnudeilunnar. Það eru hér t. d. í Reykjavík og við Faxaflóa ótal atvinnufyrirtæki, frystihús og fiskiðjuver og verksmiðjur, sem þurfa mikið að nota olíur og benzín, og það er ekki nokkur vafi á því, að þeim atvinnurekendum, sem með þessi fyrirtæki fara, hefur verið mjög þýðingarmikið atriði í lausn vinnudeilunnar, þegar þeir tóku afstöðu til miðlunartillögunnar, að þeim var þarna lofað lækkun á tilkostnaði í þeirra rekstri.

Nákvæmlega sama er að segja um verkafólkið og allan almenning. Það er fjöldi húsa t. d. hér í Reykjavík, sem er upphitaður með olíu, og hér er mikill fjöldi manna, sem þurfa á benzíni að halda, og það er ekki nokkur vafi á því, að sú lækkun, sem þessu fólki var lofað á benzíninu og þar með á framfærslukostnaði og vísitölu, hefur verið þessum aðilum ákvörðunarástæða, þegar þeir tóku afstöðu til miðlunartillögunnar í s. l. desembermánuði.

Það eru því hrein brigðmæli á því loforði og því fyrirheiti, sem þessum aðilum var gefið, ef þetta frv. hér á að ná fram að ganga, og ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. d. á því, að það eru ekki nema rétt nokkur augnablik síðan d. var að vísa hér frá sér till., sem hún gjarnan hefði viljað samþykkja efnislega, en hún vísaði till. frá sér vegna þess, að samþykkt tillagnanna hefði verið í ósamræmi við það samkomulag, sem lausn vinnudeilunnar byggðist á. Samþykkt þessa frv. hér mundi vera í algeru ósamræmi við það, sem d. var að enda við að gera núna fyrir nokkrum augnablikum í sambandi við almannatryggingalögin.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að í þeim grundvallarútreikningum, sem ríkisstj., L. Í. Ú. og frystihúsaeigendur hafa byggt á, þegar þessir aðilar hafa verið að semja með sér um fiskverðið og ráðstafanir til að tryggja rekstrarafkomu bátanna, er byggt á alveg ákveðnu verði á benzíni og olíu, og allir þeir reikningar og öll sú verðlagning, sem á sér stað í sambandi við þá hluti, byggist á þessu ákveðna verði, en það er það verð, sem nú gildir á þessum vörum. Sú hækkun, sem af þessu frv. leiðir, er alls ekki tekin þar með í reikninginn, en frv. mundi mjög verulega hækka tilkostnað útgerðarinnar, og væri alveg óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess að mæta þeim hækkunum, ef þetta frv. ætti að ná fram að ganga.

Ég vil líka leyfa mér að benda á það, að almennt er bæði bátaflotinn og togararnir hér í Reykjavík og við Faxaflóa gersamlega óviðbúnir því að taka á sig þá verðhækkun, sem hér mundi í sambandi við samþykkt þessa frv. verða á olíunni. Afkoma þessara útgerðarfyrirtækja er þannig, að endarnir nást ekki saman eins og er, og mundi horfa til enn meiri ófarnaðar, ef farið væri að hækka rekstrarútgjöldin á þessum lið.

Ég vil líka vekja alveg sérstaka athygli á því, að ef farið væri að taka upp eitt verð fyrir land allt á olíu og benzíni, þá er ekki nokkur vafi á því og ekki hægt með neinni sanngirni að andmæla því, að fleira mundi á eftir koma, enda tók sá frsm., sem hér talaði fyrstur, það fram, að því er mér skildist, að hann teldi, að þetta jöfnunarverð, sem hér væri talað um, væri aðeins byrjunin á öðru fleira, sem á eftir skyldi koma. Hann minntist í því sambandi á jöfnunarverð á rafmagni fyrir allt landið, en ég spyr: Hvers vegna koma þá ekki kolin á eftir? Hvers vegna ekki matvaran? Og svo mætti lengi telja. Og hvers vegna þá ekki að koma jöfnunarverði á húsaleigu um land allt? Hér er verið að fara inn á braut, sem ómögulegt er að gera sér grein fyrir, hvar mundi enda, og það er ekki með nokkrum rökum hægt að andmæla því, að jöfnunarverð eigi yfirleitt að koma á flesta eða alla hluti, ef byrjað verður á olíum og benzíni. Ég get t. d. ekki séð, að það sé hægt að neita því, eftir að þetta frv. væri samþykkt, ef Reykvíkingar færu að heimta jöfnunarverð á húsaleigu um land allt. Mér er ekki skiljanlegt, hvernig ætti að andmæla slíku, eftir að búið væri að byrja á því að koma á jöfnunarverði á olíu og benzíni.

Ég skal þá að lokum aðeins minnast á það, sem kom fram hjá þeim hv. frsm., sem talaði næstur á undan mér. Hann hefur lagt til, að þrátt fyrir þessa verðjöfnun verði benzín og olíur hvergi látið hækka frá því, sem nú er, heldur verði olíufélögin og ríkissjóður látin bera hallann, og hann minntist á það, að í nál. okkar 3. minni hl. n. minnumst við á það að nauðsynlegt sé að halda verði á olíu og benzíni niðri og það geti jafnvel verið nauðsynlegt, að ríkissjóður þurfi að koma til og hjálpa þeim, sem í mestu örðugleikunum eiga.

Ég verð að segja það, að það hefði verið mjög æskilegt, að það hefði verið hægt að samþykkja þessar till., sem 2. minni hl. bar fram, en eins og hann benti alveg réttilega á, þá gafst allsherjarnefnd mjög naumur tími til að athuga þetta mál. Það var rekið svo mjög á eftir afgreiðslu þess út úr n., að það fékk hvergi nærri fullnægjandi athugun hjá okkur. Til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirra till., sem hv. 2. minni hl. n. leggur hér fram, þarf maður að fá ýtarlegar upplýsingar um það, hvaða fjárhæðir er hér um að ræða og hvaða bagga er hér verið að binda því opinbera, ef till. hans á að samþykkja. En eins og málið liggur fyrir núna, þá vantar allar upplýsingar, til þess að hægt sé að afgreiða það á þann veg, a. m. k. á þessu stigi málsins. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti ekki séð mér fært að ganga lengra, en að reyna að afstýra því, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, nái fram að ganga, hvaða ráðstafanir sem nauðsynlegt kann að vera að gera síðar, þegar fyllri upplýsingar liggja fyrir.