31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem komu fram í ræðum þeirra, sem talað hafa síðan ég talaði seinast, sem ég sé ástæðu til þess að víkja að nokkrum orðum.

Það kom fram hjá hv. 1. þm. N-M., að hann teldi, að lausn sú, sem fékkst á vinnudeilunni í desember s. l., skipti ekki neinu máli í sambandi við afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur fyrir. Þessa missögn hjá hv. þm. vil ég aðeins leiðrétta með nokkrum orðum.

Í tilboði því, sem hæstv. ríkisstj. átti sinn þátt í að sáttanefndin lagði fram á sínum tíma til lausnar á vinnudeilunni, segir svo berum orðum, ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, aðeins lesa það upp hér: „Ríkisstj. hefur í samræmi við till. sínar varðandi lausn núverandi kjaradeilu verkamanna og vinnuveitenda, er birtar voru 16. þ. m., ákveðið, að eftirfarandi ráðstafanir skuli koma til framkvæmda, ef siðargreind miðlunartill. verður samþ. og aflétt verður verkföllum þeim, sem nú eru háð .... f. Verð á brennsluolíu lækki um 4 aura á lítra. — Þessar verðlækkanir ásamt lækkun kolaverðs og fleira valda lækkun vísitölu um 5.18 stig, miðað við vísitölu nóvembermánaðar s. l. — II. Verð á benzíni lækkar um 4 aura á lítra.“

Í niðurlagi till. segir svo, að ef að þessu samkomulagi verði gengið, þá skuli það gilda til 1. júní 1953 og sé eftir það uppsegjanlegt með eins mánaðar fyrirvara.

Það er þess vegna alveg greinilegt, að í miðlunartill. þeirri, sem sáttan. lagði fram á sínum tíma, er því lofað og ríkisstj. heitir að beita sér fyrir því, að verð á benzíni og olíum skuli lækka um 4 aura á lítra.

Þegar deiluaðilar tóku afstöðu til miðlunartill., þá var það m. a. að sjálfsögðu á grundvelli þessa atriðis. Það var ákvörðunarástæða fyrir deiluaðila, þegar þeir sögðu já eða nei við miðlunartill., að þeim hafði verið boðið upp á þessa verðlækkun á benzíni og olíu.

Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá er það alveg ljóst, að sú lækkun, sem þarna er heitið, fæst ekki og það er komið í veg fyrir þá lækkun með aðgerðum frá hv. Alþ., sem almenningur hefur haft ástæðu til að ætla að hæstv. ríkisstj. hefði að baki sér, a. m. k. að meiri hluta til, þegar tilboðið var gert.

Það verður því ekki um það deilt, að samþykkt þessa frv. og sú hækkun, sem af því leiðir á verði á olíu og benzíni, er bein vanefnd á því samkomulagi, sem gert var til lausnar vinnudeilunni.

Afleiðing slíkra vanefnda er ákaflega augljós: Í fyrsta lagi geta samningsaðilar hvenær sem er lýst því yfir, að samkomulagið í vinnudeilunni sé úr gildi fallið, vegna þess að það hafi verið vanefnt af þeim þriðja aðila, sem þar gerðist meðalgöngumaður og ber að verulegu leyti ábyrgð á því. Fyrsta afleiðingin er því sem sagt sú, að það er hægt að segja samkomulaginu upp og lýsa það úr gildi fallið fyrirvaralaust. Á þessu er enginn vafi.

Næst á eftir þessu kemur svo það, að mér virðist liggja alveg beint við, ef frv. verður samþ., með þeim verðbreytingum, sem verða á olíu og benzíni, að þá fari ekki hjá því, að þeir, sem verða að kaupa þessa vöru með hinu hærra verði, eigi endurkröfurétt á ríkissjóð fyrir verðmuninn, og mundi þá ríkissjóður með þeim hætti fá á sig mjög verulegar skaðabætur, auk þess sem slík meðferð á málinu mundi áreiðanlega um alla framtíð verða mjög til að draga úr því trausti, sem deiluaðilar í vinnudeilum verða að bera til þeirrar ríkisstj. á hverjum tíma, sem kemur fram með till. til lausnar vinnudeilum. Slíkt er að sjálfsögðu mjög alvarlegur og þýðingarmikill hlutur.

Ég fyrir mitt leyti vil því leitast við að gera tilraun til, að hægt verði að komast fram hjá þessum annmörkum, með því að bera hér fram till. um það, að aftan við frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi :

„Á meðan í gildi eru kaup- og kjarasamningar þeir, sem byggjast á miðlunartillögu sáttanefndar í vinnudeilum, frá 19. des. 1952, skal verð á olíu og benzíni ekki hækka vegna framkvæmda þessara laga. Jafnframt frestast um sama tíma innheimta verðjöfnunargjalds. Allur kostnaður vegna framkvæmda laganna greiðist úr ríkissjóði, þar til verðjöfnunargjaldið verður innheimt.“

Þessa till. vil ég leyfa mér að leggja hér fram og óska eftir því, að hún komi til atkvæða með frv.