03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, ef ég hef orðið til að tefja fundinn, sem ég ætlaði mér ekki, — ég þurfti að láta hreinrita brtt., sem ég var með í þessu mikla máli.

Ég hef bent á það áður, að þetta frv. eins og það liggur fyrir, að ákaflega þýðingarmikið mál, það er hluti af mjög víðtækum ráðstöfunum, sem verður að gera allar í heild, ef þær eiga ekki að verða fullkomið ranglæti. Ég hef einnig sýnt fram á það, að þó að hér væri aðeins tekinn lítill hluti af þessu þýðingarmikla máli, þá er það gert með þeim hætti, að því hlýtur að verða samfara ákaflega mikil skriffinnska og nýtt skrifstofubákn, sem ég hef haldið fram, án þess að hægt væri að hrekja, að væri helzt jafnandi til skömmtunarskrifstofunnar sælu, þannig að menn eru hér að ráðast í mikinn kostnað án þess að hafa athugað til hlítar, hvað fæst í aðra hönd. Sérstaklega geri ég ráð fyrir, að það hljóti að vera ákaflega umfangsmikið og erfitt í framkvæmd, ef í raun og veru á að hafa verðjöfnun á hverjum einasta benzíntank á landinu. Það er gefinn hlutur, að það hlýtur að kosta ákaflega misjafnt að koma benzíninu á hverja einustu afgreiðslustöð, og ef þetta á að reiknast út og jafnast til hlítar, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þá skilst mér, að það sé í raun og veru óvinnandi verk, ef það á að gera með samvizkusemi og án þess að handahóf og tilviljun ráði. Hins vegar er því haldið fram af útvegsmönnum, að það sé mjög mikilsvert fyrir þá að fá þetta frv. samþ. nú, vegna þess að verð á fiski sé jafnt hvar sem er á landinu, en útgerðarkostnaður misjafn, eins og komi fram í því, að þeir verði að borga hærra verð á olíum úti um land heldur en hér sé borgað. Ég hef að vísu sýnt fram á, að þetta er ekki rétt nema að litlu leyti, vegna þess að t. d. kaupgjald er hærra hér í Reykjavík, en víðast hvar úti um land, einmitt á bátunum, en til viðbótar kemur það, að það er vitað, að kostnaður af húsum og mannvirkjum, sem þarf til útgerðarinnar, er ákaflega misjafn. Nú finnst mér þó sök sér að taka þetta mál á þann veg, að þetta geti orðið útvegsmönnum að gagni, en athuga hina hlið málsins varðandi verðjöfnun á benzíni betur til næsta þings og sjá, hvort hægt er að finna einhverja heppilegri lausn á því máli. Ég flyt því hér brtt. um það, að þetta frv. eigi einungis við um gasolíu og brennsluolíu af því, sem upphaflega var tekið til í frv., og að frv. verði breytt til samræmis við það. Ég legg til, með leyfi hæstv. forseta, að 1. gr. orðist svo:

„Söluverð á gasolíu og brennsluolíu skal vera hið sama á öllum stöðum á landinu, þar sem tankskip geta landað olíunni í birgðageyma. Enn fremur skal það verð gilda fyrir fiskiskip í þeim verstöðvum, sem hafa ekki enn aðstöðu til að taka á móti olíu úr tankskipi.“

Öðrum greinum frv. verði svo breytt til samræmis við þetta, þannig að 3 af brtt. mínum og raunar 4, ef fyrirsögn er talin með, eru bein afleiðing af þessari fyrstu brtt. En til viðbótar legg ég svo til, að 5. gr. orðist eins og segir, ef ég má lesa þetta upp, með leyfi hæstv. forseta:

.,Ríkisstjórnin skal tafarlaust láta rannsaka kostnað útvegsmanna í öllum verstöðvum landsins vegna nota þeirra af húsum og öðrum mannvirkjum í þágu útgerðarinnar. Ef það sannast, að kostnaður þessi sé ójafn að tiltölu, skal viðskmrn. setja ákvæði um jöfnun hans, og skulu þau byggð á sömu meginreglum og settar eru í 1.–4. gr. laga þessara.“

Ég legg sem sagt til, að það sé haldið lengra áfram á þeirri braut, sem frv. gerir ráð fyrir, að það sé ekki látið staðar numið varðandi olíuna eina, heldur tekinn inn í til jöfnunar einnig sá kostnaður, sem menn hafa vegna afnota af húsum og öðrum mannvirkjum og þá sé settur upp sams konar verðjöfnunarsjóður í þessum efnum eins og ætlunin er að setja upp varðandi olíuna. Ég játa, að það væri eðlilegt að taka hér inn ýmsa fleiri liði, eins og mannakaup og ýmiss konar aðrar nauðsynjar, en sökum þess, að þetta frv. er rekið hér áfram með óvenjulegri og óskiljanlegri hörku á síðustu dögum þingsins, þá hefur mér ekki unnizt tími til þess að gera brtt. eins víðtækar og ég hefði talið þörf á. En ég vil þó telja eðlilegt, að þar sem hér eru komnar veigamiklar brtt. fram, þá gefist mönnum nokkurt færi á að athuga það, og mundi leggja til, að hv. n. tæki málið enn til íhugunar um það, hvort henni sýnist ekki greinilegt, að þessar breyt. séu til bóta, eða færi þá rök á móti þeim, ef henni sýnist ástæða til þess, og ef til vill, ef þessar brtt. eru ekki taldar ganga nógu langt, þá verði fleiri atriði tekin inn í þetta frv. En að taka aðeins eitt atriði, eins og gert er í frv. upphaflega, leiðir til slíks ójafnaðar og ranglætis, að hv. Alþ. getur ekki verið þekkt fyrir slíka afgreiðslu á jafn veigamiklu máli.

Út af þeirri furðulegu brtt., sem nokkrir stuðningsmenn frv. hafa komið fram með, get ég ekki sagt annað en það, að hún er ákaflega merkileg frá sjónarmiði stuðningsmannanna. Auðvitað getur það legið nærri, að við, sem erum frv. andvígir, getum verið þeirri brtt. sammála, að frv. nái fram að ganga sem allra síðast, og þess vegna hef ég sizt á móti því að samþ. það, að frv. gangi ekki í gildi fyrr en 1. ágúst 1953, jafnvel þótt ekki væri fyrr en 1. ágúst 1957, ef í það færi. Ég get ákaflega vel fellt mig við slíkar brtt. En varðandi meginhugsunina að tengja þetta við bráðabirgðaákvæðið og halda, að það leysi eitthvað þann vanda, sem leystur er með bráðabirgðaákvæðinu, þá er það auðvitað alger misskilningur. Með brtt., eins og hún er flutt af hv. flm. hennar nú, er beinlínis verið að ýta undir það, að vinnuófriður hefjist hér aftur í landinu. Þeir eru að hvetja til þess, að samningunum, sem náðust með svo miklum erfiðleikum nú rétt fyrir jól, verði sagt upp í vor, vegna þess að þetta nýja ranglæti eigi að koma til og umturna þeim ráðagerðum, sem samningarnir hvíldu á. Og ég verð að segja, að jafnvel þó að þessum mönnum þyki mikið um það vert að geta skattlagt Reykvíkinga og íbúa kringum Faxaflóa sínum umbjóðendum til hags, þá ofbýður mér sú ákefð að vilja vinna það til að ýta undir það, að hér hefjist á ný slíkt vinnustríð, slík allsherjar ógæfa fyrir þjóðfélagið eins og tókst að afstýra með samkomulaginu, sem gert var rétt fyrir jólin. En þeirra tillaga miðar einmitt að slíkum aðförum. Þess vegna get ég ekki annað en látið uppi mjög megna undrun mína yfir því, að slík till. skuli yfirleitt geta fæðzt í hugum manna, hvað þá heldur að svo mætir menn skuli leggja nafn sitt við að flytja hana. En eins og ég segi, ég vil leggja þessar brtt. hér fram og mundi verða mjög ásáttur með það, að hv. n. vildi taka þær til íhugunar, þannig að betri tími gæfist fyrir d. til að skoða málið í ljósi þeirra nýju till., bæði frá hv. þremenningum og mér, sem nú eru komnar fram.