03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi nú benda hæstv. dómsmrh. á það, að ég hef allt aðra skoðun á, hvernig eigi að framkvæma þessa dreifingu, heldur en hann. Þrátt fyrir þau skýru ákvæði í frv., að hæstv. ráðh. eigi að setja um þetta reglugerð, þá skilst honum, að frv. fyrirskipi honum alveg tvímælalaust að setja hér upp stórkostlegt skrifstofubákn og ég held helzt sjálfum að láta flytja þetta hingað og þangað um landið. Ég veit nú, að hæstv. ráðh. meinar ekki þetta.

Flutningurinn á þessari vöru hefur verið framkvæmdur af olíufélögunum sjálfum, að undanteknu því, sem Skipaútgerð ríkisins hefur tekið að sér, og það ætlast víst enginn til, að það sé keypt frá þeim aðilum að flytja olíu út um landið. Það eina, sem kemur þá hér til greina, er, að hæstv. ráðh. verður að meta það, hvort sú hækkun, sem þessir aðilar krefjast til þess að flytja olíuna út um landið, sé óeðileg eða ekki. Það er allt og sumt. Nú hef ég margsinnis bent á það og vil biðja hæstv. ráðh. og aðra hv. þm. að athuga það, að eins og nú hefur verið þessum málum skipað s. l. ár, þá hefur ríkisstj. haft nokkurn hluta af þessum fiutningi og þannig tekið stórkostlegt fé óleyfilega — beinlínis óleyfilega, með sérstakri óleyfilegri skattaálagningu, af þessum aðilum, og við það hefur hæstv. dómsmrh. ekkert haft að athuga. Við höfum hins vegar hvað eftir annað reynt að gera tilraun til þess að vekja á þessu athygli og hvað eftir annað verið bornar fram þáltill. um það hér í hv. Alþ. að laga þetta ranglæti, en það finnst einmitt hæstv. ríkisstj. ekkert athugavert við, þó að henni finnist nú athugavert við það, ef á með sérstökum lögum að ákveða jöfnunarverð á olíu um allt land. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj.: Vill hún beita sér fyrir því, að ríkissjóður endurgreiði þennan ólöglega skatt? — Það verður ekki komizt hjá því að viðurkenna það, að þessi skattur er fullkomlega óleyfilega tekinn, og mér er kunnugt um, að þessi skattur hefur verið á aðra milljón kr. á hverju ári, síðan skipið fyrst byrjaði að flytja olíu, og það hefur verið varið með því, að olíufélögin sjálf hafa ekki einasta miklu hærri flutningsgjöld, heldur einnig píni þau Skipaútgerðina, eins og þeir orða það, til þess að vera niðri á þessu flutningsgjaldi, sem þó gefur á aðra milljón kr. á hverju ári í ríkissjóð, sem er algerlega ranglega tekin af þessu fólki.

Ég vildi líka gjarnan heyra, hvort það virkilega vakir fyrir hæstv. dómsmrh., — því ef það væri svo, þá þykir mér vera merkileg nýjung á ferðinni, — að vinna að því að koma á ýmsu jafnaðarverði um allt land, svo framarlega sem olían væri tekin og þetta frv. nær fram að ganga. Ég er tilbúinn til þess að tala við hann um það, hvort hann t. d. vildi styðja að því að jafna fjárfestingar, sem hafa verið gerðar hér undanfarin ár, þannig að útkjálkahéruðin fengju sinn hluta. Ég vildi gjarnan vera með í því. Annaðhvort yrði þá stöðvað fyrst um sinn, sem ég óska nú ekki eftir, að hrúga tugum og hundruðum milljóna í ákveðin fyrirtæki hér í þéttbýlinu, eða þá að það yrði að ráðstafa mörgum tugum milljóna til þeirra staða, sem hafa orðið að líða — ekki fyrir það, að margbýlið hafi ekki átt nógu marga menn á þingi, heldur fyrir það, að í þessu hafa þm. utan af landinu sýnt fulla sanngirni við þá, sem búa hér í þéttbýlinu, en nú má ekki sýna dreifbýlinu af þessum sömu mönnum, sem áður hafa fengið stórkostleg fríðindi fram yfir hina aðilana. Við skulum svo bara athuga framlög til hinna verklegu framkvæmda. Jafnvel þó að séð sé eftir hverri krónu, sem fer í vegarspotta, brúargerðir og síma, sem er eins mikið notað af þeim mönnum, sem hér búa, eins og hinum, sem úti á landinu eru, og er í beggja þágu, þá er samt sem áður sífellt verið að telja þetta eftir, og þó er það svo, og það er mér fullkunnugt um, að a. m. k. miklu meira en heimingurinn af öllu því fé, sem varið er til vegaviðhalds hér í landinu, fer einmitt í þessi sömu héruð, sem fá öll önnur gæði veraldarinnar frá hv. Alþ. Þarf ekki annað en að minnast á veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem kostar á aðra millj. kr. í viðhaldi á hverju ári, og þætti góður skildingur, ef það mætti fara í eitthvert útkjálkahérað, annaðhvort til viðhalds eða til endurbygginga á vegum. Það er því alveg rangt, að það sé á þessu eina sviði, sem menn utan af landinu eru beittir órétti, það er svo að segja á hverju einu og einasta sviði, sem rekið er hér í Alþ., þegar þau mál eru skoðuð niður í kjölinn, og það er þó ekki einskis vert, að úti á landsbyggðinni þrauki enn þá fólk til þess að halda þeim hlutum landsins í byggð. Hvað sem líður góðrí afkomu hér í kaupstöðunum, sem raunverulega hefur nú alltaf verið hlaðið undir frá hv. Alþ. og ríkissjóði, þá er það ekki alveg einskis vert, að enn þá fáist menn til þess að berjast hinni góðu baráttu í hinum erfiðu héruðum, og það yrði allt annar svipur á landi og þjóð, ef allt fólkið væri komið hingað til Reykjavíkur eða við Faxaflóa. Það mundi þá sjást fljótt á, að íslenzka þjóðin yrði öll önnur, og það er ekkert lítið atriði í þessu máli.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál nánar og ekki svara öðru, sem fram kann að koma, nema sérstakt tilefni gefist til.