03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 1. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar ég var að þæfa í gamla daga og reyndar líka í nýja daga, — því að ég þæfði seinast rétt fyrir jólin vettlinga og sokka, — þá leiddist mér það ævinlega, og þegar Gunnar tónari kom heim í Viðvík til að þæfa vaðmálið, sem var búið að vefa á veturna, og stóð í skotinu fyrir aftan rúmið, þá þótti mér leiðinlegt að horfa á hann og leiðinlegt að sjá hann vinna. Og þetta gildir um þóf enn. Mér hefur alltaf leiðzt það og aldrei þótt ánægja af að taka þátt í því að hlusta á það.

En ég vil nú minna á það, að á Alþ. 28. febr. 1950 var samþ. hér till. um verðjöfnun á olíu og benzíni. Ég vil minna á það, að viðskmrh. sagðist þá vilja athuga málið. Í því var ekki gert neitt, að menn vissu, og þess vegna var spurzt fyrir um það aftur á Alþ. 24. okt. 1951, hvað hefði gerzt í málinu. Þá spurði hv. þm. Snæf., hvað hefði gerzt í málinu, en hann hafði verið flytjandi að þáltill. á þinginu áður. Þá skýrði viðskmrh. frá því, að hann hefði lagt fyrir fjárhagsráð að athuga málið, og nú skuluð þið taka eftir, hvað bókað er hjá honum, þá getið þið bæði séð, hvað hann hefur sagt, ef rétt er bókað, og þá kannske líka, hvað góðir skrifarar náðu að bóka. Hann segir: „Það er áætlað, að verði verðjöfnunin framkvæmd, mundi verðið hækka í Reykjavík á benzíni um 3.7 aura tonnið, hráolíu um 2.9 aura tonnið, en á steinolíu um 52.3 aura tonnið.“ Þetta var hækkunin í Reykjavík. Þessar tölur eru miðaðar við síðustu endurskoðun fjárhagsráðs á upplýsingunum þar um kring. Þetta var undirbúningurinn, sem málið fékk hjá hæstv. ráðh., og þetta voru upplýsingarnar, sem hann gaf Alþ., — eftir því sem skrifararnir segja og að því er hann hefur látið standa, rétt eins og viðurkennt væri. Ekki hefur hann leiðrétt það enn. Þetta eru nú öll ósköpin, segir ráðh. Það eru hans orð, sem segja þetta. — Þegar hann nú var búinn að svara þessari fyrirspurn og ekkert kom enn fram í málinu að gagni, þá var lögð fram á ný 12. nóv. 1951 till. um verðjöfnun á benzíni og olíu, og þá taldi ráðh., að hann mundi geta framkvæmt þetta. Svo þegar hann fór að rannsaka málið nánar, þá sá hann, að það var ekki hægt, og sá ekki ástæðu til þess að gefa úr bráðabirgðalög um það, og ég skal ekkert lá honum það, en ég lái honum hins vegar hitt, að telja fyrst, að það væri hægt að framkvæma þessa þáltill., og upplýsa síðar, að það væri ekki hægt. Hann hefði átt að láta rannsaka málið, áður en hann gaf þær upplýsingar til að byrja með.

Nú er því borið við, að það sé ekki hægt að framkvæma verðjöfnunina vegna þess, að það sé brot á þeim samningum, sem gerðir voru rétt fyrir jólin vegna verkfallsins, þá hafi ríkisstj. lofað því að lækka verð á olíu og benzíni, og ef nú sé sett á verðjöfnun, sem komi til að hækka það sums staðar og lækka það annars staðar, þá sé það brot á samningunum. Nú hef ég leitað eftir því hér, og hæstv. dómsmrh., sem hefur talað hér oft í málinu, hefur aldrei tekið undir þetta, að það væri brot á samningunum. Hann hefur látið aðra halda því fram, en aldrei tekið undir það, og það liggur ekkert fyrir frá ríkisstj., að um þetta hafi verið talað. Þó liggur fyrir, þegar verið er að gera samningana, að tvisvar sinnum hafa á Alþ. af yfir 30 mönnum verið greidd atkv. — með samhljóða atkv., af yfir 30 mönnum í hvert skipti — með verðjöfnuninni, og hér var þá komið fram í Alþ. frv. til l. um verðjöfnun, svo að hver maður, sem ekki er blindur fyrir því, sem var að gerast, mátti vita, að það frv. hefði fylgi hér á Alþ. Ef þess vegna þeir menn, sem stóðu að samningunum, hafa álitið, að hér væri eitthvað, sem væri öðruvísi, en þeir vildu vera láta, þá var náttúrlega sjálfsagður hlutur fyrir þá að athuga það mál um leið. Það lá alveg opið fyrir, og ég trúi því nú ekki, að það hafi verið þeir græningjar, allir þeir menn fyrir verkalýðinn, sem að málinu unnu, að þeir hafi ekki haft opin augu fyrir því, sem lá beint fram undan. Ég trúi því ekki. En svo er mér það ekki heldur alveg ljóst, fyrir hverja mennirnir sömdu. Sömdu þeir fyrir einstök félög hér við Faxaflóa, þar sem olíuverð er hækkað? Eða sömdu þeir fyrir önnur félög úti um land, þar sem olíuverð er lækkað? Voru þeir ekki aðilar fyrir þau öll 36, eða hvað þau voru nú mörg félögin, sem í verkfallinu voru, hvar sem þau voru á landinu? Ég hélt, að það hefði verið fyrir þau öll, og ég hélt þess vegna, að þó að jafnaðarverð komist á olíuna og þegar búið er að lækka hana um 4 aura áður, þá sé áframhaldandi 4 aura lækkun á olíunni í landinu í heild, svo að það raski ekki á neinn hátt samningunum, enda hefur því ekki verið haldið fram af þeim, sem að þeim stóðu hér, eins og ég áðan benti á, þar sem hæstv. dómsmrh. er einn í ríkisstj. og stóð þess vegna líka að samningunum og hefur talað oft í málinu og þæft og ekki séð ástæðu til að láta koma neitt sérstakt þykkildi á málþófið hvað þetta snertir í sinni meðferð á málinu. — Ég sé nú þess vegna ekki, að það sé nein sérstök þörf á því að taka tillit til þessa, en þó lýsti ég því yfir í gær, þegar gengið var til atkvæða um bráðabirgðabrtt., að það mætti auðveldlega komast fram hjá þessu atriði með því að setja inn í lögin ákvæði um, að verðjöfnunin kæmi ekki til framkvæmda, fyrr en eftir að samningarnir væru útrunnir, sem er í júnímánuði, og nú er komin fram brtt. um það, og þá raskar það ekki á neinn hátt samningunum. Það var auðgert að gera það, eins og ég sagði hæstv. dómsmrh. þarna inni í hinu svo kallaða „ráðherraherbergi“, þegar fyrst till. kom fram hér hjá hv. 6. landsk. þm.

Ráðh. gerði mikið úr því skrifstofubákni, sem mundi þurfa að verða þessu samhliða. Ég held nú, að það sé á miklum misskilningi byggt. Hann líkir því við skömmtunarskrifstofuna, sem hann þó sjálfur elskar svo mikið, að hann hefur ekki séð ástæðu til að nema hana úr gildi enn og hefur haft hana með miklum mannskap til að úthluta smjörlíkisskömmtunarseðlum, sem einn maður hefði óskaplega auðveldlega getað innt af hendi. Það er þess vegna mesti misskilningur, enda má framkvæma þetta verðjöfnunargjald ú ýmsa vegu, meira að segja eins og l. eru, og svo má náttúrlega gera það enn einfaldara en l. eru, því að það er hægt að láta félögin gera þetta sjálf með ósköp hægu móti. Nú sem stendur er dreifingin á olíunni í landinu ákaflega dýr og þó enn þá dýrari á benzíninu, því að það er varla nokkur sá staður, þar sem benzíngeymir er, að ekki standi 2 eða 3 hlið við hlið. Það hefur verið leikið sér að því að setja í þetta fjárfestingu af fjárhagsráði og hæstv. ríkisstj. með því að láta flytja víða um land kannske í 3 benzíngeyma hlið við hlið, sem náttúrlega er gersamlegur óþarfi. Ef það verður farið inn á að verðjafna það, þá mundi þetta hverfa, þá mundu ekki öll olíufélögin þurfa að senda benzín yfir 300 km fjarlægð frá Reykjavík, eins og þarf að senda það lengst, heldur mundi bara eitt þeirra gera það og ekki þurfa að láta hvern benzínvagninn elta annan til að fylla þá alla saman. Það er ekkert annað, en óþarfa sóun. Það er hægt að koma því fyrir alla vega, flutningunum og verðjöfnuninni, miklu hægar, og þarf áreiðanlega ekkert skrifstofubákn til að framkvæma það, ef rétt er á málunum haldið. En ef menn hins vegar elska skrifstofubákn og langar til að koma sem flestu fólki á skrifstofur, — og til þess virðist viss hneigð hjá hæstv. ríkisstj., sbr. skömmtunarskrifstofuna og reyndar fleira, — þá er náttúrlega hægt að búa til smugu til að hola þar inn einhverjum manni, sem langar til að sitja í hægu sæti og hafa lítið að gera, í stað þess að láta hann vinna að framleiðslunni í landinu. En af því að ég treysti nú allri ríkisstjórninni svona í meðallagi, þá styð ég þetta samt, og ég vona, að hún fari ekki inn á þá leið.

Því hefur verið haldið hér líka fram, að með því að samþ. till. um að breyta 6. gr. um gildistöku l., þá væru þeir, sem að því stæðu, að egna verkalýðsfélögin til að segja upp samningum fyrir 1. ágúst, áður en l. öðluðust gildi. Ef það væri rétt, þá eru það ekki við, sem flytjum fram brtt., heldur þeir, sem hafa haldið því fram hér í Alþ., að þetta væri brot á samningunum, sem ég tel á engan hátt vera. Það var samið fyrir alla, um allt land, sem áttu þátt í vinnudeilunni fyrir jólin, að olian eigi að lækka um 4 aura. Það er búið að lækka hana um 4 aura, og þó að jöfnunarverð sé sett á olíuna, svo að hún að meðaltali sé 4 aurum lægri um allt land frá því, sem hún var áður, þá er það ekkert brot á neinum samningum. Það hafði aldrei verið samið um það sérstaklega, að olían skyldi lækka á þessum stað. Það var samið fyrir eina heild, en ekki fyrir eitt verkalýðsfélag á einhverjum einum ákveðnum stað. Það er alger misskilningur, að svo sé, heldur er í raun og veru till. með 6. gr. óþörf, en það er þó rétt að samþ. hana samt, eins og málið er komið, svo að það sé ekki hægt að bera því við.

Hefði nú hæstv. ríkisstj. haft einhverja svolitla löngun til að láta rannsaka málið, þá var það henni óskaplega auðgert mál, a. m. k. hvað olíuna snertir, því að það er til hér í landinu Fiskifélag Íslands, sem semur árlega skýrslur um rekstur vélbátaútvegsins. Síðasta skýrsla, sem ég hef séð frá því, er frá 1919, og hún sundurliðar útgjöldin á bátana í beitu, ís, olíu, salt, akstur og aukavinnu, viðlegugjald og bjóðageymslu, hafnargjöld, veiðarfæri, hluti skipverja, tryggingu áhafnar, viðhald skipa, viðhald véla, tryggingu skipa, vexti af rekstrarlánum, útsvör og skatta, framkvæmdastjórn og bókhald, ýmsan kostnað, vexti af föstum lánum, fyrningu af skipi og fyrningu af vélum og miðar við þennan kostnað víðs vegar á landinu. Hefði ríkisstj. haft nokkra minnstu löngun til þess að rannsaka málið hvað olíuna snertir og hvernig hún skiptist í rekstri á hina ýmsu landshluta, þá var ósköp auðgert að biðja þessa skrifstofu að flokka bátana eftir stærð, þannig að bátar af sömu stærð væru í sama flokki. Nú hefur þetta verið flokkað þannig, að bátastærðin er svo misjöfn, að það er ekki hægt að sjá þetta út á skýrslunum eins og þær eru birtar. En henni var það í lófa lagið að láta haga þessari reikningsfærslu þannig lagað, að þetta hefði legið hér alveg fyrir. En í 2 ár hefur hún haft þetta mál til meðferðar og verið að rannsaka það, gefizt upp á því að koma verðjöfnuninni í framkvæmd og ekki látið rannsaka það meira en það, að viðskmrh. gefur þær upplýsingar, sem prentaðar eru eftir honum í þingtíðindunum og ég geri ráð fyrir að hver einasti maður sjái að eru vitleysa, hvort sem hann hefur fengið þær svona vitlausar hjá fjárhagsráði, gert þær svona vitlausar, þegar farið var með þær inn í þingið, eða skrifstofan hefur gert þær svona vitlausar, þegar hún skrifaði þær inn í Alþingistíðindin. Einhvers staðar að er vitleysan komin, því að það er áreiðanlega meira en fáeinum aurum á tonnið, sem hækkunin mundi nema í Reykjavík. — Þó að við gerðum það fyrir hæstv. ráðh. að skjóta á fundi núna í hléinu, sem var, þá kom nú ekkert út af honum. Menn voru sinn á hverri skoðun um hans till. um málið. En ég gleðst þó yfir einu í hans till., ég gleðst yfir 5. gr., þar sem hann virðist vera kominn á þá skoðun, að rétt sé að verðjafna rafmagn úti um landið. Ég vona, að seinna meir, þegar farið er að taka á því máli, þá hafi hæstv. dómsmrh. ekki breytt um skoðun, heldur fylgist þá líka með okkur.