04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hæstv. forseti vildi nú vísa á bug vitum minum í garð forsetanna beggja. En ég vil nú mér til málsvarnar í því sambandi láta það koma fram, að ég hafði spurt hæstv. forseta, á hvaða máli hann mundi byrja á dagskránni, því að ég gæti ekki komið alveg í fundarbyrjun, og hann hafði tjáð mér, að það mundu verða almannatryggingar, en þegar ég kom í fnndarsalinn, var um það bil að ljúka umr. um verðjöfnun á olíu, sem forseti hafði tekið fyrst á dagskrá, og munaði því minnstu, að umr. um málið væri loklð, þegar ég kom hér í fundarsalinn, svo að menn mega af þessu sjá, hvort ekki hefur átt að láta okkur hafa heldur lítið ráðrúm, suma þm.

Ég skal svo að þessu sinni aðeins gera grein fyrir brtt. þeim, sem ég hef nú formað og leyfi mér að flytja hér skriflega við frv.

Fyrsta brtt. er sú að taka út úr verðjöfnuninni verðjöfnnn á benzíni, og hljóðar hún þá þannig, að orðið „benzín“ í 1. og 2. gr. og „ákvæði til bráðabirgða“ falli niður, 3. gr. falli niður, þ. e. um flugvélabenzínið, og úr fyrirsögn frv. falli niður orðin „og benzíni“. Efni hennar, þessarar brtt., er þá það að taka út úr verðjöfnuninni benzínið, en það voru færð að því óhrekjandi rök hér við umr. málsins, að með því að taka upp benzínverðjöfnunina væri beinlínis verið að stofna til almennrar verðhækkunar á benzini í landinu. Það kom bæði fram í álitum olíufélaganna og hér fram í umr., og því var ekki mótmælt, að verðjöfnun á benzíni hlyti að leiða til almennrar verðhækkunar, m. ö. o. gera verzlunina og viðskiptin með benzínið í landinu almennt tilkostnaðarsamari.

Þá legg ég fram aðra brtt., að á eftir 2. gr. komi tvær nýjar greinar. Fyrri greinin er svo hljóðandi: „Ríkisstj. skal tafarlaust láta rannsaka kostnað útvegsmanna í öllum verstöðvum landsins vegna nota þeirra af húsum og öðrum mannvirkjum í þágu útgerðarinnar. Ef það sannast, að kostnaður þessi sé ójafn að tiltölu, skal viðskmrn. setja ákvæði um jöfnun hans, og skulu þau byggð á sömu meginreglum og settar eru í 1. og 2. gr. laga þessara“, þ. e. a. s., að hann sé jafn á öllu landinu. Hin greinin er svo hljóðandi, ný grein: „Ríkisstj. skal tafarlaust láta rannsaka olíukostnað útvegsmanna í öllum verstöðvum landsins. Ef það sannast, að olíukostnaðurinn sé ójafn að tiltölu vegna mismunandi langra siglinga á fiskimið og annarra aðstæðna, skal viðskmrn. setja með reglugerð, ákvæði um jöfnun hans, sem tryggi, að hinn raunverulegi olíukostnaður sé hinn sami við útgerðina um allt land.“

Mér skilst, að hv. flm. þessa máls hafi viljað stefna að því, að útgerðarmenn byggju við sama olíukostnað, — á því hefur málflutningur þeirra byggzt, — hvar sem þeir væru á landinu. Þeir hafa hins vegar miðað sína verðjöfnun við olíueiningu, að olíueiningin væri jafnkostnaðarsöm, hvar sem hún er keypt. En ég geri ráð fyrir því, að það vaki fyrir þeim, að aðstaða manna sé söm að því leyti, að hinn raunverulegi olíukostnaður, að tiltölu, eins og ég orðaði það, miðað við róðra eða miðað við skippund af fiski, sem veitt er, sé hinn sami hvar sem er á landinu. Ég treysti því þess vegna fullkomlega, að hv. flm. fagni þessari till., og hvað sem verður um aðrar brtt., fylgi þeir henni, og hún sé í fyllsta samræmi við þann tilgang, sem þeir hafa lýst hér með fögrum orðum að vekti fyrir þeim í sambandi við þetta mál.