28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. á þessu stigi málsins neitt að ráði. Hv. frsm. sagði, að það væri rangmæli, skildist mér, að ef þetta frv. yrði að l., þá væri gefið af almenningseign til sérstakrar stofnunar. Og skýring hans á þessum ummælum hans var sú, að þær stofnanir, sem hér væri um að ræða, væru sjálfar almenningseign, þannig að það væri í raun og veru bara að færa það úr öðrum vasanum í hinn. Það má að vísu segja um margar efnahagstiltektir, að það sé verið að færa úr öðrum vasanum í hinn. En svo stendur á með þessar stofnanir, sem hér er um að ræða, að Búnaðarbankinn telst að vísu eign ríkissjóðs, en hann starfar eftir ákveðnum lögum og reglum. Honum er ætlað það sérstaka hlutverk að styrkja og styðja með lánsfé og á annan hátt bændastéttina í landinu til síns atvinnurekstrar. Allt það fé, sem honum er lagt af ríkissjóði, kemur því fram sem beinn stuðningur við þá, sem skipti hafa við bankann, gjöf til þeirra atvinnustétta, sem hafa skipti við hann, svo framarlega sem bankinn leggur ekki þetta fé á sparisjóði til þess síðar að nota það og þá væntanlega í þessu sama augnamiði. Þetta er líka alveg augljóst og þarf ekki um að deila, lesi menn greinargerð frv. og liti á mál þeirra, sem hafa mælt hér fyrir því. Tilgangurinn með þessu frv. er að tryggja það, að lán til bænda þurfl ekki að vera með hærri vöxtum eða verri kjörum en nú er, þ. e. a. s., að vaxtakjör geti orðið á þeim tilteknu lánum, sem um er að ræða, milli 2 og 2½%, hvað sem líður þeim vöxtum, sem aðrir landsmenn eiga að borga. Og það er vitaskuld það, sem skiptir máli í þessu sambandi. Það er mjög æskilegt þrátt fyrir vaxtahækkun erlendis og stórfellda vaxtahækkun hér innanlands almennt að geta haldið óbreyttum vöxtum á langs tíma lánum til bænda, ég skal játa það. Menn verða bara að gera sér grein fyrir því: Er það réttlætanlegt, þegar litið er til annarra íbúa þessa lands, sem líka þurfa á lánsfé að halda og stuðningi við sinn atvinnurekstur. Með þessu er í raun og veru verið að gefa Búnaðarbankannm, þ. e. þeim landsmönnum, sem hann sér fyrir starfsfé, af almenningseign, af fé allra landsmanna. Það er því fullkomlega rétt, sem ég áðan sagði, að hér er verið að gera ráðstafanir til að gefa af almenningseign til takmarkaðs hóps landsmanna.

Hv. frsm. sagði einnig, að það mundi verða erfitt að finna hliðstæður, benda á, að önnur fjárframlög, sem ríkissjóður hafl veitt, ættu eftir eðli sínu að hlíta sömu reglum og gert er ráð fyrir um þau framlög, sem fjallað er um í frv. Ég held, að það sé ósköp fljótlegt að finna hliðstæðu í því efni. Hér fyrir þessu hv. Alþingi liggur frv. á þskj. 5, — 5. mál í Nd., — þar sem ríkisstj. er heimilað að taka að láni 22 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt, endurlána þetta fé til stofnlánadeilda Búnaðarbankans, byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs, með sömu kjörum og það er tekið, þ. e. a. s. með hærri vöxtum, en þessar deildir taka af sínum viðskiptamönnum. Ég gæti tekið ótal fleiri dæmi, ef ég hefði tíma til. Ég held þetta nægi fyrir hv. flm. í bili. Þetta hefur þó verið borið fram af hæstv. ríkisstj. í hv. Nd. núna á þessu þingi. Það stendur nákvæmlega eins á með þetta lán. Hæstv. ráðh. sagði áðan: Hvaða vit er í því, að stofnun sé að taka lán með 5% og lána út með 2½%, sjóðirnir tæmast fljótlega á því. — Og það getur verið, að þetta verði líka. Er ekki sjálfsagt að fara sömu leiðina, — er ekki bezt fyrir okkur að fresta afgreiðslu þessa máls? (Landbrh.: Það þarf fé til að standa undir þessu). Ja, gerir það það? Það var nú það, sem ég var að benda á áðan, að það þyrfti fé til að standa undir þessu, nema ríkissjóður taki þetta á sig. Nú á náttúrlega Búnaðarbankinn sem betur fer töluvert gilda varasjóði, sem hann hefur safnað sér með skynsamlegri starfsemi, opinberum framlögum og eðlilegum rekstrarhagnaði, þannig að hann getur mætt töluverðu af þessu. En það stendur nákvæmlega eins á um þetta frv., sem hér er um að ræða, eins og t. d. um frv., sem ég minntist á áðan. Það eru mýmörg mál önnur, sem svipað má um segja, eins og hv. flm. mætavel veit; þetta er bara byrjunin. Og svo halda menn áfram, ekki með kröfur fyrir landbúnaðinn væntanlega, heldur einnig vegna annarra atvinnugreina.

Ég skal ekki karpa við hv. frsm. um, hvort þetta sé heppilegt eða eðlilegt að miða hlutföll framlaga úr ríkissjóði við íbúatölu í kaupstöðum og í sveitum. Ég benti bara á þetta sem eitt atriði. sem kæmi til greina í sambandi við það, sem ég hef áður sagt. Ég vil engu slá föstu um það efni. En það eitt sýnir þó, hversu ákaflega fjarri fer því í ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. og tillögum þessara manna, að tillit sé tekið til fólksfjöldans, því að þau hlutföll, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að verði mörkuð, eru alveg öfug að því er fólksfjölda viðkemur í þessu tilliti.

Hæstv. landbrh. gaf hér mjög fróðlegar og mikilsverðar upplýsingar, sem ég er honum þakklátur fyrir. Hann upplýsti, að ríkisstjórn Luxembourg-búa væri nú bændum velviljuð, þeir legðu fram hvorki meira né minna en 150 millj. kr. á ári sem bein framlög og styrki til bænda og þeirra stofnana og til viðbótar væri svo enginn bóndi þar í landi, sem borgaði nokkurn skatt. Það virðist ekki vera amalegt að búa í Luxembourg, — ég verð bara að segja það. Það er fjarri mér að vilja vefengja þessar upplýsingar hæstv. ráðh., þó að ég hafi nú örlitlar efasemdir um, að það sé allur sannleikurinn sagður. Ég vil ekkert draga í efa, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. segir, en að allur sannleikurinn sé sagður með þessu, verð ég því miður mjög að draga í efa. —

En svo kom framhaldið hjá hæstv. ráðh. Hann sagði, að þrátt fyrir þetta stæðu þeir sig mjög vel í fjármálum, geta þeirra í þeim efnum væri svo mikil, að þeir þyrftu ekki á neinum erlendum lánum að halda. Þetta var skýringin á þessari rausn, að fjárhagurinn væri svona góður og þeir hefðu það nægilegt fé innanlands, að þeir þyrftu ekki að leita til útlanda til að fá lán í þessu skyni, eins og bent er á að þurfi jafnvel að gera hér. En er nú víst, að við getum það sama í þessu efni eins og Luxembourg-búar, úr því að við erum stórskuldugir innanlands og utan og þurfum að sækja mikið af okkar starfsfé árlega til útlanda sem lán? Mér finnst, að ekki sé hægt að loka augunum fyrir þessum stórfellda aðstöðumun, ef maður ber saman við Luxembourg eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hefur veitt. Svo kom loksins lokasetningin hjá hæstv. ráðherra, sem ég er honum mjög þakklátur fyrir. Hann sagði, að sá ráðh., sem hér var á ferð og hann ræddi við um þessi mál, hefði sagt honum, að þetta væri mjög vel ráðið og menn teldu þetta yfirleitt hyggilegt fyrir Luxembourg, meðan aðrir atvinnuvegir geta staðið undir þessu. Þá komum við að því, sem er kjarni málsins í þessu efni: Eru aðrir atvinnuvegir í landinu svo á vegi staddir, að þeir geti lagt fram það fé, sem hér er farið fram á til stuðnings landbúnaðinum? Er sjávarútvegurinn þannig staddur, að hann geti það? Er iðnaðurinn þannig staddur, að hann geti það? Og hverjir aðrir atvinnuvegir gera það, ef þeir geta það ekki? Það var það, sem ég óskaði eftir í minni fyrri ræðu að hv. fjhn. gæti gefið svör við eða hæstv. fjmrh., áður en málið kemur til afgreiðslu hér í d. — Sé ég sannfærður um það, að aðrir atvinnuvegir geti staðið undir þessu og fjárhagur ríkisins sé svo góður, að þetta sé eðlileg ráðstöfun með tilliti til hags alls almennings, ekki bara með tilliti til bænda og óska þeirra, þá mun ég vera með þessu. Séu aftur upplýsingarnar á annan veg, þá er að taka því.