28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að benda á tvö eða þrjú atriði í sambandi við þetta, sem eiginlega hafa ekki komið fram í umr. Ég vil fyrst minna á það, að hér var á árunum ráð, — ég man nú ekki, hvort það hét „nýsköpunarráð“ eða „nýbyggingarráð“, — sem var til húsa hérna niðri í Tjarnargötunni, uppi á lofti þar. Þetta ráð athugaði m. a. þörf landbúnaðarins íslenzka fyrir stofnlán og kom með frv. inn í þingið, þar sem mælt var fyrir, að leggja skyldi ræktunarsjóði ½ millj. kr. árlega í 10 ár og byggingarsjóði 2 millj. kr. árlega í 10 ár. Sex ár af þessu eru liðin. Þessar áætlanir, sem ég nú aldrei sá, en þetta var byggt á, munu hafa byggzt á því verðlagi, sem þá var, og því gengi, sem þá var, og þörf til þess að endurbyggja bæi á Íslandi í sveitum og þörf á að auka ræktað land í sveitum með því verðlagi, sem þá var. Jafnframt var viðurkennt af þeim og þeirri ríkisstjórn, sem hér sat þá, og af öllu Alþ., — því að það var enginn ágreiningur um þetta frv. á Alþ., — að það væri nauðsynlegt, að það opinbera sæi fyrir stofnfé í þessar lánsstofnanir. Nú vil ég biðja nefndina að fá þessa grg., sem þetta frv. hefur verið byggt á, og aðgæta, hvað þær 2 millj., sem þá voru ætlaðar byggingarsjóðnum, mundu hrökkva núna til þess að fullnægja þeim þörfum, sem allt Alþ. þá var sammála um að ætti að fullnægja, og hvort þessi ½ millj., sem þá átti að nægja á ári til að rækta fyrir, hrökkvi langt nú til að framkvæma sömu jarðabætur sem allt Alþingi taldi að ætti að gera ár hvert og til átti að lána ½ millj. kr. Allt Alþ. var sammála um að gera þetta samkv. útreikningi þessarar nefndar, — ég held það hafi nú verið kallað „nýsköpunarráð“, ég man það ekki, því að það átti að skapa, en ekki svona gefa almenn ákvæði. (Dómsmrh.: Var það góð nefnd?) Það má nú deila um það sjálfsagt eins og öll mannanna verk. Það gerði margt. Það kann að hafa gert eitthvað gott, þó að það hafi ekki gert allt gott. En í þessu tilfelli ákvað það, að lánsupphæðin þyrfti að vera ½ millj. til ræktunarsjóðs, 2 millj. til byggingarsjóðs, þá væri fullnægt eðlilegri þróun. Nú bið ég fjhn. um að athuga, hvað þessar tölur þurfa að vera háar mína. Allt Alþ. var sammála um, að þetta ætti að gera þá; hvað þarf núna háar tölur til þess að geta gert það sama? 4. þm. Reykv., sem var mjög með þessu þá og þetta vildi gera þá, hvað þarf mikið núna til að gera það sama? Hann mun telja vafalaust, að það þurfi að gera það sama enn þá eins og þurfti að gera þá, og hvað þarf þá mikla peninga til þess? Ég er ekki í neinum vafa um það, að hann er ekki búinn að breyta neitt um skoðun um það, að ríkissjóður eigi enn þá að leggja fram stofnfé til að lána, alveg eins og hann vildi þá, og hvað þarf þá mikla peninga í það?

Í öðru lagi vildi ég benda 4. þm. Reykv. á það, að hann er sjálfur flm. að frv. til l. á þskj. 137, þar sem er ætlazt til, að ríkissjóður ábyrgist sölu á 30 millj. kr. skuldabréfum handa verkamannabústöðunum og kaupi sjálfur skuldabréf fyrir 4½ millj. Hann sér ástæðu til þess, að ríkið sjálft leggi nú þarna fram stofnfé; það á að ábyrgjast sölu á bréfunum, ábyrgjast söluna og taka sumt af þeim sjálft. Hvað er það nú, sem hér er gert með því frv., sem fyrir liggur á þskj. 125? Það er að láta verkamannabústaðina hafa það, sem þeir þegar hafa fengið að láni. Það er verið að fullnægja að nokkru leyti frv., sem þm. sjálfur fiytur og er 105. mál á þskj. 137. En þegar aðrir tala um það heldur en hann sjálfur, þá er ekki hægt að vera með því.

Það var sérstaklega þetta: Það eru eftir núna 4 ár af þeim tíma, sem ríkissjóður á að leggja fram 2 millj. í byggingarsjóðinn og 500 þús. í ræktunarsjóðinn. Það var viðurkennt af öllum alþm., hverjum einasta, sem sat á þingi, þegar álitið var hæfilegt að leggja þetta fram, til þess að þá fengjust hæfilega miklar framkvæmdir og hæfilega yrði byggt upp í sveitunum. Ég spyr þá sömu alþm., sem voru með því þá: Hvað þarf mikið fé núna til að gera þetta, sem 2 millj. kr. þurfti til þá í íbúðarhúsabyggingar og ½ milljón í ræktunarframkvæmdir?