28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er óþarfi að lengja þessar umr. frekar, því að það liggur nú alveg ljóst fyrir, sem ég er að reyna að koma til vegar að kæmi greinilega fram, að þar sem þurft hefur að bæta við byggingarsjóð og ræktunarsjóð með dýrum vöxtum fé, sem var búizt við að ekki þyrfti að bæta við þá áður með svona kjörum, þá hafa þessi lán þær afleiðingar, að sjóðirnir eyðast, eins og kom sérstaklega fram hér hjá hv. 4. þm. Reykv. Þá er ekki nema um tvennt að ræða, að það verða engir peningar til þess að lána íslenzkum landbúnaði eða að það verður að hækka vextina stórlega, til þess að sjóðirnir eyðist ekki. Núna stendur þannig á, að bankinn hefur peninga til þess að lána í framkvæmdir, sem eru gerðar í ár, en enga peninga til þess að lána í framkvæmdir þriggja seinustu ára, sem bændur koma með núna og þurfa að fá lán út á. Og það er rétt fyrir hv. þd. að athuga það, að þetta er svona þrátt fyrir það, að lánapólitik bankans er viðurkennd af öllum innlendum og erlendum sérfræðingum það „konservatív“ í þeim tilgangi að geta lánað sem flestum, að það er lánaður minni hluti af framkvæmdum bænda, heldur en er lánað í framkvæmdir nokkurra annarra, eins og menn sjá, þegar lánað er núna sem hámark 60 þús. út á íbúðarhús í sveitum og í samræmi við það út á aðrar framkvæmdir. Þrátt fyrir það að lánapólitíkin sé eins og ég hef lýst, þá stendur dæmið svo, að við höfum enga peninga til að lána, en eigum að fara að borga 3 millj. í skuldum, sem ríkið taldi að fært væri að leggja á sjóðina að greiða. Það hefur verið, þegar til kom, þessi nýja lánapólitík, sem hefur orðið að reka fyrir sjóðina, til þess að þeir gætu haft fé í bráð til þess að lána út, en hefnir sín á allan hátt.

Ég skal ekkert fara að hefja alveg almennar umr. hér um stefnu stjórnarinnar, þó að tilefni gæfust til þess. En ég vil aðeins benda á það, að þó að séu lánaðar út svona miklar upphæðir, að lánsupphæðin er aðeins lítill hluti af kostnaðinum við framkvæmdina, þá kannske getur það skýrt málið fyrir einhverjum, ef við hugsum okkur, að bóndi taki 60 þús. að láni í íbúðarhús og jafnframt að hann taki í aðrar framkvæmdir svipaða upphæð, sem er þó mjög lágt áætlað. Ef gert er ráð fyrir því, að bóndinn borgi venjulega vexti af þessum upphæðum, þá er það með 7% vöxtum, eins og bankavextir eru núna, 8.400 kr. Aðeins vextirnir af þessum litla hluta af framkvæmdinni eru 8.400, áður en farið er að reikna með afborgun, sem hann þarf að borga til viðbótar, og ég fullyrði, að þessi upphæð ein er hærri en menn leyfa sér að taka í afgjald af heilli jörð með öllum verðmætum, þó að það séu góðar jarðir. Á því geta menn séð, að ef bændur eiga að búa við almenna vexti, þá er það fyrir þá slíkar fjárhæðir, að það er útilokað að búa á Íslandi. Ég held, að það sé yfirleitt alls staðar þannig, að menn hafa skilið, hvað landbúnaðurinn er oft naumur á arðinn, þó að hann sé öruggur og undirstaða okkar þjóðfélags, eins og maður kallar það, hér meira að segja frekar en annars staðar, en þetta er alls staðar sama reglan.

Ef þið takið bara þelta litla dæmi, þá sjáið þið, hvort bóndann munar yfirleitt um þetta eða ekki. Fullyrðing hv. 4. landsk. stafar af hreinni vanþekkingu á landbúnaði og þeim fjárhæðum, sem þar er velt. Það, sem við erum hér með milli handanna, er þá þetta, sem er nú viðurkennt í umr., eyðing sjóðanna og stöðvun lána, sem ég veit að enginn þm. vil] horfast í augu við með þennan atvinnuveg, frekar en aðra, eða hækkun vaxta, sem er líka útilokað að framkvæma hér. Það er þetta, sem við eigum að horfast hérna í augu við, og það liggur fyrir í umr., einmitt eftir að hv. 4. þm. Reykv. talaði um þessi mál. Það er alger misskilningur, sem verður að leiðrétta hér, að því sparifé, sem við höfum, sé blandað saman við þennan sjóð. Bankinn er í 3 deildum: byggingarsjóði og ræktunarsjóði og svo sparisjóðsdeild. Því hefur verið haldið fram af einstökum mönnum og meira að segja hér í hv. d., að bankinn ætti að lána eitthvað úr sparisjóðsdeildinni til framkvæmda í íslenzkum landbúnaði. En það verður að segja það hér, að meðan ég ræð einhverju með þennan banka, — og ég hugsa líka, að ég tali þar fyrir alla bankaráðsmennina og sömuleiðis bankastjóra, — þá förum við ekki inn á slíka pólitík. Við höfum ekki gengið inn á þá pólitík að borga 6% í vexti af sparifé og lána út til 42 ára með 2–2½%. Það erum við sammála um að gera ekki. Við verðum alltaf að hafa stóra sjóði í bankanum, vegna þess að spariféð er mjög valt, og það vita allir, og er einmitt mikil eftirsókn að fá lán í bankanum, vegna þess að sparisjóðurinn eða sjóðurinn, sem við höfum í geymslu, er venjulega hár, af því að bankinn verður að halda sér í hvíld. Þess vegna er það, að það er alveg útilokað að fara inn á þá pólitík að lána úr sparisjóði eða rétta sig af með sparisjóðnum gagnvart þessum lánum. Það verður aldrei farið inn á. Það væri gersamlega óheiðarleg pólitík gagnvart þeim sparifjáreigendum, sem trúa okkur fyrir sinu fé. Þeir verða að geta fengið það hvenær sem þeir vilja og hafa hingað til getað fengið það í þessum banka, án þess að við höfum til nokkurra þurft að sækja um að borga út það, sem sparifjáreigendurnir hafa heimtað á hverjum tíma. Það er athugandi, bara til að gera sér ljóst, hvað þetta er hreyfanlegt, að það hefur verið upplýst, að á seinasta hausti voru milli 10 og 20 millj. í sparisjóðseign. Þær voru svo að segja allar farnar um áramót. Hvar hefði bankinn staðið, ef hann hefði rekið þá pólitík, sem hér er verið að benda á að hann geti rekið, að lána fé úr þessari deild yfir í hinar deildirnar og festa það til áratuga? Það er því ekkert um að ræða annað en þetta, sem hér liggur fyrir og það er skýrt. Þessar tvær deildir bankans, sem ekki styðjast við annað en þetta fé, sem margupplýst hefur verið hér hvert er, eyðast, og verður þar að siðustu ekki um nein útlán að ræða, eða það verður að hækka vexti. Og hvorug leiðin er fær.