03.02.1953
Efri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að láta undrun mína í ljós yfir þeim málatilbúningi, sem hér er hafður á Alþ. Frv. um Búnaðarbanka er búið að liggja hér í n. frá því snemma á þinginu. Till. sama efnis og nú voru samþ. hér við 2. umr. voru kolfelldar við fjárlagaafgreiðsluna. Ég geri því ráð fyrir, að allur þorri þm. hafi talið víst, að málið væri lagt til hliðar á þessu þingi í öllu falli. Nú er því feimnislaust lýst yfir hér, um leið og á að ljúka 2. og 3. umr. á einum klukkutíma í þessari d., að búið sé að gera samkomulag innan ríkisstj. um það, að Búnaðarbankanum skuli afhent af ríkisfé um 40 millj. kr., og jafnframt sé búið að lofa af hæstv. ríkisstj. að leggja Iðnaðarbankanum til 15 millj. kr. lán.

Ég verð að segja, að mér finnst það, það allra minnsta, sem hægt er að ætlast til af hæstv. forseta, að hann taki þetta mál út af dagskrá og fresti því til næsta fundar, þannig að auðið sé að bera fram brtt. við málið, áður en því lýkur hér. Annað er að svíkjast aftan að þm., sem ekki eru með í því ráðabruggi, sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Trúnaðurinn innbyrðis, milli þessara góðu manna, sést bezt á þeim orðaskiptum, sem hér hafa orðið milli þm. Barð. og hæstv. landbrh. „Trúðu hvorir öðrum illa, enda trúðu fáir báðum.“

Ég mælist mjög eindregið til þess, að hæstv. forseti taki málið út af dagskrá og það liggi ekki fyrir fyrr, en á næsta fundi. Hér er um það að ræða að ráðstafa af því fé, sem með óhæfilegum skattpíningi hefur verið tekið af landsmönnum til þess að skapa tekjuafgang á ríkisreikningunum, til einnar stofnunar í landinu. Slíkt verður að sjálfsögðu að fá þinglega meðferð og athugast, áður en slíkum málum er ráðið til lykta.