03.02.1953
Efri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi aðeins segja þetta út af því, sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan: Það er mikill misskilningur, að það hafi verið óformlegt að bera þetta fram sem brtt. við fjárlögin. Hér er ekki um annað að ræða, en ákveðna fjárveitingu úr ríkissjóði, þannig að það er laust við, að það sé á nokkurn hátt óformlegt. Þau rök voru heldur ekki borin fram af þeim, sem greiddu atkvæði á móti till. okkar við fjárlögin, vegna þess að ég hygg, að þá hafi ekki verið ætlazt til þess, að þetta frv. næði fram að ganga. Mér kom það sem sagt alveg á óvart, þegar ég heyrði, að það væri orðið samkomulag um, að frv. skyldi verða að l. Frv. var lagt hér fram snemma á þinginn, — það er með fyrstu málum, sem lögð voru fram á þessu þingi, — og það hefur ekki verið tekið fyrir í fjhn. fyrr en nú á síðasta fundi hennar, og þá var tilkynnt, að ríkisstj. hefði ákveðið, að það skyldi ná fram að ganga. Það, sem hefur gerzt, er einmitt það, sem ég sagði, þetta ánægjulega, að þessum hv. þm. hefur snúizt hugur.