07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

132. mál, lausn ítaka af jörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég vildi nú óska eftir því að fá málið afgr. sem fyrst og helzt án breyt., ef hægt er á það að fallast. Það er nú ekki venja og ekki eðlilegt samkv. þingsköpum að minnast á einstök atriði í frv. En um leið og málið fer í n., tel ég mig ekki geta komizt hjá því að vekja athygli á einu ákvæði frv., sem kynni að geta valdið einhverjum ágreiningi, en ég held að sé ástæðulaust að valdi þó nokkrum ágreiningi í þessu máli.

Það er ákvæðið í 7. gr., sem er um rétt þess manns, sem biður um að leysa ítak af sinni jörð, og rétt hins aðilans, sem ítakið á. Þar er svo ákveðið, að þetta skuli metið, hvor hafi meiri hag af þessum hlunnindum, sem í ítakinu felast, og síðan ákveðið, að ítakshafa er því aðeins skylt að hlíta lausn ítaksins, að hagsmunir hans af ítakinu séu metnir mun minni en hagsmunir lausnarbeiðandans af því að fá það leyst af jörðinni. Ég hef nú rætt við próf. Ólaf Lárusson um það, hvað í þessari reglu muni felast, og hann hefur bent mér á ýmsar meginreglur laga, sem byggjast á þessari reglu, sem þarna er sett fram, svo að ég álít, að með þessu sé fullum rétti náð fyrir þá, sem þurfa að óska eftir lausn ítaka af jörðum sínum. Venjulega er þetta þannig, — til þess að skýra þetta aðeins nánar, — að maður á jörð með reka og annar maður hefur ítak í jörðinni, — venjulega eru það nú einhverjar kirkjur, og tíðast er það, að þær eru allfjarri þessum reka, — þá er það t.d. alveg tvímælalaust, að sá, sem hefur rekann svo að segja við bæjardyrnar á ströndinni rétt hjá sinni landareign, hefur mun meiri hag af að hafa þau hlunnindi heldur en maður, sem er langt í burtu. Það er alveg tvímælalaust, að það felst í þessum málum, og þannig er með flest af þessum ítökum, að þau eru með þeim hætti, að þau koma að miklu betri notum fyrir þann, sem býr á jörðinni, sem ítakið er í, heldur en fyrir menn, sem eru langt í burtu. Og þannig mundi reglan, sem hér er sett fram í 7. gr., leiða til þess, að þessi ítök yrðu ítakseigendur að láta af hendi svo að segja undantekningarlaust.